Viðtal við Mörtu B. Helgadóttur leiðsögumann

skrifað 04. jan 2016
Marta B

Andlit Íslands út á við

Meðfylgjandi viðtal birtist í Morgunblaðinu - skólablaði, 4.janúar 2016

Marta B. Helgadóttir leiðsögumaður og verkefnastjóri hefur ferðast með fjölda erlendra ferðamanna um landið og segir hún starfið bæði krefjandi og skemmtilegt. Í því felist þó jafnframt mikil ábyrgð og í ljósi ört vaxandi ferðamannastraums til landsins sé fagmenntun leiðsögumanna nú mikilvægari en nokkru sinni fyrr.

„Á góðum degi er þetta eitt skemmtilegasta starf sem ég get hugsað mér. Ferðalög eru uppskerutími hjá mörgum. Fólk fer í frí til að gera vel við sig og fá tilbreytingu frá hversdagslífinu. Við leiðsögumenn fáum að njóta „góðu stundanna“ með ferðalöngunum og það eru viss forréttindi,“ segir Marta B. Helgadóttir leiðsögumaður.
„Leiðsögumennska byggir á samskiptum manna og þeir einir eiga heima í þessu starfi sem hafa ánægju af samveru við fólk frá ýmsum menningarheimum. Stundum heyrist sagt að leiðsögumenn séu andlit þjóðarinnar gagnvart erlendum gestum. Sú fullyrðing er nokkuð nærri sanni og má í raun bæta í hana og halda því fram að leiðsögumaður, sem sinnir gestum sínum af natni og áhuga, sé sendiherra sinnar þjóðar. Áhrifin af því sem hann segir frá, viðmót hans og umgengni við náttúruna mótar ímynd lands og þjóðar í hugum gesta. Leiðsögumaður sem hefur faglegan metnað er líklegri en aðrir til að kveikja áhuga með þekkingu sinni og þjálfun, og skila heim ánægðum viðskiptavinum í lok ferðar.“

Sögur og sagnir

Aðspurð segir Marta starf leiðsögumannsins vissulega vera vandasamt og krefjandi og því fylgi ábyrgð, bæði gagnvart ferðamönnum og þeim ferðaþjónustuaðilum sem leiðsögumaðurinn starfar fyrir. „Ef óvænt atvik kemur upp, reynir á fagmennsku leiðsögumannsins að leysa vel úr aðstæðum, í vissum skilningi getum við talað um að bjarga verðmætum. Kannanir hafa sýnt að langflestir okkar erlendu ferðamanna koma til Íslands vegna áhuga á náttúrunni, en ekki allir sækjast eftir því sama sem betur fer. Sumir velja afþreyingu af ýmsu tagi, aðrir sækjast eftir menningartengdum ferðum og enn aðrir vilja útivist í fríinu sínu. Mörgum ferðamönnum sem hingað koma finnst spennandi að sjá og heyra um jökla og eldfjöll og hafa áhuga fyrir jarðfræði Íslands. Sum eldgosin okkar hafa orðið fræg um víða veröld og vakið forvitni og áhuga. Aðrir ferðamenn eru áhugasamir um sögu og menningu Íslands og enn aðrir eru helst spenntir fyrir nútímasamfélaginu. Leiðsögumenn eru því spurðir um býsna margt og eiga að hafa frásagnir á takteinum og eitt af því sem er einmitt svo gefandi við starfið er að maður er alltaf að bæta við sig þekkingu.“

Haldgóð þekking

Marta leggur áherslu á mikilvægi fagmenntunar leiðsögumanna, en sjálf lauk hún námi árið 2013 frá Endurmenntun Háskóla Íslands, á tveimur tungumálum, ensku og sænsku. Hún á sæti í skólanefnd Félags leiðsögumanna, sem annast samstarf við skóla þar sem leiðsögn er kennd og menntamálaráðuneytið viðurkennir, þ.e. Leiðsöguskóla Íslands í Menntaskólanum í Kópavogi, ásamt Endurmenntun HÍ. „Leiðsögumanni er ætlað að sjá til þess að gestir fái þá gæðaþjónustu og upplifun sem þeir greiða fyrir. Lærður leiðsögumaður hefur haldgóða þekkingu á náttúru Íslands, getur fyrirbyggt átroðning á viðkvæmustu svæðum og sömuleiðis slys. Leiðsögumenn eru því mikilvægur hlekkur í náttúruvernd á Íslandi, þar sem þeir stýra umferð hópa þannig að sem minnst rask verði. Fagmenntaður leiðsögumaður sér meðal annars um utanumhald, skipulag og tímaáætlun ferða og hann þarf að vera uppbyggilegur leiðtogi hópsins. Hann er einnig öryggisvörður hópsins sem hann ferðast með hverju sinni og hefur þjálfun í fyrstu hjálp ef veikindi eða óhöpp verða.“ Hún segir starf leiðsögumannsins höfða til fólks á öllum aldri og með ólíkan bakgrunn. „Margir sem leggja fyrir sig leiðsögunám búa yfir fjölbreyttri reynslu úr atvinnulífinu og algengt er að leiðsögumenn hafi heilmikla aðra menntun í farteskinu. Lífsreynsla og þroski eru eftirsóknarverðir eiginleikar innan starfsgreinarinnar, en einnig er nauðsynlegt að fá ungt fólk til starfa.“

Fuglar á eggjum

Marta er spurð hvort fagmenntun leiðsögumanna sé ekki enn þýðingarmeiri nú en áður, í ljósi vaxandi straums erlendra ferðamanna til Íslands. „Fjöldi gesta er meiri en nokkru sinni fyrr og fagmenntun leiðsögumanna hefur einmitt aldrei verið mikilvægari. Ekki síst náttúrunnar vegna, til að fyrirbyggja átroðning á viðkvæmustu svæðunum. Lærður leiðsögumaður veit hver þau svæði eru og getur leiðbeint ferðafólki hvernig ganga þarf um landið, svo vernda megi viðkvæman gróður, fuglar á eggjum séu ekki truflaðir eða gestir fari sér ekki að voða á hættulegum stöðum – sem eru mjög margir á Íslandi. Ferðamönnum hefur fjölgað jafnt og þétt um allan heim, sér í lagi í Norður-Evrópu. Við höfum skyldur í ferðaþjónustunni, við náttúruna og komandi kynslóðir. Við sem samfélag þurfum að leggja okkar af mörkum, til að hafa áhrif á þróun þessara mála. Mestu skiptir að þróunin verði í sátt við náttúruna. Kappkostað hefur verið í áratugi að fá erlenda ferðamenn til Íslands. Ég hef starfað á vettvangi ferðaþjónustu við ýmis störf stærstan hluta ævinnar og þekki því vel til. Mikið og gott starf hefur verið unnið. Flestir eru kampakátir með þau nýju störf sem skapast vegna okkar erlendu gesta og þær stórauknu tekjur fyrir þjóðarbúið sem þeim fylgja. Mannlífið í höfuðborginni er orðið fjölbreytt og litríkt og borgarbragurinn að mínu mati mun skemmtilegri en áður var. Nú þrífast í miðborginni tugir, ef ekki hundruð kaffihúsa, veitingastaða og verslana. Smám saman lærist höfuðborgarsvæðinu okkar að verða borg meðal borga.“

Í lykilhlutverki

Starfsheiti leiðsögumanna er ekki lögverndað, en hæfiskröfur eru skilgreindar samkvæmt námsskrá menntamálaráðuneytisins um viðurkennt leiðsögunám. Frumvarp til laga um lögverndun starfsheitisins var lagt fyrir Alþingi á síðasta þingi, en náði ekki afgreiðslu fyrir þinglok. „Frumvarpið felur í sér að … réttinn til að kalla sig leiðsögumann ferðamanna hafi einungis sá sem til þess hefur útgefið leyfi frá Ferðamálastofu ..,“ útskýrir Marta. „Talsvert er um að fólk taki að sér að fara með ferðamenn um landið án þess að hafa til þess tilskilda menntun. Hér hefur verið ákveðin tilhneiging til þess að nota starfsheiti leiðsögumanna yfir alla sem ganga í okkar störf og ferðast með ferðamenn um landið. Slík orðnotkun er auðvitað ekki við hæfi, ekki frekar en að kalla þá lækna sem gefa fólki gömul húsráð við kvefi. Þegar litið er til þróunar ferðaþjónustu á Íslandi og spáð fyrir um framtíðarhorfur í atvinnugreininni er ljóst að leiðsögumenn verða áfram í lykilhlutverki. Sem þjóð þurfum við lögverndun starfsheitisins og fagmenntað fólk í þessi mikilvægu störf. Þannig verndum við betur en ella náttúru okkar og menningu og gætum hagsmuna komandi kynslóða.“

Blaðamaður Morgunblaðsins, skólablaðs: Bergljót Friðriksdóttir (beggo@mbl.is).