Þörfin fyrir rannsóknir í íslenskri ferðaþjónustu

skrifað 03. okt 2013
gonguhopur2 Hugi Ólafsson ljósm

Ferðamálastofa kynnti niðurstöður greiningar á þörfinni fyrir rannsóknir í íslenskri ferðaþjónustu. Um er að ræða niðurstöður vinnu sem fram fór fyrr á árinu, m.a. á fjölsóttum vinnufundum með hagsmunaaðilum.

Sjá umfjöllun á http://www.ferdamalastofa.is

Mikið vantar upp á fjármuni

Mikil umræða hefur verið síðustu misserin um mikilvægi rannsókna fyrir þróun og uppbyggingu ferðaþjónustu og eftirspurn er mikil eftir margs konar gögnum sem tengjast ferðaþjónustu á einn eða annan hátt. Þó svo margt gott hafi áunnist á síðustu árum er ljóst að verulega vantar upp á fjármuni til gagnasöfnunar og rannsókna á sviði ferðaþjónustu. Það hefur margoft komið fram í opinberri umræðu að greinin situr ekki við sama borð og aðrar helstu atvinnugreinar þjóðarinnar þegar kemur að opinberu framlagi til rannsókna og að úr því verði að bæta. Miklar áskoranir bíða þessarar ört vaxandi atvinnugreinar og góður grunnur til að mæta þeim þarf að byggja á faglegum rannsóknum og greiningarvinnu. Niðurstöður úr þeirri greiningu sem hér hefur verið unnin eru mikilvægt innlegg í þá vinnu.

Byggt á mati hagsmunaaðila

Við mat á rannsóknarþörf ferðaþjónustunnar var farin sú leið að vinna út frá hugmyndum hagsmunaaðilanna sjálfra, en þær voru greindar á fjölsóttum vinnufundi, þar sem rannsóknaþörfin var rædd út frá átta efnisþáttum. Verkefnum var síðan forgangsraðað á vinnufundi með nokkrum völdum hagmunaaðilum. Það kom síðan í hlut starfsmanns Ferðamálastofu og ráðgjafa frá KPMG að útfæra og kostnaðargreina hvert og eitt rannsóknarefni.

Rannsóknum raðað í mikilvægisröð

Í skýrslu sem kynnt var á fundinum hefur verkefnum verið raðað eftir mikilvægi og þau kostnaðargreind. Skýrslan í heild er aðgengileg hér að neðan.