Vel heppnuð ferð leiðsögumanna

skrifað 18. júl 2017
Áhugasamir leiðsögumenn á leið í Raufarholshelli

Miðvikudaginn 28. júní lögðu rúmlega 50 félagar Leiðsagnar land undir fót og heimsóttu Lava Centre á Hvolsvelli og Raufarhólshelli. Ferðin var farin undir fróðlegri leiðsögn Sigmundar Einarssonar jarðfræðings sem sagði frá ýmsu markverðu sem fyrir augu bar á leiðinni.

Á Hvolsvelli tóku þau Ásbjörn Björgvinsson markaðsstjóri og Hulda Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri á móti hópnum og leiddu hann um sýningu um jarðsögu Íslands, eldvirkni og fleira markvert. Gestum gafst kostur á að sjá 12 mínútna kvikmynd um eldgos síðustu 100 ára og loks var boðið upp á súpu í veitingahúsi safnsins. Óhætt er að segja að okkur var tekið með kostum og kynjum og kunnum við forráðamönnum miðstöðvarinnar bestu þakkir fyrir.
Í Raufarhólshelli tók Hallgrímur Kristinsson á móti hópnum og leiddi okkur um leyndardóma hellisins. Óhætt er að segja að það kom öllum á óvart hve vel hefur verið staðið að því að gera hellinn aðgengilegan ferðamönnum og hve smekklega hefur verið staðið að framkvæmdum. Kærar þakki Hallgrímur.