Fréttir

6. október 2015

Stjórnstöð ferðamála

Á grundvelli samkomulags milli ríkisstjórnar Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar verður sett á lagg-irnar Stjórnstöð ferðamála sem mun starfa til ársloka 2020. Stjórnstöðin sér til þess að næstu fimm ár verði nýtt til að ráðast í þau verkefni sem nauðsynleg eru til að leggja þann trausta grunn sem kallað er eftir í íslenskri ferðaþjónustu. Hlutverk hennar er að samhæfa aðgerðir og útfæra leiðir í samvinnu við stjórnsýslu, sveitar-félög, stoðkerfi greinarinnar vítt og breitt um landið, greinina sjálfa og aðra hagsmunaaðila.
Í Stjórn­stöðinni sitja Ragn­heiður Elín, Bjarni Bene­dikts­son, fjár­málaráðherra, Sigrún Magnús­dótt­ir, um­hverf­is­ráðherra og Ólöf Nor­dal, inn­an­rík­is­ráðherra, fyr­ir hönd stjórn­valda. Grím­ur Sæ­mundsen, formaður Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar, Þórður Garðars­son, vara­formaður, Helga Árna­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri SAF og Björgólf­ur Jó­hanns­son, for­stjóri Icelanda­ir Group og tveir fulltrúar sveitarfélaganna eiga þar einnig sæti.
Hörður Þór­halls­son, fyrr­um fram­kvæmda­stjóri Acta­vis, hef­ur verið ráðinn fram­kvæmda­stjóri Stjórn­stöðvar­inn­ar.

Lesa meira »
2. október 2015

Sýningin Sjónarhorn í Safnahúsinu

Sýningarstjórinn Markús Þór Andrésson, sem mun taka á móti leiðsögumönnum í anddyri Safnahússins við Hverfisgötu laust fyrir kl 16:00, þriðjudaginn 6. október nk.

Þessi sýning er grunnsýning á íslenskri list og sjónrænum menningararfi og býður upp á einstakt tækifæri til að skoða arfleiðina í nýju samhengi og varpa ljósi á ósagða sögu með nýstárlegum hætti.
Þá er húsið sjálft mikil gersemi en helsti frumkvöðull að byggingu þess var Hannes Hafstein fyrsti ráðherra Íslands. Hann valdi danskan arkitekt, Johannes Magdahl Nielsen, til að teikna húsið. Nielsen teiknaði einnig eikarhúsgögnin í lestrarsalinn sem enn eru í húsinu. Hornsteinn hússins var lagður 23. september 1906, á ártíðardegi Snorra Sturlusonar. Á hann er letrað „Mennt er máttur?
Fræðslunefnd Félags leiðsögumanna stendur fyrir þessum viðburði.

Lesa meira »
2. október 2015

Haustferð FL um Reykjanesið

Haustferð FL um Reykjanesið, laugardaginn 26. september 2015.
Þrátt fyrir afleita veðurspá lagði 30 manna hópur af stað í haustferðina undir dyggri stjórn Ásgeirs Eiríkssonar, leiðsögumanns. Ásgeir er að aðalstarfi bæjarstjóri í Vogum Vatnsleysuströnd og því lá það beinast við að hefja ferðina með því að fara gamla Keflavíkurveginn um Vatnsleysuströndina. Þessi landspilda, norðan Reykjanesbrautar, er svolítið „gleymd“ allir vita af henni en fara ekki um hana! Nokkrir leiðsögumenn eru hins vegar oft þar, helst í myrkri, í leit að norðurljósum! Við komum ekki að tómum kofunum með að vera í fylgd Ásgeirs sem þekkir þar hverja þúfu, segjandi ótal sögur af minni og stærri framkvæmdum, úr mannlífinu og af býsna bragglegu bæjarfélagi og gróðursælu! Það kom ýmislegt á óvart, m.a. hótelið, tjaldstæðið, golfvöllurinn og skógræktin. Mest um vert var að fara um þessa ljúfu sveit.
Ásgeir sagði okkur frá nýstofnuðum Reykjanes jarðvangi (Reykjanes Geopark) og nýfenginni vottun frá Evrópusamtökum um jarðvanga og frá samstarfi sveitarfélaganna á svæðinu um uppbygginu innan jarðvangsins. Nú þegar er búið að samræma útlit upplýsingaskilta, sem eru á íslensku og ensku, og mikil skipulagsvinna er hafin um ýmsa aðra innviði; bílastæði, merkingar, salernismál og fleira. Ásgeir talaði einnig um Auðlindagarðinn, sem er þyrping fjölbreyttra fyrirtækja umhverfis jarðvarmaver HS Orku í Svartsengi og á Reykjanesi. Stefna þessa fyrirtækjaklasa er að fullnýta kalt og heitt vatn sem upp kemur, þannig að það sem „afgangs“ verður hjá einum, nýtist öðrum. Dæmi: Bláa lónið, fiskþurrkunarfyrirtæki, Orf líftækni og Carbon Recycling International.
Næst lá leiðin til Grindavíkur. Við fórum um bæinn og fengum ýmsan fróðleik og ókum hringinn um Hópsnesið. Nú var svo komið að logn þeirra Suðurnesjamanna fór mjög hratt yfir! En vaskir leiðsögumenn eru alvanir svona aðstæðum og fóru út stutta stund. Á svæðinu er sögð mikil saga skipsskaða með skiltum við hluti sem sjórinn hefur kastað langt upp á land, sumir mörg tonn. Einnig segir frá hvaða skip fórust og um heimtur mannslífa og eða missi. Þetta er mjög myndarlega gert hjá Grindvíkingum og áhugavert að kynnast sögu þeirra og baráttu við krafta sjávarins og einnig margháttuðum björgunarafrekum hinnar öflugu slysavarnarsveitar í Grindavík.
Hádegismatur var í Salthúsinu en var boðið upp á hina fínustu gúllassúpu, heimabakað brauð og kaffi á eftir. Þá var næst að þræða ströndina og fyrsta stopp var við Brimketil. Það átti vel við að vera á þessum stað í mikilli veðurhæð og stórfenglegt að sjá öldurnar skella á klettóttri ströndinni. Við fórum út á Reykjanestá og sáum til Gunnuhvers, að Orkuverinu, að flúrueldisstöð, hausaþurrkun og fengum fræsðlu um svæðið. Farið var um þorpið Hafnir. Og litlu norðar var Básendaveðrið og afleiðingar þess rifjaðar upp. Örnefnin þarna sem tengjast sel, rostungum og hvölum segja sína sögu. Ekið var að Hvalsneskirkju, þar sem Hallgrímur Pétursson fékk loks brauð eftir að hafa greitt sektargjald fyrir „frillulíf“ sitt með Guðríði Símonardóttur. Að sjálfsögðu „photostop“ í rokinu. Hvalsneskirkja var hlaðin 1887 en turninn er úr timbri og mjög litfagur. Þar inni er legsteinn Steinunnar dóttur Hallgríms og Guðríðar varðveittur.
Farið var um Sandgerði. Þar er myndarleg höfn og þekkingarsetur Háskóla Íslands í sjávarlíffræði. Eitt af þekktari kennileitum dagsins í dag er veitingahúsið Vitinn sem framreiðir gómsætan grjótkrabba. Eftirspurnin mun vera gríðarleg. Þannig hyggst veitingahúsið reisa þyrlupall í nágrenninu svo gestir þurfi ekki að eyða tíma í ferðir! Loks var komið til Keflavíkur. Að sjálfsögðu var litið við í Hljómahöllinni, (áður Stapinn), metnaðarfullt verkefni og þar má finna Rokksafn Íslands, tónlistarskóla og tónleika- og ráðstefnusali. Einnig litum við inn í Duus-hús. Sú skemmtilega húsalengja hýsir Upplýsingamiðstöð ferðamála og fræðasetur fyrir jarðvanginn.
Dagurinn endaði í Garðinum, nánar til tekið úti á Garðskaganum sjálfum. Þar fékk hópurinn frábærar móttökur í byggðasafninu hjá Magnúsi Stefánssyni bæjarstjóra og Eyrúnu Ævarsdóttur, safnverði. Magnús sagði frá hugmyndum bæjarstjórnar um uppbyggingu þjónustu á svæðinu í kringum vitana vegna stóraukinnar umferðar langferðabifreiða með norðurljósaskoðendur. Bæta á alla aðstöðu og innviði. Við fengum kaffisopa og meðlæti í fyrrum lest báts sem stendur fyrir utan safnið. Eftir þessa góðu hressingu í boði bæjarstjóranna í Garði og Vogum, gengum við yfir í nýja vitann og upp á „pall tvö“. Bráðlega barst undurfögur rödd ungar söngkonu, Unu Maríu Bergmann, um allan vitann! Þarna er stórkostlegur hljómburður og var það áhrifamikil stund að hlusta á Unu Maríu syngja, án undirleiks, lög eftir Hjálmar H. Ragnarsson (Söngur Sólveigar), Gunnar Þórðarson (aríu úr óperunni Ragnheiði) og loks sálminn Heyr himnasmiður, sem allir þekkja. Ógleymanleg stund!
Nú var liðið á dag og dagskrá lokið. Fræðslunefnd þakkar Ásgeiri Eiríkssyni frábært val á stoppistöðum, skemmtilega frásögn og að veita okkur fróðlega innsýn í náttúru, atvinnu- og mannlíf og menningu á svæðinu. Heiðari Jóhannssyni, bílstjóra þökkum við einnig fyrir góðan og öruggan akstur.
Þess má geta að Ásgeir fór þessa ferð af gleðinni einni – þ.e. hann gerði það endurgjaldslaust fyrir félagið sitt! – Höfðinglegt af Ásgeiri.

Vefsíður sem gaman er að skoða tengdar ferðinni:
http://www.audlindagardurinn.is/
http://www.visitreykjanes.is/en/what-to-see-do/reykjanes-geopark
https://guidetoiceland.is/travel-iceland/drive/hopsnes
http://www.visitreykjanes.is/en/moya/toy/index/place/brimketill
http://www.visitreykjanes.is/is/reykjanes/place/the-municipal-museum-in-gardur

Lesa meira »
11. september 2015

Ferðamálaþing á Akureyri 28. október

Árlegt Ferðamálaþing verður haldið í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri miðvikudaginn 28. október 2015. Þingið er í umsjón Ferðamálastofu. Yfirskrift þingsins í ár er Stefnumótun svæða – Stjórnun og skipulag (e. Strategic Planning for Tourism). Skráning er hafin á ferdamalastofa.is

Lesa meira »

Viðburðadagatal