Varðandi verktöku

skrifað 27. júl 2018

Það ber nokkuð á því að leiðsögumenn séu ráðnir sem verktakar; sum fyrirtæki koma sér hjá því að ráða leiðsögumenn sem launamenn og heimta að þeir ráði sig sem verktaka. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa eftirfarandi í huga:
1. Verktaka á við þegar um tímabundið verkefni er að ræða.
2. Ef þú ert verktaki er verkefnið unnið á fjárhagslega ábyrgð þína.
3. Verktaki er ekki slysatryggður, fær ekki greitt orlof, desemberuppbót eða orlofsuppbót og á ekki rétt á greiðslu úr Ábyrgðasjóði launa vegna gjaldþrots. Réttur verktaka til atvinnuleysisbóta er takmarkaður.
4. Verktaki þarf sjálfur að standa skil á tryggingagjaldi, iðgjaldi vegna slysatrygginga og mótframlagi í lífeyrissjóð. Auk þess þarf verktaki að standa skil á virðisaukaskattsgreiðslum.
5. Verktaki ávinnur sér ekki réttindi hjá stéttarfélagi, s.s. rétt í sjúkrasjóði, orlofssjóði eða lögfræðiaðstoð (nema hann greiði sjálfur félagsgjald og mótframlag til stéttarfélags síns). 6. Verktaki á ekki rétt á launuðu sumarleyfi, né heldur á hann rétt á launuðum veikindadögum. Verktaki á ekki heldur rétt á uppsagnarfresti nema það sé tilgreint í verksamningi.
7. Verktaki á að eiga vélar, tæki og efni sjálfur. Verktaki tekur þátt í að undirbúa og skipuleggja verkefnið og framkvæmir það svo á sína ábyrgð.
8. Ef ofangreindum skilyrðum er ekki fullnægt, ertu í raun að vinna gerviverktöku. Gerviverktaka er ólögleg!
9. Ef ofangreindum skilyrðum er fullnægt, skaltu gæta þess, að til þess að verktaki geti sinnt öllum skyldum sínum varðandi greiðslur á launatengdum gjöldum (sjá hér að ofan), ber verktaka að leggja amk. 70-80% ofan á það sem hann tekur sér í laun sem skattur er greiddur af.

Ef ítarlegri upplýsinga er óskað, er sjálfsagt að hafa samband við skrifstofu félagsins eða senda tölvupóst á netfangið info@touristguide.is