Stöndum saman um að vermda umhverfið

skrifað 15. ágú 2013
Mosaskemmdir2

Nýlega var haldinn fundur framkvæmdahóps um uppbyggingu ferðamannastaða í Skaftárhreppi þar sem sitja  fulltrúar Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Skaftárhrepps, Vatnajökulsþjóðgarðs, Friðar og frumkrafta, Kötlu jarðvangs, Kirkjubæjarstofu og Ferðamálafélags Skaftárhrepps. Á fundinum var lokið við áætlun fyrir uppbyggingu aðstöðu fyrir ferðamenn við Fjaðrárgljúfur og vilja fundarmenn benda ferðaskrifstofum, fararstjórum, bílstjórum og öðrum þeim sem að ferðamennsku koma á að þar hafa göngustígar verið lagfærðir, merkingar bættar, áningabekkir settir upp, bílastæði stækkuð og á haustdögum verður salernisaðstaða frágengin.

 

Einnig var hugað að næstu framkvæmdum og ákveðið að taka Eldhraunið fyrir næst.  Þar er fyrir áningar- og útsýnisstaður en mjög algengt er að ferðamenn gangi út á mosann í nánd við útsýnisstaðinn og traðki hann niður. Við það visnar mosinn með þeim afleiðingum að ferðamenn leita lengra út í hraunið og traðkið breiðist út. Einhverjir fararstjórar og ferðaskrifstofur hafa brugðið á það ráð að stoppa annars staðar í hrauninu t.d. við gamla þjóðveginn sem liggur í hrauninu. Þar ganga ferðamenn út á mosann, troða hann niður og skemma og sami vítahringur hefst. Nú er svo komið að sjaldgæft er að finna staði í hrauninu þar sem ekki má sjá fótspor og bældan mosa.

 

Vonandi reynist okkur fært að búa þannig um áningar- og útsýnisstaði í Eldhrauninu að ferðamenn geti notið víðáttu hraunsins og litbrigða mosans um leið og við verndum viðkvæma mosaþembuna. Stefnt er að því að hefja aðgerðir sem allra fyrst. Þangað til að þeim framkvæmdum líkur biðjum við þá sem sjá um fræðslu leiðsögumanna, leiðsögumenn, bílsjóra og aðra þá sem að málið varðar að láta ferðamenn aldrei, undir neinum kringumstæðum, ganga út á hraunið. Hraungambrabreiðan sem er þarna er einstakt náttúrufyrirbæri á heimsvísu og mjög viðkvæm fyrir átroðningi.

 

Stöndum saman um að vernda umhverfið og stuðla að sjálfbærri ferðmennsku

 

 

Með von um góðar undirtektir

 

Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Skaftárhrepps

Friður og frumkraftur – hagsmunafélag atvinnulífs í Skaftárhreppi

Vatnajökulsþjóðgarður

Katla jarðvangur

Kirkjubæjarstofa

Ferðamálafélag Skaftárhrepps