Skáldabekkir í Reykjavík

skrifað 05. sep 2014
Skáldabekkur

Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO, í samstarfi við Símann, hefur tileinkað tiltekna borgarbekki í Reykjavík íslenskum skáldskap. Bekkirnir eru fjórtán talsins og þar gefst vegfarendum kostur á að tylla sér niður og hlýða á upplestur úr íslenskum bókmenntum, bæði á íslensku og ensku.

Á bekkjunum er skjöldur með texta og rafrænum kóða, en með því að skanna kóðann með snjallsíma má nálgast upplestrana, sem liggja á snjallsímavef Bókmenntaborgarinnar. Á sama vef er ítarefni um bókmenntamerkingar í Reykjavík, sem einnig er samstarfsverkefni Bókmenntaborgarinnar og Símans, ásamt rafrænum bókmenntagöngum og bókmenntakorti. Upptökur fyrir Skáldabekki í Reykjavík voru unnar í samstarfi við Rás 1 Ríkisútvarpsins, en þær annaðist Jórunn Sigurðardóttir. Fjórir bekkjanna eru við styttur skálda, Jónasar Hallgrímssonar í Hljómskálagarði, Tómasar Guðmundssonar við Tjörnina og þeirra Einars Benediktssonar og Þorsteins Erlingssonar á Klambratúni. Þá má hlýða á brot úr sögu Svövu Jakobsdóttur, „Endurkoma“ á söguslóðum hennar við austurbakka Tjarnarinnar og kafla úr skáldsögunni Svartfugli eftir Gunnar Gunnarsson á Skólavörðuholti, skammt frá staðnum þar sem Steinkudys var áður en bein Steinunnar, annarrar aðalpersónu sögunnar, voru flutt í Hólavallagarð.

Núlifandi skáld eiga sér einnig bekki og lesa þau öll upp úr verkum sínum á íslensku. Skáldin eru Auður Ava Ólafsdóttir, Bragi Ólafsson, Gerður Kristný, Kristín Ómarsdóttir Óskar Árni Óskarsson, Sigurbjörg Þrastardóttir, Vilborg Dagbjartsdóttir og Þórarinn Eldjárn. Auk skáldanna sjálfra lesa leikararnir Darren Foreman, Hjalti Rögnvaldsson og María Þórðardóttir ljóð og sögur genginna skálda og enskar þýðingar.

Hér er vefurinn bókmenntaborgin.