Stofnun fagdeilda innan Leiðsagnar

skrifað 10. maí 2017

Í nýjum lögum Leiðsagnar - félags leiðsögumanna er kveðið á um að innan félagsins starfi fagdeildir fyrir einstaka hópa innan þess eftir starfssviðum, menntun o.fl. sem vinni að áhugamálum og hagsmunamálum viðkomandi hóps. Lögin gera ráð fyrir að innan ramma, sem stjórn félagsins setur, ákveði fagdeildirnar sjálfar hvernig þær haga innra starfi sínu en þær hafa einnig bein áhrif á starf félagsins sem félagsmenn og eins tilnefna fagdeildirnar fulltrúa í trúnaðarráð félagsins sem m.a. fer með samninga- og kjaramál fyrir þess hönd.

Stjórn Leiðsagnar hefur að undanförnu í samræmi við ályktun aðalfundar unnið að gerð reglna um fagdeildir sem setja munu almennan ramma um starfsemi þeirra, tengsl þeirra við félagið, fjármál o.fl. Drög að þessum reglum verða birt á heimasíðu félagsins til kynningar innan skamms.

Á aðalfundi Leiðsagnar var einnig samþykkt ályktun þess efnis að stofnuð skuli fagdeild fyrir almenna ferðaleiðsögn með aðild allra þeirra sem höfðu fagfélagsaðild að Félagi leiðsögumanna fyrir lagabreytinguna. Stjórn Leiðsagnar hefur í samræmi við ályktunina staðfest stofnun þessarar fagdeildar. Stjórn Leiðsagnar mun innan tíðar boða til fundar í þessari fagdeild með það fyrir augum að hún kjósi sér stjórn og undirbúi starfsemi sína með því að setja sér starfsreglur o.fl. og tilnefni fulltrúa í trúnaðarráð Leiðsagnar.

Stjórn félagsins beinir því einnig til annarra þeirra sem áhuga hafa á stofnun fagdeilda fyrir afmarkaða hópa að hafa samband við félagið.