Lögverndun starfsheitisins leiðsögumaður

skrifað 11. mar 2016
Ásmundur Friðriksson

Fyrsta umræða um lögverndun starfsheitisins leiðsögumaður

Þann 9. mars fór fram á alþingi fyrsta umræða um frumvarp Ásmundar Friðrikssonar, og fleiri, um lögverndun starfsheitisins ,,leiðsögumaður”. Um morguninn, þann sama dag, óskaði Ásmundur eftir að fulltrúar stjórnar kæmu á fund með honum til að fara enn á ný yfir málið. Örvar Már, Vilborg Anna og Bryndís mættu á fundinn og skerptu með Ásmundi á mikilvægum atriðum sem nauðsynlegt þótti að kæmu fram. Einnig óskaði Ásmundur eftir því að fá frá fundarmönnum nánari upplýsingar til að hafa tiltækar þegar hann talaði fyrir málinu á þingi, m.a. hvar á vef Evrópusambandsins væri hægt að fá upplýsingar um þau lönd sem hafa lögverndað starf leiðsögumanna. Að loknum fundinum settust stjórnarmenn því saman og unnu umbeðnar upplýsingar og sendu Ásmundi.

Þess má geta að fulltrúar þessarar stjórnar FL hafa farið með Ásmundi á nokkra fundi um málið. Þessi stjórn, og þær næstu á undan, hafa einnig á undanförnum árum hitt þá ráðherra sem fara með málflokk ferðamála til að tala máli lögverndunar á starfi leiðsögumanna.

Eftir að hafa talað fyrir málinu á alþingi lagði Ásmundur til að málinu yrði vísað til atvinnuveganefndar. Þar má búast við að hagsmunaaðilar verði kallaðir til, s.s. SAF og Félag leiðsögumanna, ásamt fleirum. Í umræðum tók Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (vinstri-grænum) til máls og sagði m.a. að henni fyndist að kenna ætti í öllum leiðsöguskólum eftir samræmdri, viðurkenndri námskrá. Einnig fannst henni nauðsynlegt að skilgreint væri hvað átt væri við með ,,leiðsögn”. Að öðru leyti mælti hún með frumvarpinu og talaði um mikilvægi þess að það næði fram að ganga.

Bryndís Kristjánsdóttir