FRÉTTIR

15. júní 2019

Um framvindu í kjarasamningum 3

Það er eðlilegt að farið sé að gæta óþreyju hjá félagsmönnum vegna þess hve hægt hefur gengið að koma á nýjum kjarasamnigum. Í fyrri orðsendingum um framvindu í kjarasamningum hefur eftir því sem unnt er verið greint frá ástæðum þess, sem m.a. eru þær að lítið félag sem stendur eitt í viðræðum og hefur ekki tæki til þrýstings önnur en rök og góðan málstað, er nánast dæmt til að bíða eftir að hin stóru hafi lagt sínar línur. Þótt nokkuð sé um liðið frá gerð almennu samninganna eru enn fjölmargar samningaviðræður í gangi á hinum almenna vinnumarkaði, einkum um samninga á ýmsum sérsviðum eins og er í okkar tilviki. Í viðræðunum nú óskuðum við eftir breytingum á fjölmörgum atriðum sem ekki voru uppi á borðum í almennu samningunum og hefur nokkur árangur náðst í þeim efnum eins og gert hefur verið grein fyrir í fyrri skrifum. Hefur það að sjálfsögðu tekið tíma og gert það að verkum að allur samningstextinn hefur verið yfirfarinn. Þá hefur verið lögð áhersla á að ná fram breytingum á launaflokka- og starfsaldurskerfi þar sem meira tillit verði tekið til starfsundirbúnings og starfsreynslu en nú er auk þess sem stytting vinnuvikunnar hefur verið á dagskrá.

Beinar samningaviðræður síðustu daga hafa tafist nokkuð vegna aðstæðna hjá viðsemjendum okkar sem við urðum að taka tillit til en tíminn hefur verið notaður til óformlegra samskipta þar sem gengið hefur verið frá tæknilegum atriðum og afstaða til ágreiningsmála hefur þokast í átt til þess sem líklegt er að sátt geti orðið um. Formlegir fundir hefjast að að lokinni þjóðhátíð og þess er vænst að ljúka megi samningunum á hóflegum tíma.

Lesa meira »
5. júní 2019

Um framvindu í kjarasamningum 2

Hinn 26. mars sl. birti Leiðsögn greinargerð um stöðu og efni samningagerðar sbr. tengil hér í lokin og í lok apríl var gerð stutt grein fyrir stöðu viðræðnanna þá. Eins og þar kom fram mótuðust viðræður okkar af framvindu í samningum annarra stéttarfélaga fyrst af samningum SGS og VR og síðan af kjarasamningum iðnaðarmanna en í þeim eru atriði sem komið geta að gagni í samningum okkar og tekin voru upp í kröfugerð félagsins í viðræðunum. Viðræður þokuðust hægt meðan beðið var úrslita í framangreindum samningum og snerust að mestu um ráðningafyrirkomulag og ýmis mikilvæg réttindamál og hefur í þeim efnum þokast nokkuð til réttrar áttar. Í framhaldi af því lagði Leiðsögn fram tillögur sínar um öll önnur atriði samningsins, þ.m.t. vinnutímamál, nema launafjárhæðir. Hafa þær verið ræddar en endanleg svör við þeim hafa ekki fengist og ekki hafa verið lagðar fram tillögur um launaliði. Viðræðunefnd Leiðsagnar telur að nú sé ekkert til vanbúnaðar því að ljúka gerð kjarasamnings og hefur fengið samþykki trúnaðarráðs fyrir því að vísa kjaradeilunni til Ríkissáttasemjara verði ekki gengið frá samningum innan tíðar. Hefur viðsemjendum verið greint frá því og búist er við viðbrögðum þeirra á næstu dögum.

Lesa meira »
3. júní 2019

Endurmenntunarnámskeið bílstjóra

Skráning er opin á fjögur endurmenntunarnámskeið atvinnubílstjóra sem verða haldin í á næstu dögum í Fjölheimum Tryggvagötu 13 Selfossi. Þetta verða síðustu námskeiðin fyrir sumarlokun. Mjög mikilvægt er fyrir þá ökuleiðsögumenn sem þurfa að endurnýja ökuskirteinið sitt á næstunni að ljúka fimm námskeiðum til þess að geta endurnýjað atvinnuréttindin. Námskeiðin verða haldin samkvæmt reglugerð.

Þriðjudagurinn 4. júni kl 9 -16 Umferðaröryggi - bíltækni

Miðvikudagur 5. júni kl 9 - 16 - Lög og reglur

Þriðjudagur 11. júni kl 9 -16 Fagmennska og mannlegi þátturinn

Miðvikudagur 12. júni kl 9 - 16 Farþegaflutningar

Mjög mikilvægt er skrá þáttöku til þess að námskeiðin verði haldin: Vinsamlega sendið nafn og kennitölu til: gudni@okuland.is

Kveðja:
Guðni Sveinn Theoddórsson Ökukennari Leiðsögumaður

Lesa meira »
21. maí 2019

Haustferð Leiðsagnar - skráning hafin

Haustferð um norðurgosbeltið með Páli Einarssyni

Eins og kunnugt er urðu viðbrögð við forkönnun félagsins vegna væntanlegrar ferðar í haust um Norðurgosbeltið svo mikil og góð að ákveðið var að bjóða upp á tvær ferðir á sömu slóðir og með sömu ferðatilhögun. Því er hægt að velja á milli ferðar miðvikudaginn 25. og fimmtudaginn 26. september og annarrar ferðar laugardaginn 28. og sunnudaginn 29. september. Forkönnunin sýndi að öllu meiri áhugi var á síðarnefndu ferðinni en þeirri fyrri, þannig að skipuleggjendur áskilja sér allan rétt til að leitast við að jafna fjölda farþega í ferðunum tveimur. Annars gildir reglan fyrstur kemur fyrstur fær.
(Athugið: heildar fjöldi farþega takmarkast við 65 sæti í hvorri ferð og skráning er ekki endanlega staðfest fyrr en greitt hefur verið fyrir ferðina.)

Lausleg ferðatilhögun verður sem hér segir: Lagt verður upp frá Akureyri á miðvikudags- og laugardagsmorgni og komið við á flugvelli en síðan ekið áleiðis í Mývatnssveit þar sem skoðuð verða ýmis jarðfræðiundur við Mývatn og megineldstöðina Kröflu. Mögulega verður farið að Aldeyjarfossi á austurleið. Gist verður á Sel Hóteli við Skútustaði. Síðari daginn verður ekið að Dettifossi og í Hljóðakletta, komið við á Kópaskeri og farið um Öxarfjörð og Tjörnes aftur til Akureyrar.

Lesa meira »

Viðburðadagatal