Leiðsögn - Félag leiðsögumanna   •   Stórhöfði 29  •   Sími/Tel:  (+354) 588 8670  •  info@touristguide.is
Skrifstofan er opin frá kl. 13 - 16 mán.-fim. Lokað á föstudögum / Opening hours Mon-Thu: 1 pm-4 pm. Fri closed.

18
Júní

Aðalfundur Leiðsagnar 2020

Aðalfundur Leiðsagnar verður haldinn í kvöld fimmtudaginn 18. júní 2020

Fundarstaður: Salur eldri borgara að Stangarhyl 4, 110 Reykjavík.

Fundurinn hefst kl: 19:00 og húsið opnar 18:30

Hluti af salnum verður með 2 metra bili á milli fundargesta

Fundarstjóri verður Magnús M. Norðdahl

Gestur fundarins verður Drífa Snædal, forseti ASÍ

Athugið að samkvæmt fyrirliggjandi lagabreytingatillögu á að stofna nýjar nefndir (alþjóðanefnd, fræðslunefnd, ritnefnd og fagráð). Vinsamlega skoðið lýsingar á tilgangi og verkefnum þessara nefnda og mátið ykkur við þær, því hægt er að bjóða sig fram í þær á fundinum.

Leiðsögumenn sem ekki komast á fundinn geta fylgst með fundinum í gegnum netið. Nánari upplýsingar um það verða birtar á vefsíðu félagsins um kl 18:00 í dag. Fundurinn gæti verið myndritaður og/eða hljóðritaður.

Áhugasamir eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband í gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. fyrir nánari upplýsingar.

Ársreikningar félagsins vegna ársins 2019 liggja frammi á skrifstofu félagsins

Upplýsingar um lagabreytingatillögur, tilnefningar og framboð má nálgast hér neðst.

Dagskrá fundar: 

1. Skýrsla félagsstjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári.

2. Reikningar félagsins, áritaðir af löggiltum endurskoðanda, lagðir fram til afgreiðslu.

3. Ávarp gests, Drífu Snædal

4. Tillögur um lagabreytingar, sjá hér að neðan

5. Drög að fjárhagsáætlun skal lögð fram og tillaga um félagsgjald og fagdeildargjald.

6. Kosning til stjórnar og trúnaðarráðs og kosning fulltrúa í fræðslu- og skólanefnd og aðrar trúnaðarstöður.

7. Kosning tveggja félagskjörinna skoðunarmanna reikninga til tveggja ára.

8. Önnur mál.

Stjórnin

Eftirfarandi framboð hafa borist:
Til stjórnar:

Snorri Steinn Sigurðsson

Óskar Grímur Kristjánsson

Júlíus Freyr Theodórsson 

Sigurður Albert Ármannsson

Guðný Margrét Emilsdóttir

Þorsteinn Svavar McKinstry

Vilborg Anna Björnsdóttir

Leifur Björnsson

Jakob S. Jónsson

Stefán Arngrímsson

Valva Árnadóttir

Friðrik Rafnsson

Eiríkur Hreinn Helgason

Bergur Brynjar Álfþórsson

Í trúnaðarráð:

Valva Árnadóttir

Elisabet Brand

Birna Imsland

Júlíus Freyr Theodórsson 

Guðný Margrét Emilsdóttir

Hans Jakob S. Jónsson

Stefán Arngrímsson

Eiríkur Hreinn Helgason

Í Skóla og fræðslunefnd

Lovísa Birgisdóttir

Guðný Margrét Emilsdóttir

Lagabreytingar, tillögur frá laganefnd stjórnar og innsendar tillögur frá félagsmönnum sameinaðar í einn pakka. Svo ein tillaga frá undirbúningsnefnd fagdeildarfunds (sjá neðst)

Í laganefnd stjórnar voru Indriði H. Þorláksson, Guðný Margrét Emilsdóttir og Pétur Gauti Valgeirsson

Breytingar á texta laganna eru feitletraðar og eftir atvikum skýring á eftir

6. gr. Félagsgjöld

Allir félagar skulu greiða ákveðinn hundraðshluta af launum fyrir ferðaleiðsögn í félagssjóð. Launagreiðendur draga þetta gjald af launum leiðsögumanns í samræmi við kjarasamninga og skila því til félagsins, en sjálfstætt starfandi standa skil á þeim gjöldum sjálfir.

Aðalfundur ákveður hlutfall félagsgjaldsins á hverju ári. Lágmarksgjald til að öðlast félagsaðild og halda henni samsvarar félagsgjaldi af launum samkvæmt lægsta taxta félagsins fyrir 15 daga vinnu á síðustu 12 mánuðum fyrir 1. febrúar næst fyrir aðalfund ár hvert.

Félagar í deildum sbr. 7. gr. greiða að auki fast árgjald til sinnar deildar. Fjárhæð deildargjalds og skipting þess milli verkefna deildarinnar og félagsins skal ákveðin á aðalfundi samhliða ákvörðun félagsgjalds.

7. gr. Fagdeild og sérdeildir

Innan Leiðsagnar starfar fagdeild leiðsögumanna og sérdeildir fyrir leiðsögumenn með aðra nánar tiltekna menntun í leiðsögn, starfa við tiltekna tegund leiðsagnar, hafa sérstök réttindi sem krafist er eða annað það sem nánar er tiltekið í reglum um sérdeildir. Aðild að félaginu getur falið í sér rétt til aðildar að fagdeild og/eða einni eða fleiri sérdeildum og skal umsókn um aðild beint til viðkomandi deildar. Hver deild setur sér reglur um aðild og starfshætti sem stjórn Leiðsagnar staðfestir.

Stjórn félagsins setur reglur um deildir félagsins og skulu þær njóta þjónustu félagsins og skrifstofu þess vegna starfsemi, fjármála og bókhalds eftir því sem nánar er ákveðið í reglum um þær.

Deildirnar skulu vera samstarfsvettvangur fyrir þá sem í þeim eru og gæta sérhagsmuna þeirra. Deildarfélagar kjósa sér þriggja manna stjórn sem skipuleggur starfsemi deildarinnar og kemur fram fyrir hennar hönd gagnvart stjórn félagsins.

Hver deild getur tilnefnt áheyrnarfulltrúa í trúnaðarráð.

Skýring: Nafni breytt úr fagdeild í fagdeild og sérdeildir og orðalagi breytt.

9. gr. Réttindi félagsmanna.

Félagar í Leiðsögn hafa, nema önnur ákvæði laga þessara eða einstakra sjóða mæli fyrir um annað:

a) málfrelsi, tillögu- og atkvæðisrétt á félagsfundum svo og kjörgengi til embætta og trúnaðarstarfa fyrir félagið. Enginn skal þó gegna því embætti eða þeim trúnaðarstörfum, sem hann var kosinn til, lengur en 6 ár samfellt. Atkvæðisrétt um kjarasamninga og verkfallsboðun skal miða við lokadag annars almanaksmánuðar á undan atkvæðagreiðslunni. Þeir einir hafa atkvæðisrétt sem á þeim degi höfðu greitt a.m.k. fjórfalt lágmarksgjald til að öðlast félagaðild sbr. 6. gr. á síðustu fjórum mánuðum fyrir þann dag eða áttfalt lágmarksgjaldið á síðustu 12 mánuðum fyrir þann dag.

b) rétt til að bera merki félagsins við vinnu sína í samræmi við lög félagsins og reglur sem stjórn þess setur.

c) rétt til að skrá sig á lista yfir leiðsögumenn sem Leiðsögn útbýr og birtir.

d) rétt á greiðslum úr sjóðum félagsins svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðum sjóðanna.

Allir félagsmenn eiga rétt til aðstoðar félagsins vegna túlkunar á kjarasamningum og ágreinings um starfskjör.

Skýring: Atkvæðaréttur um kjaramál skýrður og þrengdur og settur hámarkstími á samfellda setu í embættum. Orðalag um rétt félagsmanna til aðstoðar lagfært. 

12. gr. Stjórn

Stjórn félagsins skal skipuð fimm aðalmönnum, formanni og fjórum öðrum, auk fjögurra varamanna, kosnum á aðalfundi. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn, en aðrir stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára – tveir í senn. Varamenn eru kosnir til eins árs. Hverfi kjörinn stjórnarmaður úr stjórninni skal varamaður taka við stöðu hans og gilda þá um hann þeir tímafrestir sem um aðalmanninn höfðu gilt. Stjórnin skiptir með sér verkum og kýs varaformann, ritara og gjaldkera á fyrsta fundi eftir aðalfund.

Trúnaðarráði félagsins er heimilt að ákveða að formaður skuli kjörinn í allsherjaratkvæðagreiðslu. Fari slík atkvæðagreiðsla fram, skal henni lokið fyrir upphaf aðalfundar og úrslit kynnt á aðalfundi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Á aðalfundi 2020 skal kjósa tvo stjórnarmenn til tveggja ára og tvo til eins árs.

Skýring: Stjórnarmenn verði kosnir til 2ja ára.

15. gr. Ritari og gjaldkeri

Ritari ber ábyrgð á að gerðabækur félagsins séu haldnar og færðar í þær allar fundagerðir og lagabreytingar. Hann undirritar gerðabækur ásamt formanni. Ritari ber ábyrgð á birtingu fundargerða félags- og stjórnarfunda á heimasíðufélagsins innan 10 daga eftir samþykkt þeirra.

Gjaldkeri er ábyrgur fyrir eftirliti með bókhaldi, fjárreiðum, og innheimtu félagsgjalda. Hann gerir á aðalfundi grein fyrir ársreikningum félagsins og fjárhagsáætlun næsta árs.

Skýring: Felldar saman tvær greinar. Felld út ábyrgð gjaldkera á punktum en bætt við skyldum hans á aðalfundi.

16. gr. Kjörnefnd

Trúnaðarráð getur falið sérstakri 3ja manna kjörstjórn það verkefni að gera tillögur um frambjóðendur til trúnaðarstarfa innan félagsins sem kosið er í á aðlafundi. Skal fjöldi frambjóðenda minnst vera einn fyrir hvert trúnaðarstarf sem kosið skal í. Einstökum félagsmönnum er einnig heimilt að bjóða sig eða aðra fram til trúnaðarstarfa án atbeina kjörnefndar. Öllum frambjóðendum skal gefinn kostur á að kynna framboð sitt á heimasíðu félagsins eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund sbr. gr. 21.

Skýring: Nýtt ákvæði um heimild til að mynda kjörnefnd með tilteknu hlutverki.

17. gr. Trúnaðarráð

Í trúnaðarráði eiga sæti aðalmenn og varamenn í stjórn félagsins, sex félagsmenn og jafn margir varamenn kosnir á aðalfundi og einn áheyrnarfulltrúi hverrar fagdeildar og sérdeildar.

Trúnaðarráð er samninganefnd félagsins. Það kýs viðræðunefnd til að annast samningaviðræður og gerð kjarasamninga með fyrirvara um samþykki trúnaðarráðs.

Trúnaðarráð skal fylgjast náið með launaþróun og breytingum á vinnumarkaði og framkvæmd kjarasamninga félagsins og kýs eða tilnefnir kjaranefnd til að sinna þeim verkefnum og setur henni erindisbréf.

Trúnaðarráð skal jafnframt vera stjórn til ráðgjafar og aðstoðar í almennum málefnum félagsins og kýs kjörstjórn til að sjá um allherjaratkvæðagreiðslur skv. lögum þessum.

Formaður félagsins er formaður trúnaðarráðs og ritari félagsins ritari þess.

Formaður kveður trúnaðarráð til fundar með þeim hætti sem hann telur best henta og er trúnaðarráðsfundur lögmætur þegar meirihluti ráðsins sækir fundinn.

Trúnaðarráð skal kalla til fundar að jafnaði eigi sjaldnar árssfjórðungslega.

Formaður getur auk þess kallað saman trúnaðarráð stjórninni til aðstoðar þegar ýmis félagsleg vandamál ber að höndum og ekki eru tök á að ná saman félagsfundi og ræður einfaldur meirihluti úrslitum í slíkum málum.

Skýring: Skýrari ákvæði um setu í trúnaðarráði og að fulltrúar sérdeilda hafi stöðu áheyrnarfulltrúa þar sem ekki er eðlilegt að þessir fulltrúar hafi atkvæðisrétt um kjarasamninga. Skýrari ákvæði um viðræðunefnd og kjaranefnd og verksvið þeirra.

18. gr. Fastanefndir

Innan félagsins starfa fastanefndir, ritnefnd, fræðslunefnd, fagráð og alþjóðanefnd skipaðar þremur félagsmönnum hver. Einn er tilnefndur af stjórn en tveir skulu kosnir til tveggja ára í senn á aðalfundi. Nefndirnar kjósa sér formann og skipta með sér verkum.

Ritnefnd sér um öflun og gerð efnis sem varða starfsemi félagsins og störf leiðsögumanna til kynningar út á við og miðlunar milli félagsmanna. Hún sér um heimasíðu félagsins og aðra samfélagsmiðla þess, birtingu á hagnýtum upplýsingum fyrir leiðsögumenn og annast útgáfu á kynningarefni og öðru sem félagið kann að ákveða.

Fræðslunefnd sér um fræðslu á vegum félagsins um efni sem tengist leiðsögustarfinu og verkefnum leiðsögumanna við kynningu á landinu, þjóðinni og menningu þess. Hún efnir til fræðslufunda um hagnýt og menningaleg efni, skipuleggur kynnisferðir fyrir leiðsögumenn, heimsóknir á áhugaverða staði, fræðslufundi og aðra viðburði.

Fagráð vinnur að stefnumótun í menntunar- og réttindamálum leiðsögunmanna og, kemur afstöðu félagsins í þeim á framfæri. Það annast samstarf við skóla sem kenna leiðsögn ferðamanna og annast skipulagningu námskeiða fyrir félagsmenn og fer með málefni sem varða starfsþjálfun og hefur umsjón með raunfærnimati.

Alþjóðanefnd annast samskipti og samstarf við samtök leiðsögumanna á Norðurlöndum, IGC, og í Evrópu, FEG, svo og félög leiðsögumanna í einstökum löndum eftir því sem tilefni er til.

Nefndir þessar starfa í nánu samráði við stjórn Leiðsagnar og skila henni yfirliti yfir störf sín svo oft sem þurfa þykir og greinargerð til aðalfundar félagsins.

Ákvæði til bráðabirgða: Fyrst skal kosið skv. grein þessari á aðalfundi 2020 og skal þá kosinn einn fulltrúi í hverja fastanefnd til eins árs og einn til tveggja ára.

Skýring: Nýskipan nefnda á vegum félagsins.

19. gr. Félagsfundir

Félagsfundir skulu haldnir þegar félagsstjórn telur þess þörf eða minnst 20 félagsmenn óska þess skriflega við stjórn félagsins og tilgreina fundarefni. Boða skal til fundarins innan tveggja vikna frá því að slík beiðni berst. Fundir skulu boðaðir með minnst þriggja daga fyrirvara með tölvupósti en bréflega til þeirra sem ekki hafa gefið upp netfang. Einnig skal birta auglýsingu á heimasíðu félagsins. Fundi í sambandi við vinnudeilur má boða með skemmri fyrirvara.

Fundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Verði ágreiningur um fundarsköp úrskurðar fundarstjóri hverju sinni með rökstuddum úrskurði í samræmi við almenn fundarsköp. Óski félagsmaður eftir skriflegri atkvæðagreiðslu á félagsfundi er fundarstjóra skylt að verða við þeirri ósk. Í atkvæðagreiðslum á fundum félagsins ræður einfaldur meirihluti atkvæða nema lög kveði á um annað.

Trúnaðarráð efnir til almenns félagsfundar vegna undirbúnings kjarasamninga sem og til kynningar á samningum þegar þeir hafa verið gerðir.

Skýring: Bætt við ákvæði um félagsfundi vegna kjarasamninga.

20. gr. Allsherjaratkvæðagreiðsla

Allsherjaratkvæðagreiðsla skal fara fram;

a) þegar stjórn og trúnaðarráð telja mál svo mikilvæg að rétt sé að hafa slíka afgreiðslu.

b) þegar greiða þarf atkvæði um verkfallsboðun nema verkfalli sé einungis ætlað að taka til ákveðins hóps félagsmanna eða starfsmanna á tilgreindum vinnustað og er þá heimilt að taka ákvörðun um vinnustöðvun með atkvæðum þeirra sem henni er ætlað að taka til.

c) þegar greidd eru atkvæði um aðalkjarasamning félagsins og

d) þegar mælt er fyrir um allsherjaratkvæðagreiðslu skv. lögum ASÍ.

Framkvæmd allsherjaratkvæðagreiðslu fer þá fram samkvæmt lögum og reglugerð ASÍ.

Skýring: Leiðréting málfarsatriða.

21. gr. Aðalfundur

Aðalfundur félagsins skal haldinn á tímabilinu 1. mars til 1. maí ár hvert. Aðalfundur skal boðaður með dagskrá á heimasíðu félagsins með a.m.k. einnar viku fyrirvara. Til fundarins skal jafnframt boðað með tölvupósti til þeirra sem hafa gefið upp netfang og er hann lögmætur ef þannig er til hans boðað.

Á hverjum aðalfundi skal liggja frammi skrá yfir félaga og kjörskrá. 

Auglýsa skal frest til framboðs í trúnaðarstöður og fyrir tillögur til lagabreytinga einum mánuði fyrir aðalfund.

Framboðsfresti skal eigi ljúka fyrr en 10 sólarhringum fyrir aðalfund og skal tillögum skilað til skrifstofu Leiðsagnar fyrir þann tíma. Framboð verði send út með fundarboði aðalfundar eigi síðar en einni viku fyrir aðalfund. Kjósa skal í stjórn trúnaðarmannaráð og nefndir félagsins á aðalfundi. Framboð til trúnaðarstarfa, sem kosið er til á aðalfundi, án tilskilins fyrirvara eru því aðeins heimil að ekki hafi innan frestsins borist framboð til þeirra starfa. Slíkum framboðum skal fylgja skrifleg heimild frá þeim, sem stungið er upp á.

Skýring: Felld niður kvöð um framlagningu skrár um félaga í sérdeildum og sett skýrari ákvæði um framboðsfresti sem og heimildir til framboðs eftir að fresti lýkur þrengdar.

22. gr. Dagskrá aðalfundar

Dagskrá aðalfundar skal vera:

1.      Kosning fundarstjóra og annarra starfsmanna fundarins

2.      Skýrsla félagsstjórnar um störf félagsins á liðnu starfsári.

3.      Reikningar félagsins og sjóða þess lagðir fram til afgreiðslu.

4.      Tillögur um lagabreytingar ef fyrir liggja.

5.      Fjárhagsáætlun lögð fram og tillaga gerð um félagsgjald, fag- og sérdeildagjöld.

6.      Kosning formanns eða lýsing formannskjörs.

7.      Kosning til stjórnar.

8.      Kosning til trúnaðarráðs.

9.    Kosning fulltrúa í fastanefndir og aðrar trúnaðarstöður.

10.  Kosning stjórnar sjúkrasjóðs félagsins.

11.  Kosning tveggja félagskjörinna skoðunarmanna reikninga til tveggja ára.

12.  Önnur mál.

Skýring: Ákvæði um kosningu embættismanna fundarins og dagskrá breytt til samræmis við breytingatillögur.

23. gr. Sjóðir

Sjóðir félagsins skulu vera:

1. Félagssjóður.

2. Sjúkrasjóður.

3. Endurmenntunarsjóður.

Sjóðir félagsins aðrir en félagssjóður skulu hafa sérstaka reglugerð samþykkta á aðalfundi. Reglugerðum sjóða má aðeins breyta á aðalfundi. Reglugerð hvers sjóðs skal tilgreina hlutverk sjóðsins, hverjar tekjur hans skulu vera, hvernig verja skuli fé hans og hvernig honum skuli stjórnað.

Stjórn Sjúkrasjóðs hefur eftirlit með  rekstri hans og ákveður greiðslur úr honum í samræmi við reglugerð um hann. Aðalfundur kýs þrjá menn og tvo til vara, sem ekki sitja í stjórn félagsins, í stjórn sjóðsins til tveggja ára í senn. Ákvörðunum stjórnar Sjúkrasjóðs má áfrýja til stjórnar félagsins.

Ofantaldir sjóðir greiða allan kostnað af starfsemi félagsins samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

Sjóðir félagsins skulu ávaxtaðir á tryggan hátt í ríkisskuldabréfum eða í ríkistryggðum skuldabréfum, í bönkum, í sparisjóðum og skuldabréfum tryggðum með veði í fasteign. Við meiriháttar ráðstafanir á eignum félagsins þarf samþykki félagsfundar.

Skýring: Sjúkrasjóði sett stjórn

29. gr. Lagabreytingar

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi enda hafi breytinganna verið getið í fundarboði.

Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist til skrifstofu félagsins 15 dögum fyrir aðalfund og skulu þær sérstaklega kynntar á heimasíðu félagsins og fylgja aðalfundarboði.

Til þess að lagabreytingar nái fram að ganga skulu þær hljóta samþykki 2/3 hluta atkvæða.

Lagabreytingar taka gildi um leið og þær hafa verið samþykktar. Lagabreytingar skal leggja fyrir miðstjórn ASÍ til staðfestingar.

Skýring: Til áréttingar á gildistöku samþykktra lagabreytinga.

Einnig barst eftirfarandi tillaga

Við 12. gr. bætist eftirfarandi setning (leturbreytta setningin):

Stjórn félagsins skal skipuð sjö aðalmönnum, formanni og sex öðrum, auk tveggja

varamanna, kosnum á aðalfundi. Varamenn eru kosnir til eins árs. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára í senn, en aðrir stjórnarmenn skulu kosnir til þriggja ára – tveir í senn. Varamenn eru kosnir til eins árs.

Ný setning:

Auk stjórnarmanna kosnum á aðalfundi eiga sæti í stjórn félagsins formenn hverrar starfandi fagdeildar.

Stjórn kýs félaginu varaformann, ritara og gjaldkera á fyrsta fundi eftir aðalfund.

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image