FRÉTTIR

14. mars 2019

Staða leiðsögumanna í verkfalli annarra starfsmanna hjá ferðaþjónustufyrirtækjum

Félaginu hafa borist fyrirspurnir um stöðu leiðsögumanna ef til verkfalla kemur hjá bílstjórum eða öðrum sem verða þess valdandi að ferðir sem þeir eru ráðnir til falla niður eða raskast. Eftirfarandi er ætlað að vera til leiðbeiningar þar um en er ekki tæmandi. Mörg lagaleg álitamál kunna að koma upp.

Fastráðnir leiðsögumenn með tímabundna eða ótímabundna ráðningu eiga rétt á launum í vinnustöðvun annarra í samræmi við ráðningarsamning sinn. Komi til verkbanns af hálfu vinnuveitenda fellur réttur til launagreiðslna niður.

Leiðsögumenn, sem ráðnir eru til stakra ferða, eiga skv. greinum 3.2.4.1 og 3.2.4.2. í kjarasamningi rétt á greiðslum fyrir ferð sem þeir hafa verið ráðnir til en felld er niður nema niðurfellingin hafi verið tilkynnt 24 klst. fyrir áætlaðan brottfarartíma dagsferðar og 5 sólarhringum fyrir áætlaðan brottfarartíma langferðar. Þessi tilkynningarfrestur gildir þó ekki ef um er að ræða óviðráðnalegar ástæður eins og verkföll en þau ber að boða með það löngum fyrirvara að ekki ætti reyna á það. Ferðaráðnir leiðsögumenn fá ávalt greiddar þær ferðir sem hafnar eru þegar verkfall hefst.

Sérstakt tilefni til athugunar er að margir þeir leiðsögumenn sem ráðnir eru með ferðaráðningu kunna að hafa átt rétt á fastráðningu og ættu samkvæmt því að falla undir það sem segir um fastráðna leiðsögumenn hér að framan.

Leiðsögumenn sem starfa sem verktakar falla ekki undir ákvæði kjarasamninga og réttur þeirra til greiðslu fyrir ferð sem felld er niður ræðst af þeim samningi sem þeir hafa gert við verkkaupann.

Leiðsögumönnum ber eins og öðrum að virða þær reglur sem um verkföll gilda og er óheimilt að ganga í störf þeirra sem í löglega boðuðu verkfalli eru. Þannig ættu t.d. leiðsögumenn með aukin ökuréttindi ekki að taka að sér akstur í þeim tilvikum að bílstjóri fyrirhugaðrar ferðar er í verkfalli.

Lesa meira »
5. mars 2019

Segja eftirlitið máttlítið

Samtök ferðaþjónustunnar kynntu í dag tillögur um aðgerðir til að takmarka erlenda og ólöglega starfsemi í ferðaþjónustu á Íslandi. Samtökin segja of máttlítið og óskilvirkt eftirlit hafa í för með sér óáreitta brotastarfsemi erlendra fyrirtækja sem fari ekki eftir íslenskum lögum og kjarasamningum og stundi í krafti þess stórfelld undirboð. Þetta valdi því að samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja versni mikið, atvinnuöryggi launþega minnki og samfélagið verði af miklum tekjum.

Tillögurnar miða að því að taka á skattsvikum, eftirliti með rekstrarleyfum í farþega- og vöruflutningum, ólaunaðri sjálfboðaliðastarfsemi, eftirliti með erlendum ökutækjum, samvinnu eftirlitsaðila, heimagistingu, fjármagni og mannaflaþörf, afleiðingum brota og fælingarmætti, ábendingum og viðbrögðum. Samtök ferðaþjónustunnar taka fram að þau amist ekki við eðlilegri samkeppni sem fram fer samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. „Vandamálið er að fjöldi fyrirtækja nýtir sér það frelsi sem felst í viðskiptum yfir landamæri og of máttlítið og óskilvirkt eftirlit á íslenskum ferðaþjónustu- og vinnumarkaði til að stunda óáreitta brotastarfsemi sem skekkir samkeppnisgrundvöllinn.“ Til að árangur náist þurfi eftirlit opinberra stofnana, lögreglu og annarra að vera skilvirkt, samstillt og nægilega vel fjármagnað. Aðbúnaður oft skelfilegur Í skýrslu samtakanna eru nefnd nokkur dæmi úr íslenskri ferðaþjónustu um brotastarfsemi. Þar segir meðal annars að erlendt fólk aki um landið sem bílstjórar og leiðsögumenn, án leyfa eða skráningar, á verri kjörum en íslenskir kjarasamningar segi til um. Aðbúnaður bílstjóranna hjá þessum fyrirtækjum sé á köflum skelfilegur og þeir jafnvel látnir búa í bílunum sjálfum. Þá sé mikið um að öryggisatriðum sé ábótavant hjá erlendum hópferðafyrirtækjum, ekki sé farið eftir reglum um öryggisbelti, bílar séu ekki nægilega vel búnir til aksturs hér á landi, ekki nægilega tryggðir og bílstjórar hafi ekki nauðsynlega þjálfun í akstri við íslenskar aðstæður eða þjálfun í skyndihjálp. Dæmi séu um að ríkisborgarar frá löndum utan EES komi til Íslands á ferðamannaáritun en vinni svo óskráðir, án atvinnuleyfis og á launum undir kjarasamningum, auk þess sem ábendingar hafi komið fram um að sumar hestaleigur stundi félagsleg undirboð með sjálfboðaliðastarfsemi þannig að erlendir einstaklingar vinni fulla vinnu hjá fyrirtækinu án þess að fá greitt annað en fæði og húsnæði. Umfangsmikil ólögleg starfsemi „Grunur leikur á umfangsmikilli ólöglegri starfsemi sem tengist erlendum aðilum í ferðaþjónustu hér á landi, m.a. með félagslegum undirboðum, sjálfboðaliðastarfsemi og skattaundanskotum,“ segir í skýrslu samtakanna. Fyrirtæki sem stundi brotastarfsemi eigi auðveldara með að leika lausum hala ef eftirlit sé óskilvirkt, illa fjármagnað eða glími við hindranir.

Lesa meira »
28. febrúar 2019

NORRÆN TRÚ uppruni, áhrif, örlög - Námskeið EHÍ

Á námskeiðinu er fjallað um:
• Uppruna og þróun norrænna trúarbragða.
• Frumheimildir um norræna trú, bæði ritaðar heimildir og fornleifar.
• Landfræðilegt, sögulegt og félagsfræðilegt samhengi heimildanna.

Námskeiðið er 3 kvöld milli 20:00 og 22:00.
Hvenær: mán. 25. mars, 1. og 8. apríl
Kennsla: Ólöf Bjarnadóttir, MA í norrænni trú við Háskóla Íslands
Hvar: Endurmenntun, Dunhaga 7.
Verð: 19.300 kr í snemmskráningu / almennt verð 21.300 kr.
SNEMMSKRÁNING TIL OG MEÐ 15. MARS
Minnum á nauðsyn þess að snemmskrá sig á námskeið EHÍ til þess að hægt sé að sjá hvort næg þáttaka náist til að halda námskeiðin

Athugið! Þetta námskeið er aðeins ætlað leiðsögumönnum í Leiðsögn - Stéttarfélagi Leiðsögumanna. Námskeiðið er einnig í boði í gegnum fjarfundakerfið Zoom fyrir þá sem kjósa að sitja námskeiðið að hluta eða að fullu í gegnum fjarfundabúnað.

Lesa meira »
25. febrúar 2019

Skyndihjálparskírteini

Bendum félagsmönnum okkar á að hægt er að nálgast skyndihjálparskírteini rafrænt á vef rauðakrossins

https://skyndihjalp.is/skirteinid-mitt/

Allir sem hafa gild skírteini og með netfang sitt skrá hjá Rauðakrossinum geta sótt skírteini sín rafrænt í gegnum heimasíðu þeirra.
Þetta á við um alla þátttakendur námskeiða í boði félagsins a.m.k. síðustu 2 árin.

Lesa meira »

Viðburðadagatal