Um framvindu í kjarasamningum 3

skrifað 15. jún 2019

Það er eðlilegt að farið sé að gæta óþreyju hjá félagsmönnum vegna þess hve hægt hefur gengið að koma á nýjum kjarasamnigum. Í fyrri orðsendingum um framvindu í kjarasamningum hefur eftir því sem unnt er verið greint frá ástæðum þess, sem m.a. eru þær að lítið félag sem stendur eitt í viðræðum og hefur ekki tæki til þrýstings önnur en rök og góðan málstað, er nánast dæmt til að bíða eftir að hin stóru hafi lagt sínar línur. Þótt nokkuð sé um liðið frá gerð almennu samninganna eru enn fjölmargar samningaviðræður í gangi á hinum almenna vinnumarkaði, einkum um samninga á ýmsum sérsviðum eins og er í okkar tilviki. Í viðræðunum nú óskuðum við eftir breytingum á fjölmörgum atriðum sem ekki voru uppi á borðum í almennu samningunum og hefur nokkur árangur náðst í þeim efnum eins og gert hefur verið grein fyrir í fyrri skrifum. Hefur það að sjálfsögðu tekið tíma og gert það að verkum að allur samningstextinn hefur verið yfirfarinn. Þá hefur verið lögð áhersla á að ná fram breytingum á launaflokka- og starfsaldurskerfi þar sem meira tillit verði tekið til starfsundirbúnings og starfsreynslu en nú er auk þess sem stytting vinnuvikunnar hefur verið á dagskrá.

Beinar samningaviðræður síðustu daga hafa tafist nokkuð vegna aðstæðna hjá viðsemjendum okkar sem við urðum að taka tillit til en tíminn hefur verið notaður til óformlegra samskipta þar sem gengið hefur verið frá tæknilegum atriðum og afstaða til ágreiningsmála hefur þokast í átt til þess sem líklegt er að sátt geti orðið um. Formlegir fundir hefjast að að lokinni þjóðhátíð og þess er vænst að ljúka megi samningunum á hóflegum tíma.