Skýrsla um menntun leiðsögumanna

skrifað 11. júl 2018

Menntun og starfsundirbúningur leiðsögumanna á Íslandi

Á aðalfundi Leiðsagnar - Stéttarfélags leiðsögumanna vorið 2017, var ákveðið að skipa starfshóp til að semja leiðbeinandi reglur um menntun leiðsögumanna á Íslandi og annarra starfsmanna í ferðaþjónustu sem eru félagar í Leiðsögn. Tillögurnar skyldu samræmast og uppfylla viðmiðanir staðals ÍST EN 15565:2008 um menntun leiðsögumanna og þá áttu tillögurnar að líta til þess hvernig raunfærnimati og mati á öðru námi sem nýtist í starfi leiðsögumanna verði háttað.

Starfshópurinn var skipaður með erindisbréfi í júlí 2017. Hann skipuðu:

  • Tryggvi Jakobsson landfræðingur, formaður, skipaður af Leiðsögn.
  • Hlíf Ingibjörnsdóttir ferðamálafræðingur og leiðsögumaður, skipuð af Leiðsögn.
  • Magnús Jónsson veðurfræðingur, skipaður af Leiðsögn.
  • María Guðmundsdóttir fræðslustjóri, tilnefnd af Samtökum ferðaþjónustunnar.
  • Snorri Valsson sérfræðingur hjá Vakanum, tilnefndur af Ferðamálastofu.

Starfshópnum var með erindisbréfi falin þau verkefni ályktun aðalfundar fól í sér, einkum eftirtalin atriði:

  • Að semja leiðbeinandi viðmiðunarreglur um menntun leiðsögumanna sem samræmast staðlinum ÍST EN 15565:2008. Viðmiðunarreglurnar verði rammi fyrir námstíma, skilgreiningu námsefnis og afmörkun fræðslusviða. Þeim fylgi námsmarkmið, þ.e. þær hæfnikröfur sem nemendur þurfa að uppfylla að námi loknu.
  • Að gera tillögur um hvernig eigi að leggja mat á þá menntun sem nýtist í leiðsögn sem aflað hefur verið í öðrum skólum en leiðsöguskólum, til uppfyllingar á viðmiðunarreglunum.
  • Að gera tillögur um hvernig eigi að leggja mat á starfsreynslu þannig að viðmiðunarreglurnar séu uppfylltar (raunfærnimat).
  • Að gera tillögur um hvernig, að settum slíkum viðmiðunarreglum, skuli leggja mat á það nám í leiðsögn sem í boði er hverju sinni og staðfesta, eftir því sem óskað er, að það uppfylli þær kröfur sem fyrrnefndar reglur gera.

Þá var bent á að hópurinn skyldi hafa til hliðsjónar skipulag náms í leiðsögn hér á landi, innihald námskrár og námslýsinga, ásamt námsframboði þeirra skóla sem hafa leiðsögunám í boði. Einnig skyldi hópurinn kynna sér námsskipulag í öðrum löndum sem byggja á framangreindum staðli.

Stjórnin þakkar starfshópnum fyrir vel unnið starf. Skýrsla hans er afar skilmerkileg og skýr og getur orðið grundvöllur að úrbótum í menntunarmálum leiðsögumanna og um leið stuðlað að auknum gæðum ferðaþjónustu á Íslandi. Gæðakröfur til þeirra sem annast leiðsögn ferðamanna eru ekki bara hagsmunamál leiðsögumanna heldur ferðaþjónustunnar í heild. Viðgangur hennar til lengri tíma ræðst örðu fremur af því orðspor sem af henni. Fagleg leiðsögn og kynning á landinu, náttúru þess, sögu, menningu og lífsháttum ræður mikli um hvernig til tekst.