Virk og góð þátttaka

skrifað 01. okt 2013
þjóðfundur l

Um 50 leiðsögumenn tóku á virkan og líflegan hátt þátt í ,,þjóðfundi” Félags leiðsögumanna á Restaurant Reykjavík föstudagskvöldið 27. september.
,,Ljóst er að hér er fólk sem vant er að tala”, sagði stjórnandi fundarins Steingrímur Sigurgeirsson, og átti þar við að allir hefðu mikið að segja um málefni félagsins og félagsmanna, ekki síst þegar kom að kjörum og aðbúnaði í starfinu.
Unnið var í hópum á fimm borðum en í seinni hluta fundarins flutti fólk sig um set og var þá unnið að því að finna þrjú helstu forgangsmál félagsmanna og dýpka umræðuna um þau.
Félag leiðsögumanna fékk fagfólk frá Capacent til að stýra og leiða þennan mikilvæga fund félagsmanna, nú í upphafi vinnu kjaramálanefndar og umræðu um starf og áherslur félagsins. Capacent mun nú taka saman þau atriði sem fram komu á fundinum og skila niðurstöðum innan skamms. Nánar verður sagt frá fundinum þegar þau gögn berast en almennt voru þátttakendur mjög ánægðir með að fá að taka þátt í fundi sem þessum - og ekki spilltu góðar veitingar í lokin.