Leiðsögn - Félag leiðsögumanna   •   Stórhöfði 29  •   Sími/Tel:  (+354) 588 8670  •  info@touristguide.is
Skrifstofan er opin frá kl. 13 - 16 mán.-fim. Lokað á föstudögum / Opening hours Mon-Thu: 1 pm-4 pm. Fri closed.

×

Warning

JUser: :_load: Unable to load user with ID: 1411998
Fréttir

Fréttir

06
Júní

Hjartanlega til hamingju með afmælisdaginn, kæru leiðsögumenn!

Félag leiðsögumanna fagnar fimmtíu ára afmæli í dag. Það var stofnað 6. júní 1972 á Hótel Loftleiðum þegar hátt í þrjátíu manns, karlar og konur sem höfðu unnið við að lóðsa erlenda ferðamenn um landið komu saman og stofnuðu með sér félag. Tilgangur félagsins var að efla samstöðu meðal leiðsögumanna og vinna að bættum kjörum, menntun og fagmennsku. Bjarni Bjarnason kennari var kosinn fyrsti formaður félagsins og hann lagði ásamt öðrum stofnfélögum grunninn að því félagi sem nú er starfandi, Leiðsögn, félag leiðsögumanna.

Fagmennskan í fyrirrúmi

Leiðsögn, félag leiðsögumanna er í senn fag- og stéttarfélag. Meðlimir þess eru langflestir faglærðir leiðsögumenn og bera sérstakan skjöld því til sönnunar. Það er nokkurs konar gæðastimpill, tákn um að þarna sé á ferðinni fagmaður sem farþegar, ferðaþjónustufyrirtæki og aðrir samstarfsaðilar geta treyst. En hann er líka ákveðið aðhald fyrir okkur faglærða leiðsögumenn sem verðum þá stöðugt að sýna að við séum traustsins verð.

Fyrir nokkrum árum var ákveðið að hleypa einnig ófaglærðum leiðsögumönnum inn í félagið að uppfylltum tilteknum skilyrðum og þeir jafnframt hvattir að afla sér fullrar menntunar á sviði leiðsagnar. Nú er unnið að því að efla enn menntun leiðsögumanna í samstarfi við skólakerfið og yfirvöld, meðal annars með svokölluðu raunfærnimati. Tryggja þannig að gæðin og fagmennskan verði höfð að leiðarljósi en í því felst að okkar mati ákveðin neytenda- og náttúruvernd. Þar með ættu öll alvöru  ferðaþjónustufyrirtæki sem rekin eru af metnaði og fagmennsku að geta ráðið til starfa góða og faglega leiðsögumenn og þjónað farþegum sínum með þeim sóma sem þeim ber.  

Fjöltyngdir sérfræðingar

Eins og allir vita hefur ferðaþjónustan gerbreyst á þessum fimm áratugum, vaxið úr því að vera jaðargrein yfir hásumarið upp í það að vera einn af helstu burðarásum íslensks atvinnulífs allt árið.

Nú eru félagar í Leiðsögn hátt í átta hundruð. Flestir leiðsögumenn eru fjöltyngdir, faglærðir sérfræðingar, hafa háskólanám að baki auk bóklegs og verklegs sérnáms í leiðsögn og bera eins og áður segir sérstakan skjöld með ártali því til sönnunar. Leiðsögumenn vinna við  ýmsar tegundir leiðsagnar eða blanda þeim saman eftir þörfum og eftirspurn: almenna leiðsögn, ökuleiðsögn, gönguleiðsögn, jöklaleiðsögn o.s.frv., alls á annan tug sérsviða.

Framtíðin er björt

Leiðsögumannsstarfið er því gríðarlega fjölbreytt og skemmtilegt, ekki síst fyrir ungt fólk sem hefur gaman af því að ferðast um landið okkar fagra og umgangast fólk hvaðanæva að úr heiminum. Framtíðin er björt í ferðaþjónustunni, eftirspurn eftir góðu og vel menntuðu starfsfólki er mikil, leiðsögumenn eru framlínufólkið í þeim geira og því hvet ég sem flest til að kynna sér í hverju nám og starf leiðsögumannsins er fólgið. Nánari upplýsingar má sjá á vefsíðu Leiðsagnar: https://www.touristguide.is/.

Nú eru ferðamennirnir aftur farnir að streyma hingað til lands og mjög mikið er að gera hjá leiðsögumönnum við að þjóna þeim út um allt land næstu mánuðina, fræða þá um land og þjóð og sjá til þess að þeir njóti sumarfrísins til hins ýtrasta við öruggar aðstæður.

Því fögnum við leiðsögumenn afmælisdeginum mánudaginn 6. júní með því að sinna starfinu sem jafnvel enn betur en endranær, en svo verður efnt til veglegrar ráðstefnu og hátíðarsamkomu til að fagna fimmtugsafmælinu í haust.

Ég vil fyrir hönd Leiðsagar færa því metnaðarfulla og framsýna fólki sem stóð að stofnun félagsins á sínum tíma bestu þakkir fyrir það merka framtak. Ennfremur þakka þeim fjölda félagsmanna sem hafa lagt á sig ómælt starf í þágu félagsins í gegnum tíðina. Hjartanlega til hamingju með daginn, kæru leiðsögumenn!

Friðrik Rafnsson,  formaður Leiðsagnar-félags leiðsögumanna (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.)

           

18
Maí

Stafræn félagsskírteini Leiðsagnar

Leiðsögn hefur nú látið útbúa rafræn félagsskírteini í samvinnu við fyrirtækið Smart Solutions. Skírteinin og leiðbeiningar fyrir uppsetningu hafa verið send út til félagsmanna í tölvupósti og hafa þegar um 170 manns virkjað skírteinin. Skírteinið er hægt að nota í tveimur veskisöppum (e. wallet),  Smart Wallet appi sem er fyrir Android snjallsíma og Apple Wallet fyrir Iphone snjallsíma. Félagsskírteinin gilda út árið 2022.

Ef tölvupóstur með leiðbeiningum um uppsetningu hefur ekki borist vinsamlegast hafið samband við skrifstofuna á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

04
Maí

Kynning á leiðsögunámi við HÍ - 5. maí kl. 16:00

Kynningarfundur fim. 5. maí kl. 16:00.

Sjá nánar á heimsíðu Endurmenntunar HÍ : Leiðsögunám (endurmenntun.is)

04
Maí

Nýjar siðareglur Leiðsagnar samþykktar

Undanfarna  mánuði hefur verið unnið að því að endurskoða og uppfæra siðareglur Leiðsagnar. Þær sem í gildi voru voru frá árinu 1999, eða rúmlega tuttugu ára, og því var löngu tímabært að endurskoða þær, ekki síst í ljósi mikillar umræðu um kynferðislegt áreiti í samfélaginu. Það er æ algengara að félög, fyrirtæki og stofnanir setji sér siðareglur. Þær eru vitaskuld ekki hugsaðar sem einhver refsivöndur heldur sem viðmið sem okkur er öllum er hollt að hafa hugföst. Stjórnin vann þetta í sameiningu en Friðrik Rafnsson formaður Leiðsagnar og Harpa Björnsdóttir, ritari héldu utan um vinnuna, auk þess sem leitað var liðsinnis Páls Ragnars Þorsteinssonar heimspekings hjá Siðfræðistofnun HÍ, en hann er sérfræðingur í þessu efni, hefur oft komið að slíkri vinnu og kom með margar gagnlegar ábendingar.

Tillögur að nýjum siðareglum leiðsögumanna voru kynntar á félagsfundi Leiðsagnar þann 5. apríl og birtar á vef félagsins. Þær voru lagðar fyrir aðalfund Leiðsagnar þann 26. apríl s.l. og samþykktar þar. Félagsmönnum er bent á að kynna sér þær vel. Hér er krækja á siðareglurnar: Nýjar siðareglur leiðsögumanna.

27
Apríl

Ný stjórn Leiðsagnar og skýrsla félagsstjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári


Aðalfundur Leiðsagnar 2022 var haldinn í gær. Meðal efnis var kosning stjórnar, en kjósa þurfti tvo aðalmenn og fjóra varamenn í stjórn. Harpa Björnsdóttir var endurkosin sem aðalmaður og Leifur Björnsson kemur inn sem nýr aðalmaður. Varamenn eru Gunnsteinn Ólafsson, Guðný Margrét Emilsdóttir, Hallfríður Þórarinsdóttir og Pétur Gunnarsson. Listi yfir félaga í ráðum og fastanefndum verður birtur hér á heimasíðunni innan tíðar. Hér fyrir neðan er skýrsla félagsstjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári þar sem formaður fór yfir áhersluatriði og það sem hæst bar á síðasta starfsári.

Skýrsla félagsstjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári

Frá því núverandi stjórn tók við hafa skipst á skin og skúrir í greininni,samfélaginu og heiminum eins og við vitum öll. Ástæðuna vitum við öll, farsóttin COVID19 og sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda, bæði hér heima og erlendis, eldgosið á Reykjanesskaga og nú síðasta árás Rússa á Úkraínu. Allt  hefur þetta áhrif á ferðavilja fólks, enda er greinin afar viðkvæmt eins og við vitum.

Síðasta sumar reyndist skárra en margir þorðu að vona en óvissan var mikil og erfitt fyrir ferðaþjónustufyrirtæki að gera áætlanir. Ekki bætti harður og erfiður vetur úr skák og ég hef heyrt það og þekki af eigin raun að sjaldan eða aldrei hefur þurft að endurskipuleggja ferðir eins oft með stuttum fyrirvara vegna ófærðar og óveðurs. Þannig hefur sannarlega reynt á okkur öll sem ásamt bílstjórum berum ábyrgð á öryggi farþeganna, en sem betur fer slapp þetta stórslysalaust. Um áramótin virtist allt líta vel út, en svo kom fram nýtt afbrigði kórónaveirunnar sem setti strik í reikninginn en það hefur sem betur fer reynst vera fremur milt og nú virðist sumarið og næstu misseri líta vel út og bjart framundan, jafnvel svo að stefnir í skort á mannafla í ferðaþjónustunni, þar á meðal á leiðsögumönnum. Við okkur blasir nefnilega sú staðreynd að þegar pestin skall á og fótunum var skyndilega kippt undar lífsviðurværi okkar áttuðu margir vanir og faglegir leiðsögumenn sig á því hversu ótraust og illa launað leiðsögumannsstarfið er og fengu sér tryggari og betur launaða vinnu.

Einn fylgifiskur slíkrar stöðu er að ferðaþjónustufyrirtækin eru farin að ráða nánast hvern sem er til leiðsögustarfa. Við höfum undanfarnar vikur fengið sífellt fleiri tilkynningar um að þar sé því miður ekki farið að kjarasamningum. Viðbrögð Leiðsagnar og Kjaranefndar félagsins undir forystu Snorra Steins Sigurðssonar, formanns kjaranefndar, eru þau að ganga mun betur eftir kærumálum sem þessum heldur en gert hefur verið undanfarin ár og leita til þess aðstoðar sérfróðra lögmanna, auk þess sem við höfum notið liðsinnis VR, ASÍ og fleiri samherja. Þessi stefna er þegar farin að bera árangur sem sést á því að nokkur fyrirtæki sem hafa verið nokkuð ósvífin undanfarin ár eru farin að óska eftir fundi með félaginu að fyrra bragði og vilja koma sínum málum á hreint gagnvart félögum Leiðsagnar. Sem dæmi má nefna að nýverið var fundað með ónefndu ferðaþjónustufyrirtæki vegna afar losaralegra ráðningarsamninga og meints launastuldar. Á fundinum voru málin rædd af hreinskiptni og fyrirtækið lofar bót og betrun Annar slíkur fundur með öðru fyrirtæki var haldinn nú í  dag að frumkvæði þess. Á þessu og fleiru sést að ferðaþjónustufyrirtækin er farin að taka Leiðsögn af meiri alvöru en áður, vilja vanda sig og fara að samningum og það er sannarlega fagnaðarefni. Vonandi verður það til þess að fyrrgreind fyrirtæki og fleiri átti sig á því að Leiðsögn mun gæta hagsmuna félagsmanna sinna af fullri hörku og að kjarabrot og launaþjófnaður verða ekki liðin framar.

Stjórn Leiðsagnar hefur fundað reglulega, um það bil á þriggja vikna fresti eins og sjá má í fundargerðum á vef félagsins. Það hefur unnið að framfara- og hagsmunamálum félagsmanna, m.a. með því að auka gagnsæi og efla og bæta samskipti innan félags sem utan og sinna aukinni upplýsingagjöf, meðal annars með reglulegum pistlum sem sendir hafa verið félagsmönnum og birtir á vef félagins. Auk þess hef ég sem formaður birt nokkrar greinar í blöðum til að minna á mikilvægi okkar leiðsögumanna sem framlínufólks í ferðaþjónustunni og fengið mikil og góð viðbrögð við þeim, meðal annars frá ráðherra ferðamála, Lilju D. Alfreðsdóttur. Í framhaldi af þeirri grein áttum við Harpa Björnsdóttir, ritari félagsins, mjög góðan fund með ráðherra og nú á næstunni er fyrirhugaður fundur með fulltrúum ráðuneytisins um efni sem lengi hefur verið baráttumál okkar leiðsögumanna: lögvernd starfheitisins. Eins og þið vitið hefur gengið á ýmsu með það mál undanfarin ár og áratugi, en vonandi er það loks að komast í gott horf og með samstarfi okkar leiðsögumanna og samtakamætti tekst það vonandi. Einnig má geta þess að ráðherra óskaði eftir að funda reglulega með fulltrúum Leiðsagnar um málefni leiðsögumanna og verður fyrsti fundurinn þess efnis ákveðinn á næstunni. Sem sagt, mjög jákvæður og góður fundur sem styrkir tengsl Leiðsagnar við yfirvöld og verður vonandi til að efla hagmuni okkar, ekki veitir af.

 
Í ljósi óvissu og sveiflna í greininni og þar af leiðandi í tekjum félagsins hefur verið haldið þétt og skipulega utanum fjármál félagsins síðasta ár og eru þau nú í góðu horfi þrátt fyrir nokkuð tekjutap síðastliðin tvö ár vegna pestarinnar. Ársreikningar síðasta árs hafa verið endurskoðaðir og samþykktir af endurskoðunarmönnum reikninga og voru settir inn á innri vef félagsins til kynningar í síðustu viku. Þeir verða kynntir nú á eftir og vonandi samþykktir fljótt og vel hér á aðalfundinum. Ég vil þakka bókara félagsins, Sonju Kjartansdóttur, endurskoðendum reikninga, Bergi Álfþórssyni og Snorra Ingasyni og stjórninni fyrir mjög vönduð vinnubrögð við frágang þeirra. Skýr og skiljanlegur lagarammi er öllum félögum nauðsynlegur.

Starfshópur um breytingar á lögum félagsins hóf störf síðastliðið haust rétt eins og ákveðið var á síðasta aðalfundi. Hann skipaði formaður, fulltrúi Fagdeildarinnar, formaður Kjaranefndar auk tveggja fulltrúa Trúnaðarráði og tveggja frá stjórn. Guðný Margrét Emilsdóttir, Harpa Björnsdóttir, Indriði Þorláksson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Snorri Steinn Sigurðsson og Steinunn Harðardóttir. Mér telst til að hópurinn hafi hist átta sinnum og liggur afrakstur þeirra miklu vinnu undir stjórn Indriða H. Þorlákssonar nú fyrir. Hann var kynntur á félagsfundi þann 5. apríl síðastliðinn og var í kjölfarið settur inn á vef félagsins til frekari kynningar. Ég vona að þið hafið náð að kynna ykkur þær en þær verða lögum samkvæmt lagðar fram til umræðu hér á fundinum og vonandi samþykktar. Mér er til efs að svo myndarlega og tímanlega hafi áður verið staðið að lagabreytingum innan Leiðsagnar, en það er í anda þess gagnsæis og þeirrar upplýsingamiðlunar sem núverandi stjórn hefur haft að leiðarljósi. Ég vil þakka þessum góða hópi mjög góða vinnu sem Indriði stýrði af mikilli hind,

Félagið skipaði í haust fulltrúa sinn í starfshóp Menntamálastofnunar um menntun leiðsögumanna, en fulltrúi félagsins er Guðný Margrét Emilsdóttir. Vinnan við það hefur nokkuð tafist, meðal annars vegna átaka og breytinga innan Menntamálastofnunar, en mun nú vera komin á gott skrið. Þessu tengt hefur nú þráðurinn verið tekinn upp í mikilvægu verkefni, svokallað raunfærnimat, og er vinnan við raunfærnimatið er hafin að nýju í samstarfi við Iðuna, fræðslusetur.

Unnið hefur verið skipulega að því að efla og styrkja tengslin við ýmsa aðila sem skipta leiðsögumenn miklu máli, svo sem Slysavarnafélagið Landsbjörg, Almannavarnir og Samtök ferðaþjónustunnar, verkalýðsfélagið Báruna vegna aukins vinnustaðaeftirlits auk þess sem rætt hefur verið við Félag fjallaleiðsögumanna um nánara samstarf og samvinnu. Þar skiptir miklu máli að gagnkvæmt traust ríki milli leiðsögumanna og þessara aðila, þannig náum við enn betur því markmiði sem hlýtur ævinlega að vera leiðarljós okkar: styrkja okkur faglega og þjóna farþegum okkar enn betur.

Innra starf félagsins og þjónusta við félagsmenn er einn af lykilþáttum starfseminnar og það er í sífelldri þróun. Þrennt hefur borið hæst. Starfshlutfall okkar frábæra starfsmanns á skrifstofunni, Ragnheiðar Ármannsdóttur, hefur verið hækkað úr hálfu starfi í sjötíu og fimm prósent starf, sem þýðir aukna þjónustu af hálfu félagsins, einkum á sviði kjaramála.

Launareiknivél var sett inn á innri vef félagsins nú í febrúar og hana geta félagsmenn nýtt sér til að ganga úr skugga um að laun og launatengd gjöld séu rétt reiknuð, hvort sem fólk starfar sem launþegar eða verktakar.

Útbúið hefur verið kerfi til að tengja saman félagavefinn og mínar síður þannig að hægt er að sækja um í sjóði félagsins með rafrænum hætti. Þannig verða allar umsóknir skilvirkari og eins auðveldar það alla umsýslu með þeim. Í framhaldinu er ef til vill hægt að gera afgreiðslu vissra umsókna allt að því sjálfvirka. Ennfremur er verið að fara yfir meðferð, varðveislu og eyðingu gagna varðandi sjóðina og endurbæta alla verkferla hvað það varðar sem var löngu tímabært.

Langþráð félagatal er nú komið á lokastig en talsvert hefur verið kallað eftir því undanfarið. Þar geta ferðaþjónustufyrirtæki leitað að leiðsögumönnum út frá ýmsum forsendum og þar með orðið til þess að enn fleiri verkefni bjóðast.

Loks má nefna að verið er að útbúa rafræn skilríki fyrir félagsmenn, en þau eru gagnleg til ýmissa hluta svo sem til að fá afslátt hjá ýmsum fyrirtækjum sem veita félagsmönnum í Leiðsögn afslátt af vörum og þjónustu. Innan skamms verða sendir út tölvupóstar  til félagsmanna með link þar sem hægt er að hlaða niður skírteininu í símann sinn.

           

Eitt af verkefnum síðustu mánaða var að endurskoða og uppfæra siðareglur Leiðsagnar. Þær sem í gildi voru voru frá árinu 1999, eða rúmlega tuttugu ára, og því var löngu tímabært að endurskoða þær, ekki síst í ljósi mikillar umræðu um kynferðislegt áreiti í samfélaginu. Það er æ algengara að félög og stofnanir setji sér siðareglur og þær eru vitaskuld ekki hugsaðar sem einhver refsivöndur heldur sem viðmið sem okkur er öllum er hollt að hafa hugföst. Stjórnin vann þetta í sameiningu en við Harpa Björnsdóttir héldum utan um vinnuna, auk þess sem leituðum við liðsinnis Páls Ragnars Þorsteinssonar heimspekings hjá Siðfræðistofnun HÍ, en hann er sérfræðingur í þessu efni, hefur oft komið að slíkri vinnu og kom með margar gagnlegar ábendingar. Siðareglurnar voru kynntar á félagsfundinum 5 apríl og voru einnig settar inn á innri vef félagsins til kynningar.

Sjúkrasjóður Leiðsagnar hélt 6 fundi árið 2021. Þar af voru 4 fundir eftir að ný stjórn tók við í júní 2021. Það sem af er ári 2022 hefur verið haldinn einn fundur. Upphæðir úthlutana í hinum ýmsu flokkum má sjá í Ársreikningi Sjúkrasjóðs. Verið er að gera tryggingastærðfræðilega úttekt á Sjúkrasjóði Leiðsagnar. Stjórn Endurmenntunarsjóðs Leiðsagnar hefur fundað eins og lög kveða á um (í haust og í gær, og raunar á tveimur aukafundum) og afgreitt fjölda umsókna, en meðal þeirra sem varða félagsmenn alla er að veitt hefur verið fé til Fræðslunefndar sem hefur boðið upp á nokkra örfyrirlestra um ýmis áhugaverð efni í samvinnu við Endurmenntun Háskóla Íslands.

Tvær breytingar urðu í stjórninni á árinu. Júlíus Freyr Theodórsson meðstjórnandi sagði af sér s.l. sumar sökum anna. Í október tilkynnti Jakob S. Jónsson, ritari félagsins afsögn sína vegna trúnaðarbrests, skipti svo um skoðun en í byrjun desember stjórn og trúnaðarráði aftur að hann hefði af persónulegum ástæðum ákveðið að segja sig frá öllum trúnaðarstörfum á vegum Leiðsagnar. Ég vil fyrir hönd félagsins þakka þeim báðum mjög gott samstarf og óska þeim alls hins besta.

Við fögnum fimmtugsafmæli Leiðsagnar á þessu ári, en það var stofnað árið 1972. Vinna er þegar farin af stað undir til að fagna því með ýmsu móti sem verður tilkynnt innan tíðar, en allar tillögur og ábendingar frá félagsmönnum eru vel þegnar. Meðal hugmynda er að útnefna heiðursfélaga þann 6. júní og vera með ráðstefnu og móttöku í kjölfar hennar í haust.

Traust á okkur leiðsögumönnum, og þar með félaginu okkar út á við, byggist náttúrulega fyrst og fremst á því hvernig við innum störf okkar af hendi. Nú á tímum fjöl- og samfélagsmiðla skiptir jákvæð umfjöllun líka miklu máli. Þess vegna hef ég reynt að vekja athygli á mikilvægi leiðsögumannsins í greinum og viðtölum í fjölmiðlum, m.a. í tengslum við Alþjóðadag leiðsögumanna þann 21. febrúar síðastliðinn.

Í félagi eins og Leiðsögn þurfum við leiðsögumenn líka að geta treyst hvert öðru. Því miður virðist nokkur misbrestur hafa verið á því undanfarin ár. Þess vegna höfum við sem nú erum í forystu félagsins lagt kapp á að efla traust til félagsins, bæði inn á við og út á við. Varðandi fyrri þáttinn má til dæmis nefna að við höfum unnið markvisst að því að bæta verkferla og utanumhald gagna sem varða starfsemi félagsins og sjóða þess og gætt vel að fjárhags félagsins á þessum viðkvæmu tímum í ferðaþjónustunni.

Kæru leiðsögumenn. Ég segi fyrir mig að starf leiðsögumannsins er eitt það allra skemmtilegasta sem ég hef unnið. Þjóna farþegunum okkar, fræða þá um söguna, sýna þeim landið og uppskera ómælt þakklæti fólks sem er komið hingað upp á hjara veraldar í frí. Styrkur félags eins og Leiðsagnar felst í því að við leiðsögumenn erum með ólíkan og fjölbreyttan bakgrunn. Með því að taka saman höndum og vinna að sameiginlegum hagsmunum, vera vakandi og rækta okkur sjálf og efla faglega mun okkur vel farnast. Það er vor í lofti eftir harðan og erfiðan vetur og full ástæða fyrir okkur að horfa keik og bjartsýn fram á veginn, slóðann, stíginn eða hvert sem leiðir ykkar kunna að liggja á næstu misserum.

Ég vil að lokum þakka öllu því góða fólki sem hefur lagt ómældan tíma og vinnu í þágu félagsins frá síðasta aðalfundi. Það er langt í frá sjálfsagt að bæta slíkri vinnu ofan á stundum langan vinnudag og fyrir það er ég og við í stjórninni afar þakklát.

f.h. stjórnar Leiðsagnar
Friðrik Rafnsson
Formaður

Reykjavik 26.4.2022

 

 

25
Apríl

Frá formanni

Kæru leiðsögumenn,

Nú líður að aðalfundi Leiðsagnar 2022 sem verður eins og fram hefur komið í tilkynningum haldinn annað kvöld þriðjudaginn 26. apríl klukkan 19:00 að Stórhöfða 29 (Grafarvogsmegin).

Drífa Snædal, forseti ASÍ ávarpar fundinn í upphafi.

Ýmis fundargögn hafa undanfarið verið sett inn á innri og ytri vef félagsins, þar á meðal lagabreytingatillögur Lagabreytinganefndar, tillögur að nýjum siðareglum leiðsögumenn og ársreikningar félagssjóðs, sjúkrasjóðs og endurmenntunarsjóðs. Heimasíða: https://www.touristguide.is/

Verði þær samþykktar hefur félaginu verið skapaður skýr og betri rammi sem vonandi gerir kleift að efla þjónstu við félagsmenn og efla þá enn faglega. Það er ætlunin með því að stofna til sk. faghópa þar sem félagsmenn geta tekið sig saman eftir áhuga og fagsviðum og fengið til þess fjárhagslegan stuðning frá félaginu. Þannig mætti hugsa sér faghóp ökuleiðsögumanna, faghóp sitjandi leiðsögumanna, faghópa um einstök tungumál og menningarsvæði, o.s.frv. Slíkir hópar yrðu sjálfsprottnir og lýðræðislegir, tímabundnir eða varanlegir, allt eftir þörfum, áhuga og vilja félagsmanna.

Önnur mikilvæg breyting er að hafa hóflegt aðildargjald sem allir félagsmenn borga og veitir tiltekin réttindi, en eftir sem áður eru greiðslur stéttarfélagsgjalda (iðgjalda) forsenda þess að safna réttindum í sjúkrajóð og endurmenntunarsjóð, en um það gilda lög um stéttarfélög.

Lagabreytingartillögurnar eru viðamesta efni fundarins og ég hvet ykkur eindregið til að kynna ykkur þær vel og vona að þær verði samþykktar, enda mikil vinna verið lögð í þær, vandað til verka og þær unnar í samvinnu við lögfræðing ASÍ.

Hlakka til að sjá ykkur sem flest og minni fólk á að vera málefnalegt, en það hefur nokkuð skort á það undanfarin ár.

Minni jafnframt á að samtal og samstaða leiðsögumenn er mikilvægari nú en nokkru sinn fyrr, nú þegar ferðaþjónustan er að fara á fullt skrið á ný.

Kær kveðja,

Friðrik Rafnsson

Formaðu Leiðsagnar- félags leiðsögumanna.

19
Apríl

Aðalfundur Leiðsagnar

AÐALFUNDUR LEIÐSAGNAR STÉTTARFÉLAGS

  1. 26. APRÍL 2022 KL. 19:00

Aðalfundur Leiðsagnar 2022 verður haldinn þriðjudaginn 26. apríl, kl. 19:00 að Stórhöfða 29 (gengið inn Grafarvogsmegin).

Þessi fundur verður einnig netfundur (krækja á fundinn verður sendur út á fundardag).

Dagskrá aðalfundar er eftirfarandi skv 22.gr laga félagsins.

  1. 1.         Kosning fundarstjóra og annarra starfsmanna fundarins
  2. 2.         Skýrsla félagsstjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári. Kynnt verða væntanleg rafræn skilríki og uppsetning félagsvefar á heimasíðu.
  3. 3.         Reikningar félagsins og sjóða þess lagðir fram til afgreiðslu.
  4. 4.         Tillögur um lagabreytingar.
  5. 5.         Fjárhagsáætlun lögð fram og tillaga gerð um aðildargjald, fag- og sérdeildagjöld.
  6. 7.         Kosning til stjórnar.
  7. 8.         Kosning til trúnaðarráðs.
  8. 9.         Kosning fulltrúa í fastanefndir og aðrar trúnaðarstöður.
  9. 11.       Kosning tveggja félagskjörinna skoðunarmanna reikninga til tveggja ára.
  10. 12.       Önnur mál.

Ársreikningar félagsins eru tilbúnir og liggja frammi á heimasíðu Leiðsagnar á „mínum síðum“ félagsmanna sem eru kjörgengir (minar.touristguide.is) og á skrifstofu félagsins.

 

Kjósa þarf:

* Tvo fulltrúa í stjórn til tveggja ára (þeir tveir sem hljóta flest atkvæði til stjórnarkjörs)

* Fjóra varamenn í stjórn, alla til eins árs (þeir sem hljóta sæti 3-6 eftir atkvæðamagni)

* Aðal- og varamenn í trúnaðarráð (sex fulltrúa í hvort, alla til eins árs)

* Fulltrúa í fastanefndir og aðrar stöður. Sjá. 18. grein laganna.

 

Framboð til trúnaðarstarfa fyrir Leiðsögn stéttarfélag

 

Framboð til stjórnar

Guðný Margrét Emilsdóttir

Gunnsteinn Ólafsson

Hallfríður Þórarinsdóttir

Harpa Björnsdóttir

Jens Ruminy

Leifur Björnsson

Pétur Gunnarsson

Trúnaðarráð

Áslaug Marinósdóttir

Bergsteinn Harðarson

Birna Imsland

Ellert Sigurðsson

Guðni Gunnarsson

Guðný Margrét Emilsdóttir

Hildur Bjarnason

Indriði Þorláksson

Jónína Birna Halldórsdóttir

Kári Jónasson

Leifur Björnsson

Óskar Grímur Kristjánsson

Pétur Gunnarsson

Sigurður Magnússon

Fastanefndir

 

Fagráð

Harpa Björnsdóttir til 2ja ára

Fræðslunefnd

Einar Þórðarson til 2ja ára

Ritnefnd

Einar Þórðarson til 2ja ára

Hluti af kosningunum verður rafrænn í gegnum kosningakerfi Leiðsagnar á minar.touristguide.is

Lög félagsins má finna hér:

https://www.touristguide.is/index.php/um-felagidh/loeg-og-reglugerdhir

Friðrik Rafnsson

Formaður Leiðsagnar

19
Apríl

Breytingatillögur lagabreytinganefndar á lögum Leiðsagnar stéttarfélags

Á aðalfundi Leiðsagnar á síðasta ári var samþykkt að fela sérstakri lagabreytinganefnd að semja tillögur um lagabreytingar á grundvelli framkominna hugmynda og að leita eftir frekari tillögum. Nefndin gerði það og vann tillögur sínar og tók afstöðu til allra hugmynda og ábendinga sem fram höfðu komið. Á félagsfundi Leiðsagnar, 5. apríl síðastliðinn voru lagabreytingatillögur frá lagabreytinganefnd Leiðsagnar stéttarfélags kynntar. Þær verða lagðar fyrir aðalfund Leiðsagnar á aðalfundi félagsins sem verður haldinn þann 26. apríl kl. 19:00.

Hér má kynna sér lagabreytingatillögurnar.

19
Apríl

Breytingatillögur á reglugerð Endurmenntunarsjóðs Leiðsagnar

Á félagsfundi Leiðsagnar stéttarfélags þann 5. apríl síðastliðinn voru kynntar lagabreytingatillögur fyrir Endurmenntunarsjóð Leiðsagnar. Tillögurnar verða lagðar fram til samþykkis á aðalfundi Leiðsagnar 26. apríl.

Hér má kynna sér tillögurnar.

11
Apríl

Siðareglur Leiðsögumanna

Nýjar siðareglur leiðsögumanna voru kynntar á félagsfundi Leiðsagnar þann 5. apríl. Þær verða lagðar fyrir aðalfund Leiðsagnar þann 26. apríl til samþykktar. Félagsmönnum er bent á að kynna sér þær vel. Hér er krækja á siðareglurnar: Nýjar siðareglur leiðsögumanna.

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image