Starfslýsing og hæfnikröfur leiðsögumanna

Leiðsögumaður fjallar um og túlkar fyrir ferðamenn, einstaklinga eða hópa, áhugaverðar staðreyndir um náttúru, sögu, menningu og lýðfræði landsins eða einstakra landssvæða á mismunandi tungumálum. Hæfnikröfur leiðsögumanna taka mið af Evrópustaðlinum ÍST EN 15565:2008. Þau ein sem hafa staðist námskröfur greinarinnar geta notað starfsheitið leiðsögumaður.

Leiðsögumaður:
 Útfærir og skipuleggur ferðir í samræmi við áætlun ferðaskipuleggjenda með tilliti til þarfa og markmiða mismunandi markhópa.
 Veitir ferðamönnum leiðsögn á viðeigandi tungumáli og kynnir þeim helstu þætti menningar, sögu og náttúrufars á Íslandi og útbýr gögn sem ferðamönnum eru afhent.
 Beitir viðeigandi leiðsögutækni við starfið s.s. með því að lesa landakort, beita áttavita, GPS-tæki o.s.frv.
 Bregst við slysum og beitir grunnþekkingu í skyndihjálp, leitast við að koma í veg fyrir slys í ferðum og kallar til aðstoð eftir þörfum.
 Metur aðstæður, m.a. með tilliti til færðar, veðurs og yfirvofandi náttúruvár og bregst við ef þörf krefur, m.a. með breyttu ferðaskipulagi í samráði við ferðaskipuleggjanda.
 Veitir m.a. upplýsingar um klæðnað, veðurútlit og annan búnað sem tengist ferðum við ólíkar aðstæður í samráði við ferðaskipuleggjendur.
 Miðlar upplýsingum um íslenska menningu, sögu, samfélag og náttúru til skilningsauka fyrir ferðamenn.
 Starfar í samræmi við siðareglur greinarinnar. Sér til þess að hvorki náttúru- né menningarminjar verði fyrir skemmdum af völdum ferðamanna og tryggir þannig sjálfbærni ferðamannastaða eftir því sem unnt er.
 Starfar í fullu samræmi við öryggisáætlun ferðaskipuleggjanda hvað varðar áhættumat, verklagsreglur, viðbragðsáætlun og atvikalýsingu.
 Starfar í fullu samræmi við gæðastefnu ferðaskipuleggjanda og markmið um gæði í ferðaþjónustu.
 Hefur yfirsýn og miðlar upplýsingum, eftir því sem við á, um ferðir sem í boði eru fyrir ferðamenn á Íslandi.
 Veitir meðal annars leiðsögn hópum og einstaklingum af mismunandi menningarlegum toga (ásamt fólki með sérþarfir) um áhugavert náttúrulegt, þjóðfræðilegt, menningarlegt og manngert umhverfi með faglegum hætti.
 Safnar, metur og greinir upplýsingar og tryggir að réttar upplýsingar séu veittar hverju sinni.
 Vinnur að því að auka jákvæða upplifun og skilning ferðamannsins á umhverfi og aðstæðum hverju sinni.
 Er fær um taka þátt í öllum liðum ferðaáætlunar og afþreyingar með ferðamönnum.
 Bregst við óvæntum aðstæðum og uppákomum í starfi með faglegum hætti og hagar framkomu sinni og samstarfi við aðra þannig að sómi er að.

Hæfnikröfur leiðsögumanna

Sjálfstæði og ábyrgð

Leiðsögumaður:
• Hefur skipulagshæfni og er læs á menningu annarra þjóða. • Getur annast skipulega leiðsögn ferðamanna á viðeigandi tungumáli. • Getur tjáð sig um fagleg málefni greinarinnar á íslensku og erlendum málum og leiðbeint um fagleg málefni á ábyrgan hátt. • Getur tekist á við viðbótarnám innan ferðaþjónustunnar. • Getur sýnt frumkvæði, tekið sjálfstæðar ákvarðanir og brugðist við óvæntum uppákomum. • Getur metið áreiðanleika upplýsinga um efni tengd ferðaþjónustu og unnið úr þeim upplýsingum á gagnrýninn hátt.
Samskipti, viðhorf, ábyrgð og siðfræði Leiðsögumaður: • Hefur skilning á mikilvægi góðrar þjónustu og gæðum í þjónustu. • Getur lesið mismunandi ferðamannahópa og aðlagað ferðatilhögun út frá þörfum og væntingum ferðamanna sem eru ólíkum menningarlegum uppruna. • Þekkir mikilvægi faglegrar framkomu og háttvísi við ferðamenn, s.s. í tali, framkomu, o.s.frv.
• Þekkir mikilvægi góðra samskipta og getur lagt sitt af mörkum til að stuðla að góðum samstarfsanda með gagnkvæma virðingu og tillitssemi að leiðarljósi • Þekkir siðareglur greinarinnar s.s. um trúnað gagnvart viðskiptavinum, samstarfsfólki, þagnarskyldu í starfi, háttvísi í starfi og heiðarleika gagnvart ferðamönnum. • Hefur þekkingu á að hvorki náttúru- né menningarminjar verði fyrir skemmdum af völdum ferðamanna og tryggir þannig sjálfbærni ferðamannastaða eftir því sem unnt er.

Öryggismál

Leiðsögumaður: • Þekkir mikilvægi öryggisvarna og áhættu sem fylgir ferðalögum, helstu orsakir slysa og leiðum til þess að koma í veg fyrir þau í ferðum. • Getur brugðist við alvarlegum veikindum og slysum þar til sérhæfð aðstoð berst. • Getur veitt upplýsingar um klæðnað, veðurútlit og annan búnað sem tengist ferðum við ólíkar aðstæður. • Getur unnið í samræmi við öryggisáætlanir. Þekkir dæmigert áhættumat, verklagsreglur, viðbragðsáætlanir og atvikalýsingar.

Fagfræði

Leiðsögumaður: • Getur útfært og skipulagt ferðir og ferðatilhögun með tilliti til þarfa og markmiða mismunandi markhópa í samræmi við áætlun ferðaskipuleggjenda. • Getur annast leiðsögn um landsvæði, héruð, borg og bæi og beitt viðeigandi leiðsögutækni við starfið, s.s að lesa landakort, beita áttavita, GPS-tæki, o.s.frv. • Getur veitt upplýsingar um ferðir og ferðamannaleiðir sem í boði eru á Íslandi hverju sinni. • Getur annast leiðsögn með hópum og einstaklingum, menningarlega fjölbreytilegum hópum, (fólki með sérþarfir) og fl. um náttúrulegt, þjóðfræðilegt, menningarlegt og manngert umhverfi með faglegum hætti. • Getur safnað, greint og metið upplýsingar sem lagðar eru á borð fyrir ferðamenn og tryggt að réttar upplýsingar séu veittar hverju sinni. • Er fær um að túlka á óhlutdrægan hátt fyrir ferðamönnum menningar- og sögulega arfleifð og helstu einkenni náttúru og umhverfis. • Getur aukið á jákvæða upplifun og skilning ferðamannsins á umhverfi og aðstæðum hverju sinni.
• Getur lagað sig að mismunandi áhuga og þörfum ferðamanna með því að velja viðeigandi upplýsingar hverju sinni. • Er fær um að nota viðeigandi tungumál við leiðsögnina og koma viðeigandi upplýsingum frá sér á skiljanlegan og innihaldsríkan hátt. • Getur brugðist við óvæntum aðstæðum og uppákomum í starfi með faglegum hætti. • Er fær um að ná vel til áheyrenda sinna með áhugaverðri framkomu og réttri notkun hljóðnema og annarra miðla. • Getur skipulagt ferðir með tilliti til viðfangsefna og forgangsraðað. • Hefur þekkingu á samspili umhverfisþátta og ferðaþjónustu. • Getur metið þjónustuliði innan ferðaþjónustunnar bæði sína eigin og annarra á gagnrýninn hátt og út frá gæðaviðmiðum greinarinnar. • Hefur góða þekkingu á ferðaþjónustu sem atvinnugrein, uppbyggingu hennar og áhrif á efnahagslíf og umhverfi. • Hefur gott vald á a.m.k. einu erlendu tungumáli. • Hefur víðtæka þekkingu á íslensku þjóðlífi í fortíð og nútíð, á sögu, menningu og náttúru landsins, þar með talið myndun og mótun landsins, líffríki og vistfræði lands og sjávar. • Þekkir landafræði Íslands og náttúrulega og manngerða staði sem áhugaverðir teljast. • Þekkir söfn og stofnanir hér á landi sem teljast áhugaverðir.
• Hefur haldgóða þekkingu á ferðaþjónustu, á ferðamannastöðum, afþreyingu og þjónustu sem í boði er hverju sinni. • Getur veitt upplýsingar um margbreytileika lífshátta á starfssvæði sínu til ferðamanna.

Nám og kennsla

Markmið kennslu og náms í leiðsögn, sem viðurkennd er af mennta- og menningarmálaráðu-neytinu, er að gera nemendur hæfa til að starfa við leiðsögn ferðamanna á Íslandi og þjálfa ýmiskonar verklega færni sem nýtist þeim í starfi. Námið miðar að því að nemendur þekki eðli ferðaþjónustunnar og geri sér grein fyrir mikilvægi hennar sem atvinnugreinar og standist gæðakröfur hennar um áreiðanleika og fagleg vinnubrögð. Nemendur eiga að öðlast skilning á eðli og starfsemi ferðaþjónustunnar og hvaða áhrif hún hefur á umhverfi og samfélag. Námið á að búa nemendur undir leiðsögn ferðamanna á Íslandi með því að veita þeim haldgóða innsýn í sögu landsins og menningu, ásamt þróun íslensks samfélags. Nemendur eiga að fá góða almenna þekkingu á helstu þáttum í náttúrufari landsins og eiga að vera færir um að miðla þekkingu sinni til ferðamanna á áhugaverðan hátt á a.m.k. einu erlendu tungumáli, auk íslensku. Námið á að veita nemendum staðgóða þekkingu um einstök landsvæði, sérkenni þeirra og sögu og að afla nauðsynlegra upplýsinga, m.a. með hjálp upplýsingatækni. Námið á enn fremur að gera nemendum ljósa ábyrgð leiðsögumanna, þjálfa þá í hópstjórn, samskiptum og fyrstu hjálp í neyð.

Göngu- og jöklaleiðsögn

Nám þeirra sem ætla að starfa við göngu- eða jöklaleiðsögn er þar að auki aðlagað þeim öryggis- og hæfniskröfum sem slík leiðsögn krefst. Markmiðið er að þátttakendur verði færir um að fara með ferðamenn um óbyggðir og á jökla á öruggan hátt.

Öku- og afþreyingaleiðsögn

Ökuleiðsögn krefst aukinna ökuréttinda, auk leiðsögumenntunar. Afþreyingaleiðsögn er fjölbreytt og getur tekið til leiðsagnar á sérútbúnum ökutækjum, vélsleðum, snjóbílum, hestum, reiðhjólum, sleðum, jeppum. Útsýnis- og sjóstangaveiðiferðir, flúðasiglingar, gúmmíbátaferðir, hvalaskoðunarferðir, kajakferðir, sæþotur, göngur, veiði, fuglaskoðun, köfun, sig, fossa- og jöklaklifur, flúðasund, drekaflug, fallhlífarstökk, teygjustökk, o.s.frv. Markmið náms í öku- og afþreyingaleiðsögn er gera þátttakendur færir um að fara með ferðamenn í fjölbreytilegar ferðir á öruggan hátt.