• Stórhöfða 25, 110 Reykjavík
  • Mán - Fim: 13.00 - 15.00 / Lokað á föstud.
24
Júní

Góðir gestir komu á aðalfund Leiðsagnar

Aðalfundur Leiðsagnar var haldinn síðastliðinn fimmtudag, 18.6.2020.

Fundurinn fór fram með hefðbundnu sniði skv. lögum félagsins, en að auki fengum við tvo góða gesti: Víði Reynisson, yfirlögregluþjón og nýbakaðan fálkaorðuhafa, og Drífu Snædal, forseta ASÍ. Fundarstjóri var Magnús M. Norðdahl.

Fyrst ávarpaði Víðir fundinn og fór yfir stöðuna og hið mikilvæga hlutverk leiðsögumanna í nýrri framlínusveit í baráttunni við COVID19. 

Svo ávarpaði formaður fundinn og lýsti verkefnum síðasta starfsárs og endaði sitt mál á hugleiðingu um hlutverk og framtíð Leiðsagnar og lagði til að félagið færi í smá naflaskoðun og setti sér markmið og stefnu til framtíðar.

Félagið hefur tekið stórt stökk inn í framtíðina í tölvukerfum og bókhaldskerfum, en eftir er að stíga lokaskrefið í því með að gera svo kallaðar "mínar síður" fyrir félagsmenn til að auðvelda allar umsóknir í sjóði og gera þær fljótvirkari. Nokkur halli var á rekstri félagsins á síðasta ári út af þessu, en sá kostnaður sem er bara einu sinni og ætti að skila sér í skilvirkari störfum á skrifstofu og ætti þannig að borga sig fljótlega. 

COVID19 hefur haft mikil áhrif á leiðsögumenn, en einnig á rekstur skrifstofunnar og er tekjuhrun fyrirsjáanlegt á þessu ári. Til að draga úr kostnaði var framkvæmdastjóra (Valdimar Leó Friðrikssyni) sagt upp í byrjun maí og þökkum við honum vel unnin störf. Einnig var stjórnarmönnum fækkað úr sjö í fimm.

Ný starfsmaður tók við á skrifstofunni 1. janúar s.l. og bar vill svo vel til að það er leiðsögumaður sem þekkir okkar umhverfi vel. Þetta er Ragnheiður Ármannsdóttir og bjóðum við hana velkomna til starfa á þessum fordæmalausu tímum.

Eftir ræðu formanns ávarpaði Drífa Snædal fundinn og stappaði í okkur stálinu og bað okkur um að standa saman á þessum erfiðu tímum.

Framkvæmdastjóri kynnti ársreikninga og spannst um þá nokkur umræða. Einnig var fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár kynnt og gert er ráð fyrir miklu tapi á rekstri félagins.

Eftir fundarhlé voru lagabreytingar teknar til umfjöllunar og voru flestar tillögur samþykktar. Mest umræða spannst um tillögu um að formaður fagdeildar ætti fast sæti í stjórn félagsins, en sú tillaga var felld í atkvæðagreiðslu. Stofnaðar voru fjórar nýjar fastanefndir: fræðslunefnd, alþjóðanefnd, ritnefnd og fagráð. Fækkað var í aðalstjórn um tvo, svo að þar eru nú fjórir aðalmenn auk formanns. Varamönnum var fjölgað um tvo svo að þeir eru nú fjórir.

Svo var kosið í stjórn sem hér segir:

Friðrik Rafnsson og Júlíus Freyr Theodórsson til tveggja ára.

Vilborg Anna Björnsdóttir og Óskar Kristjánsson til eins árs.

Varamenn eru: Valva Árnadóttir, Guðný Margrét Emilsdóttir, Snorri Steinn Sigurðsson og Þorsteinn Svavar McKinstry, öll til eins árs.

Einnig var kosið í Trúnaðarráð, bæði varamenn og aðalmenn, allir til eins árs:

Aðalmenn: Elísabet Brand, Birna Imsland, Jakob S. Jónsson, Stefán Arngrímsson, Eiríkur Hreinn Helgason og Indriði H. Þorláksson

Varamenn: Þórhildur Sigurðardóttir, Guðni Gunnarsson, Pétur Gunnarsson, Jónína Birna Halldórsdóttir, Aldís Aðalbjarnardóttir og Kári Jónasson

Einnig voru kosnir tveir fulltrúar í hinar nýju nefndir, en stjórn tilnefnir þriðja fulltrúann.

Fagráð: Jakob S. Jónsson til tveggja ára og Indriði H. Þorláksson til eins árs

Alþjóðanefnd: Ragnheiður Ármannsdóttir til tveggja ára og Pétur Gunnarsson til eins árs.

Ritnefnd:  Kári Jónasson til tveggja ára og Guðrún Þorkelsdóttir til eins árs.

Fræðslunefnd: Lovísa Birgisdóttir til tveggja ára og Guðný Margrét Emilsdóttir til eins árs.

Skoðunarmenn reikninga: Snorri Ingason og Bergur Álfþórsson, báðir til eins árs.

Fundi lauk svo rétt eftir miðnætti

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar var svo haldinn strax daginn eftir. Þar skipti stjórn með sér verkum sem hér segir: Vilborg Anna Björnsdóttir, varaformaður. Óskar Kristjánsson, gjaldkeri og Friðrik Rafnsson, ritari.

Sama dag mættu Pétur Gauti, Vilborg Anna og Júlíus Freyr á tvo fundi hjá ASÍ. Sá fyrri var um framtíðarsýn ferðaþjónustunnar, verkefni og áskoranir. Þar var hlustað vel á okkar innlegg. Áherslan verður lögð á sjálfbæra ferðaþjónustu í víðasta skilningi þess orðs og sérstök áhersla lögð á að byggja upp innviði (aftur í mjög víðum skilningi), auka fræðslu og menntun (einkum leiðsögumanna) og vinna gegn misrétti, félagslegum undirboðum og launaþjófnaði. Seinni fundurinn var til að undirbúa nýja fastanefnd um ótrygg ráðningarsambönd. Þar útskýrðum við hvernig þessu væri háttað hjá leiðsögumönnum og í hversu erfiðum málum við værum. Það var aftur mjög vel hlustað á okkar málflutning. Lögðum við til að áherslan væri á tvennt: reyna að laga það sem hægt er í kerfinu í dag og hjálpa þeim sem eru í mestum vanda núna, eins konar rústabjörgun, en einnig væri horft lengra fram á veginn og fundið betra og sanngjarnara kerfi og samfélagslegt öryggisnet sem virkaði og gripi okkur, en það er ekki raunin í dag.

Strax eftir helgi, mánudaginn 22. júní, mætti varaformaður í forföllum formanns á formannafund ASÍ og talaði okkar máli. Einnig mættu fyrir hönd stjórnar Óskar Kristjánsson og Friðrik Rafnsson, auk Jakobs S. Jónssonar úr Trúnaðarráði á fund í samstarfsnefnd Leiðsagnar og SA/SAF. Þar var rætt um sóttvarnir á hinni nýju víglínu í COVID19 sem er ferðaþjónustan. Einkum var hlutverk og ábyrgð leiðsögumanna í rútu rætt. Ákveðið var að útbúa uppfærðar og hagnýtar öryggis- og sóttvarnaleiðbeiningar fyrir leiðsögumenn og bílstjóra ef upp kemur grunur um smit í hópi farþega. Á fundinn mætti einnig fulltrúi sóttvarnarlæknis. Leiðbeiningarnar verða kynnar leiðsögumönnum, bílstjórum og öðrum sem málið varðar þegar þær liggja fyrir.

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image