Leiðsögn - Félag leiðsögumanna   •   Stórhöfði 29  •   Sími/Tel:  (+354) 588 8670  •  info@touristguide.is
Skrifstofan er opin frá kl. 13 - 16 mán.-fim. Lokað á föstudögum / Opening hours Mon-Thu: 1 pm-4 pm. Fri closed.

21
Feb

Tungumál eru öryggistæki – þankabrot í tilefni af Alþjóðadegi leiðsögumanna

Tungumál eru öryggistæki – þankabrot í tilefni af Alþjóðadegi leiðsögumanna

Í dag fagna leiðsögumenn um heim allan deginum sínum. Alþjóðasamband leiðsögumanna hefur nefnilega fagnað degi leiðsögumanna 21. febrúar ár hvert frá árinu 1990. Tilgangurinn með þessum degi er að vekja athygli á mikilvægi leiðsögumanna um heim allan en það felst einkum í fimm meginatriðum: fræðslu, skemmtun, öryggi, náttúruvernd og neytendavernd.

Um það bil fjórir af hverjum tíu ferðamönnum sem koma hingað til lands fara í skipulagðar ferðir, allt frá dagsferðum og upp í tvær vikur. Leiðsögumenn gegna því lykilhlutverki í upplifun ferðamanna af landi og þjóð. Í starfi sínu hafa þeir ekki einungis áhrif á upplifun og öryggi ferðamannanna heldur einnig á jafnvægið á milli verndunar íslenskrar náttúru og hagnýtingar, þeir geta með framlagi sínu lagt sitt af mörkum í átt að sjálfbærri þróun atvinnugreinarinnar og aukið skilning umheimsins á sérstöðu Íslands, menningu og náttúru.

Menningarlæsi mikilvægt

Leiðsögumenn bera því mikla ábyrgð. Til að geta axlað hana þurfa þeir að vera vel menntaðir og þjálfaðir til að fást við krefjandi verkefni, stundum við erfiðar aðstæður. Veður og aðstæður í íslenskri náttúru geta eins og við vitum breyst á svipstundu og jafnvel orðið stórhættulegar. Þá ríður á að leiðsögumaðurinn sé vel þjálfaður og fagmenntaður og bregðist rétt við í samráði við bílstjóra. Reynsluleysi eða viðvaningsháttur við þær aðstæður geta orðið afdrifaríkar fyrir farþegana og ferðaþjónustufyrirtækið sem í hlut á.

Allir sem vinna í ferðaþjónustunni vita að ferðamenn sem sækja okkur heim koma víðsvegar að úr veröldinni, bakgrunnur þeirra er afar mismundandi og menningarmunur getur verið verulegur. Ég man nokkur dæmi þess að hafa verið með í einni og sömu dagsferðinni fólk af allt að tíu mismunandi þjóðernum. Það er reyndar fremur óvenjulegt, en algengt er að þjóðernin séu tvö eða þrjú. En í öllum tilfellum er mikilvægt að leiðsögumaðurinn sé vel menningarlæs og skilji að til dæmis Japani, Bandaríkjamaður, Frakki og Dani bregðast ekki eins við sömu aðstæðum. Við það bætist svo auðvitað að hver einstaklingur er einstakur. Þetta er meðal þess sem gerir starf leiðsögumannsins í senn snúið og skemmtilegt.

Góð tungumálakunnátta er öryggisatriði

Enskan er okkar annað mál og ágæt til síns brúks svo langt sem hún nær í samskiptum við marga sem hingað koma, hvort sem hún er móðurmál þeirra eða ekki.  Það er hins vegar alls ekki nóg því farþegar sem ekki eru frá hinum enskumælandi heimi hafa tilhneigingu til að ofmeta eigin enskukunnáttu, tala og skilja mismikla ensku, stundum jafnvel litla sem enga. Þá geta nauðsynlegar upplýsingar og fróðleikur farið fyrir ofan garð og neðan, hætta er á misskilningi varðandi tímasetningar og þess háttar. Því skiptir afar miklu máli að í boði séu leiðsögumenn (sjá Félagatal Leiðsagnar: touristguide.is) sem tala einnig önnur tungumál en ensku. Mér er kunnugt um að öll alvöru ferðaþjónustufyrirtæki leitast við að ráða til sín leiðsögumann sem talar móðurmál ferðamannanna, ekki einungis svo að ferðamennirnir njóti ferðarinnar betur í hvívetna heldur einnig til þess að tryggja öryggi þeirra og velferð sem allra best. Auk þess er það oft krafa erlendu ferðaskrifstofanna. Ef eitthvað kemur uppá í ferðinni (veikindi, slys, o.s.frv.) verða öll samskipti að vera skýr og fumlaus og því má sannarlega segja að góð tungumálakunnátta leiðsögumannsins sé ekki einungis spurning um þjónustustig og gæði heldur geti einnig verið lífsnauðsynleg.

Leiðsögn, drifkrafturinn í stéttinni

Leiðsögn, félag leiðsögumanna, er í senn fag- og stéttarfélag. Það var stofnað árið 1972 til að efla samtakamátt og fagmennsku innan stéttarinnar og fagnaði félagið fimmtugsafmæli á síðasta ári með glæsilegri samkomu og veglegu afmælisriti. Eins og allir vita hefur ferðaþjónustan gerbreyst á þessum fimm áratugum, vaxið úr því að vera jaðargrein yfir hásumarið upp í það að vera einn af burðarásum íslensks atvinnulífs allt árið. Hér áður fyrr var starf leiðsögumannsins gjarnan sumarvinna, en undanfarinn áratug eða lengur hefur ferðaþjónustan verið meginlifibrauð hundruða leiðsögumanna mestallt eða allt árið. Nú eru félagar í Leiðsögn hátt í þúsund og starfsemi félagsins öflug. Flestir leiðsögumenn eru faglærðir í leiðsögn og bera sérstakan skjöld á sér því til sönnunar, margir hafa auk þess háskólanám að baki og eru konur í meirihluta.

Nýverið gekk félagið frá skammtíma kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins (SA) og Samtök aðila í ferðaþjónustu (SAF) og á næstu mánuðum verður unnið að því að leiðrétta launakjör leiðsögumanna, bæta starfskjör þeirra og færa þau til nútímahorfs.

Við leiðsögumenn, framlínufólkið í ferðaþjónustunni, hlökkum til að þróa ferðaþjónustuna í takt við nýja tíma og vinna ásamt yfirvöldum, Samtökum ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofu og fleiri lykilaðilum í ferðaþjónustunni að framþróun og fagmennsku í þessari lykilatvinnugrein á næstu misserum og árum.

Friðrik Rafnsson, formaður Leiðsagnar-félags Leiðsögumanna

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image