Leiðsögn
Kringlan 7, 103 Reykjavík
Kt. 510772-0249
Opið /Open
08:30 -16:00, mán.- fim.
08:30 -16:00, Mon. - Thur.
08:30 -15:00, föstudögum
08:30 -15:00, friday
Sími / Tel
+354 588 8670
Fræðslunefnd Leiðsagnar kynnir í samstarfi við Leiðsöguskóla Íslands:
FYRIRLESTUR UM HLUNNINDI OG HVERNIG ÞAU HAFA BREYST Í GEGNUM TÍÐINA; LÆKNINGAJURTIR OG NÝTINGU ÞEIRRA Í LYFJAIÐNAÐI - 19. FEBRÚAR 2025, KL. 17:00 - 18:00
Fyrirlesturinn er fjarfundur. Fyrirlesari er Roland R. Assier, kennari við Leiðsöguskóla Íslands í áratugi, og hefur hann kennt atvinnuvegi við skólann. Roland er líka fagmenntaður leiðsögumaður og útskrifaðist úr Leiðsöguskóla Íslands árið 1984.
Hér er slóð á skráningarformið: https://forms.office.com/e/vJJ84Q1itb?origin=lprLink
Skráning er til kl. 13:00 þann 19. febrúar 2025 og fá þátttakendur sendar glærur og slóð á fyrirlesturinn þegar skráningu er lokið.
Upptaka af fyrirlestrinum verður send til félagsmanna, þeirra sem skrá sig á hann og er upptakan aðgengileg í viku, eftir að hún hefur verið send til félagsmanna.
Vinsamlega leggið 2.000 kr. inn á reikning Leiðsöguskólans Íslands til að staðfesta þátttöku. Kt. 6808911419; bankaupplýsingar: 0537-26-012544
Ef fyrirtæki greiðir fyrir þátttakanda vinsamlega setjið nafn í skýringu á greiðslunni.
Við hlökkum til að sjá ykkur sem flest.
Kær kveðja,
Fræðslunefnd Leiðsagnar
Við minnum á kynningarfund um fyrirhugaða sameiningu Leiðsagnar við VR í kvöld 4. febrúar kl. 19:30 í sal VR á 9. hæð í Húsi verslunarinnar. Fundurinn, sem er jafnt stað- og fjarfundur, fer fram á íslensku en er jafnframt túlkaður á ensku.
Hér fyrir neðan er tengill á fjarfundinn á Teams:
Meeting ID: 315 531 060 363
Passcode: cB6Kf66r
Boðað er til kynningarfundar þriðjudaginn 4. febrúar kl. 19:30 í sal VR á 9. hæð í Húsi verslunarinnar. Fundurinn, sem er jafnt stað- og fjarfundur, fer fram á íslensku en er jafnframt túlkaður á ensku.
Eins og áður hefur komið fram hefur á undanförnum mánuðum farið fram vinna í átt að sameiningu Leiðsagnar – félags leiðsögumanna við VR. Á sama tíma hefur farið fram vinna sem stuðlað gæti að sameiningu alls leiðsögufólks undir hatti VR og að henni hafa komið, ásamt Leiðsögn, Félag ökuleiðsögumanna og Félag fjallaleiðsögumanna.
Á fundinum verður kynnt hver staða þessara viðræðna er nú og eru félagsmenn allra félaganna boðnir á fundinn.
Fundarefni:
1. Kynning á mögulegri sameiningu VR og Leiðsagnar
2. Drög að reglum deildar leiðsögufólks í VR
Nánar má lesa um undirbúningsvinnuna á þessum síðum:
https://www.touristguide.is/index.php/frettir/item/2833-frettapistill-fra-formanni
https://www.facebook.com/Leikureinn1
Reykjavík, 28. janúar 2025
Halldór Kolbeins,
formaður stjórnar Leiðsagnar
Hér fyrir neðan er tengill á fjarfundinn á Teams:
Meeting ID: 315 531 060 363
Passcode: cB6Kf66r
Boðað er til félagsfundar Leiðsagnar þann 12. febrúar 2025.
Dagskrá félagsfundarins verður send út eftir að sameiginlegur kynningarfundur Leiðsagnar og VR hefur verið haldinn en tímasetning og dagskrá þess fundar verður auglýst síðar í þessari viku.
Tilgangur boðaðs fundar er að gefa félagsmönnum tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum, spurningum og tillögum sem sameiginleg nefnd VR, Leiðsagnar, Félags ökuleiðsögumanna og Félags fjallaleiðsögumanna mun fara yfir.
Einnig hefur komið fram ósk um að haldinn verði félagsfundur um stöðuna í félaginu og er því ákalli svarað með fundarboði þessu.
Þar sem hér er um mikilvægt mál að ræða sem varðar framtíð félagsins var ákveðið að boða fundinn með góðum fyrirvara þannig að sem flestir félagsmenn geti tekið daginn frá.
Stjórn ítrekar hér með að almennur kynningarfundur Leiðsagnar og VR verður auglýstur síðar í þessari viku, með upplýsingum um stað, tímasetningu og dagskrá.
Reykjavík, 21. janúar 2025
Halldór Kolbeins,
formaður stjórnar Leiðsagnar
Kæra leiðsögufólk.
Nú í upphafi ársins 2025 er að hefjast nýr kafli í sögu Leiðsagnar því áður en langt um líður munum við ákveða hvort verði af sameiningu félagsins við VR.
Í kjölfar samþykktar á aðalfundi vorið 2024, þar sem stjórn fékk skýrt umboð til að hafa samband við önnur stéttarfélög um að Leiðsögn sameinaðist þeim, hafði stjórn samband við fjögur stéttarfélög.
Eingöngu VR sýndi raunverulegan áhuga og stjórn Leiðsagnar og VR gerðu því með sér samstarfssamning um að stefnt skyldi að samruna.
Þangað til tók VR að sér að sjá um skrifstofu Leiðsagnar og þá um leið allt sem snertir stéttarfélagsmál. Þar hefur þetta öfluga félag náð fram jákvæðum lausnum fyrir fjölmarga félagsmenn sem starfa skv. kjarasamningi Leiðsagnar.
FUNDIR FRAM UNDAN
Að lokinni töluverðri vinnu á undanförnum vikum liggja nú fyrir drög að skilgreiningu á því hvernig Leiðsögn gæti starfað sem deild innan VR og verða þau kynnt á sameiginlegum fundi VR og Leiðsagnar í lok janúar.
Í framhaldi af þeim fundi verður boðað til almenns félagsfundar Leiðsagnar í annarri viku febrúar og þar geta félagsmenn tjáð sig um málið. Gert er ráð fyrir opnum og góðum skoðanaskiptum þar sem félagsmenn geta komið með athugasemdir og spurt þeirra spurninga sem þeir vilja fá svör við.
Athugasemdir og spurningar sem enn er ósvarað mun nefnd sú sem unnið hefur að samningsdrögum félaganna taka til umfjöllunar og skila síðan af sér skjali með endanlegri niðurstöðu um það hvernig Leiðsögn getur starfað sem deild innan VR, verði af sameiningu. Þetta verður borið upp til samþykktar á aðalfundum beggja félaganna; annars vegar í mars hjá VR og í apríl hjá okkur í Leiðsögn.
Tekið skal skýrt fram að til þess að af sameiningu félaganna verði þarf samþykki aðalfunda beggja félaganna. Hjá okkur í Leiðsögn þarf samþykki 2/3 fundarmanna.
HVAÐ? HVERS VEGNA? HVENÆR? HVERNIG?
Að sameinast VR er stór ákvörðun og margar spurningar vakna, sem vonandi tekst að svara og skýra vel á fundunum fram undan, en til undirbúnings eru hér skýringar í örstuttu máli:
HVAÐ? – Leiðsögn – félag leiðsögumanna sameinast VR, samþykki félagsmenn það.
HVERS VEGNA? – Félagsmenn í Leiðsögn eru ekki nógu margir til að mynda öflugt stéttarfélag. Félagið hefur ekki bolmagn til að standa undir skrifstofu sem getur starfað af krafti fyrir félagsmenn, ekki síst að því sem snýr að kjarasamningsmálum og brotum á kjarasamningi. Verði af sameiningu mun VR sjá um slíkt og félagsmenn okkar öðlast sömu réttindi og aðrir félagsmenn VR.
HVENÆR? – Formlega á aðalfundi vorið 2025, samþykki félagsmenn það.
HVERNIG? – Verði af sameiningu mun VR sjá um allt sem snýr að stéttarfélagsmálum leiðsögumanna, s.s. kjaramál, brot á kjarasamningi, sjóði félagsins og sjá um skrifstofu leiðsögumanna þar sem félagsmenn fá þá þjónustu sem þeir þarfnast. Fulltrúar leiðsögumanna munu eiga aðild að kjarasamningsgerð og vinna í góðu samstarfi við VR að öllum sínum sérmálefnum.
LEIÐSÖGUMENN FÁ SÉRSTAKA DEILD INNAN VR
ALLIR sem starfa skv. kjarasamningi leiðsögumanna eiga heima í deildinni, sama hvaða sérsviði leiðsögustarfa þeir sinna. Í samræmi við þarfir og áhuga félagsmanna verður starfað þar að öðrum málum en þeim sem snerta stéttarfélagsmál, s.s. fræðslu- og menntunarmálum, miðlun upplýsinga, námskeiðahaldi og öðrum hagsmunamálum á svipaðan hátt og Leiðsögn – félag leiðsögumanna hefur starfað að hingað til. VR býr yfir mjög góðri aðstöðu fyrir fræðslu- og fundarstörf sem félagsmenn deildarinnar munu geta nýtt sér á sama hátt og aðrir félagsmenn VR.
ALLT LEIÐSÖGUFÓLK SAMEINIST
Til að stétt leiðsögumanna verði jafn öflug og fjöldi þeirra sem stunda hvers konar leiðsögustörf gefur tilefni til er best að þeir sameinist í einu öflugu stéttarfélagi. Við inngöngu í VR gefst slíkt tækifæri.
Til að allt leiðsögufólk sameinist í einu öflugu félagi þarf að sjálfsögðu góða samvinnu. Því var fulltrúum stærstu félaga leiðsögumanna utan Leiðsagnar – Félagi ökuleiðsögumanna og Félagi fjallaleiðsögumanna – boðið sæti í undirbúningsnefnd VR og Leiðsagnar um sameiningu félaganna. Fulltrúar allra þessara leiðsögufélaga stóðu því að drögunum að því hvernig deild þeirra innan VR gæti starfað.
MIKILVÆGIR HAGSMUNIR OKKAR
Núna þegar við ætlum að taka samtalið um þessi mikilvægu skref í vegferð Leiðsagnar þurfum við að hafa núverandi og framtíðar hagsmuni stéttarinnar í heild í huga. Mikilvægt er að félagsmenn:
– kynni sér vel hvað samruni felur í sér,
– kynni sér hvað við fáum og hvað við þurfum að gefa eftir, og síðast en ekki síst,
– mæti á fundina og taki þátt í samtalinu.
Stjórn og trúnaðarráð Leiðsagnar væntir þess að sú umræða verði yfirveguð og málefnaleg þannig að hver og einn félagsmaður fái tækifæri til að koma þannig að málinu að hann geti af öryggi tekið sína ákvörðun á aðalfundinum í vor.
Einnig er það von stjórnar og trúnaðarráðs að félagsmenn sjái fyrir sér bjarta framtíð í félagi þar sem starfað er af friði og festu að því að efla leiðsögufólk í starfi og tryggja því góð starfsskilyrði og launakjör.
Reykjavík, 21. janúar 2025
Halldór Kolbeins,
formaður stjórnar Leiðsagnar
Fyrirlestur um stjórnmál Íslands
UTANRÍKISMÁL, SKATTAMÁL OG LAUN (FJARFUNDUR)DAGSETNING: 14.01.25., KL.: 17:00 - 18:00
Kæru leiðsögumenn,
Fræðslunefnd Leiðsagnar verður með örfyrirlestur þann 14. janúar 2025, kl.: 17:00 - 18:00. Viðfangsefnið að þessu sinni fjallar um: Stjórnmál Íslands, utanríkismál, skattamál og laun. Steinn Jóhannsson mun fræða okkur um þessi yfirgripsmál þjóðarinnar, sem hann þekkir mæta vel. Steinn Jóhannsson er okkur leiðsögumönnum vel kunnur, en hann kennir m.a. við Leiðsöguskóla Íslands.Þeir félagsmenn sem eru í stéttarfélaginu Leiðsögn, eða hafa greitt aðildargjaldið félagsins eiga rétt á því félagsstarfi sem Fræðslunefnd Leiðsagnar stendur fyrir.
Hér er slóðin að skráningunni á örfyrirlesturinn:https://forms.office.com/e/1T7q1Jg1D0?origin=lprLink
Félagsmenn sem skrá sig á örfyrirlesturinn fá sendar glærur um viðfangsefnið daginn áður en hann hefst.Skráningu á örfyrirlesturinn lýkur þann 13. janúar 2025. Kostnaður er 2.000 ISK sem greiðist til Leiðsöguskóla Íslands, sjá upplýsingar um greiðsluform á skráningarsíðunni. Fyrirlesturinn verður síðan aðgengilegur þeim er skráðu sig á hann í viku eftir að slóð á upptöku fyrirlestursins hefur verið send út til félagsmanna.
Örfyrirlestrar Fræðslunefndar Leiðsagnar eru í samstarfi við Leiðsöguskóla Íslands.Við hlökkum til að sjá ykkur sem flest.
Kær kveðja, Fræðslunefnd Leiðsagnar
Þessi vefsíða notar vafrakökur, með því að heimsækja vefsíðu okkar samþykkir þú notkun á vafrakökum. Sjá nánar.