Samráðshópur um náttúrupassa

skrifað 03. des 2013
Þorsteinn

Nýlega kom saman í fyrsta sinn samráðshópur um náttúrupassa á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Félag leiðsögumanna á fulltrúa í nefndinni sem hélt sinn fyrsta fund þann 18. nóvember s.l.

Á fyrsta fundi hópsins var opnuð umræðan um náttúrupassahugmyndina á víðum grunni. Rætt um aukið álag á ferðamannastaði þar sem farið er að reyna á þolmörk ýmissa svæða og kalla á aðgerðir. Rætt var um réttmæti gjaldtöku og hugsanleg áhrif hennar á ferðamenn. þá voru ræddar hugsanlegar útfærslur gjaldtökunnar. Þar komu fram nokkrar mismunandi aðferðir t.d. kynnti Ásbjörn Björgvinsson Crowd Founding þar sem treyst er á frjáls framlög ferðamanna þ.e. valkvæð gjaldtaka.
Virtust fundarmenn nokkuð sammála um að innheimta ekki aðgang á hverjum stað fyrir sig líkt og gert er við Kerið. Hölluðust menn frekar að því að finna innheimtunni annan hentugan farveg.

Fulltrúi FL er Þorsteinn Svavar McKinstry leiðsögumaður. Aðrir fulltrúar í samráðshópnum eru: Ólöf Ýr Atladóttir ferðamálastofu, Inga Hlín Pálsdóttir Íslandsstofu, Sigríður Kristjánsdóttir Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Kristín Linda Árnadóttir Umhverfisstofnun, Þórður Ólafsson Vatnajökulsþjóðgarði, Ólafur Örn Haraldsson Þingvallaþjóðgarði, Guðjón Bragason Sambandi Íslenskra sveitafélaga, Erna Hauksdóttir SAF, Ásbjörn Björgvinsson Ferðamálasamtök Íslands, Steingrímur Birgisson Ferðaþjónustuklasanum, Jónas Guðmundsson Landsbjörg, Örn Bergsson Landeigendafélag Íslands og Sveinbjörn Halldórsson Samút. Starfi samráðshópsins er stýrt af Valgerði Rún Benediktsdóttur en auk hennar situr Margrét Sæmundsdóttir fundina fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Þá eru Jón Geir Pétursson og Guðríður Þorvarðardóttir fulltrúar frá Umhverfis og auðlindaráðuneytinu. Ingþór Karl Eiríksson situr í samráðshópnum fyrir hönd fjármálaráðuneytisins.

Flestir fulltrúarnir voru sammála um að fyrirvari væri of stuttur ef hugmyndin væri að hrinda náttúrupassanum í framkvæmd á næsta ári.
Fulltrúi FL benti þó á að vel mætti koma þessu kerfi á fót ef þess er gætt að allur umbúnaður og yfirbygging væri höfð einföld og nýttar væru leiðir sem eru nú þegar til staðar til innheimtu gjaldsins.
Stefnt er að því að samráðshópurinn skili inn tillögum sínum snemma á næsta ári og að tillögurnar geti orðið grunnur að frumvarpi sem leggja megi fyrir Alþingi hið fyrsta.

Fulltrúi FL hefur lagt fram nokkuð mótaðar hugmynd um innheimtu gjaldsins, ráðstöfun tekna og framkvæmdina í heild og er hún nú til umræðu og skoðunar. Í hugmyndum FL er lögð áhersla á einfaldleika, gegnsæi og skilvirkni með lágmarks yfirbyggingu til að tryggja að innheimt gjald renni óskipt til þeirra verkefna sem því er ætlað.
Hugmyndir FL fylgja hér að neðan:

Samráðshópur um náttúrupassa/ferðakort

Tillögur Félags leiðsögumanna um framkvæmd hugmyndar um náttúrupassa:

Lykill að landinu Náttúrupassi – Gestapassi

Tilgangur og helstu markmið:

Fræðsla - verndun - aðgengi - öryggi

Viðhald og uppbygging ferðamannastaða á Íslandi.

Reynt verði eftir fremsta megni að halda náttúrupassakerfinu einföldu, gegnsæju og skilvirku með skýrum markmiðum, lítilli yfirbyggingu og einföldum rekstri. Þannig að tryggt sé að tekjur sjóðsins renni óskertar til þeirra verkefna sem honum er ætlað að styrkja.

Innheimt verði eitt hóflegt komugjald af öllum farþegum átján ára og eldri sem koma til landsins. Gjaldið verði einnig innheimt af íslenskum ferðamönnum við heimkomu og þannig sjálfkrafa komið í veg fyrir hugsanlega mismunun eftir þjóðerni og búsetu. Með því að aldurstengja gjaldtökuna má sneiða hjá flóknu afsláttakerfi t.d.
fjölskylduafslætti. Börn og ungmenni fá einfaldlega frían aðgang.
Gildistími náttúrupassans væri frá komu til brottfarar í hverri heimsókn.

Til verður sjóður sem tekjur af náttúrupassanum renna í. Úr honum má úthluta til ferðatengdra verkefna sem snerta manngerða aðstöðu og náttúrulegt umhverfi svokallaðra ferðamannastaða. Meginverkefni sjóðsins yrði úthlutanir vegna; uppbyggingar, reksturs, viðhalds, endurnýjunar, breytinga og öryggismála á núverandi aðstöðu á ferðamannastöðum. Úthlutanir væru í samræmi við ásókn sem mæld yrði t.d. með sjálfvirkri ítölu auk talningu eftirlitsaðila náttúrupassasjóðsins.

Úthlutun vegna nýrra staða, rannsókna og þróunarverkefna væri ákveðið hlutfall úthlutunar sjóðsins á hverju tímabili til að safna upplýsingum og hvetja til nýbreytni og aukinnar fjölbreytni við uppbyggingu ferðamannastaða. Ákveðin hluti úthlutunar sjóðsins verði neyðarúthlutun vegna bráðaðkallandi verkefna þar sem komið er yfir þolmörk staða eða aðstaða orðin hættuleg eða skyndileg hætta skapast t.d. vegna náttúruhamfara sem trekkja að ferðamenn.

Stjórn sjóðsins geti að eigin frumkvæði eða eftir ábendingum veitt styrki til "munaðarlausra" staða og svæða þ.e. svæða sem eigendur
sinna ekki og hafa etv. ekki hag af heimsóknum ferðamanna en eru
engu að síður viðkomustaðir ferðamanna í einhverjum mæli og þeir velkomnir. Ábyrgðar-menn / aðilar ferðamannastaða geta sótt um verkefnatengda eða reglulega rekstrarstyrki úr sjóðnum. Þeir aðilar er þiggja styrki úr sjóðnum til viðhalds og uppbyggingar skuldbinda sig til að tryggja almenningi/ferðamönnum aðgang a.m.k. út umsaminn afskriftatíma verkefna / mannvirkja.

Ferðamannastaðir, sýningar og söfn sem selja ferðamönnum aðgang ættu ekki rétt á styrk úr sjóðnum enda rekið fyrir eigið aflafé. SAR / Landsbjörg, hjálparsveitir landsins fái hlutdeild í sjóðnum til að standa undir kostnaði vegna þjónustu þeirra við ferðamenn, útköll og og eftirlit.

Með því að hafa gjaldtökuna á einum stað þ.e. við helstu hafnir landsins og innifaldar í fargjaldi farþega sparast nær allur innheimtu- og eftirlitskostnaður vegna gjaldtökunnar. Engin kortaútgáfa, engin tafsöm innheimtuhlið, engar biðraðir, engin grindverk sem hefta aðgang nema þar sem eigendur lands selja sérstaklega aðgang og engin kostnaðarsöm starfsmannaaðstaða eða starfsmannahald vegna miðasölu en allir framantaldir hlutir yrðu þess utan síður líklegir til að fegra umhverfið.