Staða leiðsögumanna í verkfalli annarra starfsmanna hjá ferðaþjónustufyrirtækjum

Minnisblað

skrifað 14. mar 2019

Félaginu hafa borist fyrirspurnir um stöðu leiðsögumanna ef til verkfalla kemur hjá bílstjórum eða öðrum sem verða þess valdandi að ferðir sem þeir eru ráðnir til falla niður eða raskast. Eftirfarandi er ætlað að vera til leiðbeiningar þar um en er ekki tæmandi. Mörg lagaleg álitamál kunna að koma upp.

Fastráðnir leiðsögumenn með tímabundna eða ótímabundna ráðningu eiga rétt á launum í vinnustöðvun annarra í samræmi við ráðningarsamning sinn. Komi til verkbanns af hálfu vinnuveitenda fellur réttur til launagreiðslna niður.

Leiðsögumenn, sem ráðnir eru til stakra ferða, eiga skv. greinum 3.2.4.1 og 3.2.4.2. í kjarasamningi rétt á greiðslum fyrir ferð sem þeir hafa verið ráðnir til en felld er niður nema niðurfellingin hafi verið tilkynnt 24 klst. fyrir áætlaðan brottfarartíma dagsferðar og 5 sólarhringum fyrir áætlaðan brottfarartíma langferðar. Þessi tilkynningarfrestur gildir þó ekki ef um er að ræða óviðráðnalegar ástæður eins og verkföll en þau ber að boða með það löngum fyrirvara að ekki ætti reyna á það. Ferðaráðnir leiðsögumenn fá ávalt greiddar þær ferðir sem hafnar eru þegar verkfall hefst.

Sérstakt tilefni til athugunar er að margir þeir leiðsögumenn sem ráðnir eru með ferðaráðningu kunna að hafa átt rétt á fastráðningu og ættu samkvæmt því að falla undir það sem segir um fastráðna leiðsögumenn hér að framan.

Leiðsögumenn sem starfa sem verktakar falla ekki undir ákvæði kjarasamninga og réttur þeirra til greiðslu fyrir ferð sem felld er niður ræðst af þeim samningi sem þeir hafa gert við verkkaupann.

Leiðsögumönnum ber eins og öðrum að virða þær reglur sem um verkföll gilda og er óheimilt að ganga í störf þeirra sem í löglega boðuðu verkfalli eru. Þannig ættu t.d. leiðsögumenn með aukin ökuréttindi ekki að taka að sér akstur í þeim tilvikum að bílstjóri fyrirhugaðrar ferðar er í verkfalli.