Verndun Mývatns

skrifað 12. nóv 2014
Mývatn 1

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um að endurgera skuli umhverfismat fyrir Bjarnarflagsvirkjun við Mývatn er áfangasigur í baráttunni fyrir verndun Mývatns- og Laxársvæðisins.
Forsögu málsins má rekja til þess að Landvernd og Fuglavernd sendu kvörtun til Ramsarskrifstofunnar í kjölfar undirbúningsframkvæmda við Bjarnarflag haustið 2012. Vatnasvið Mývatns og Laxár er á lista Ramsar yfir votlendi með alþjóðlegt mikilvægi. Sendinefndin kom hingað til lands til að meta möguleg áhrif virkjunar á svæðið og í skýrslu sem rituð var í kjölfarið var lagt til að umhverfismat yrði endurgert. Hugmyndir um stækkun Kröfluvirkjunar kalla einnig á að meta áhrif beggja virkjana á lífríki Mývatns og heilsu fólks. Undir þetta álit Landverndar er tekið við ákvörðun Skipulagsstofnunar.
Þrýstingur almennings hafði mikið að segja í þessu máli með undirskriftasöfnun sem Landvernd stóð fyrir.