Sjónarmið höfunda Ferðamála á Íslandi

skrifað 27. jan 2014
Ferðamál á Ísl

Við höfundar viljum bregðast við frétt sem Kári Jónasson skrifaði á vef Félags leiðsögumanna um bók okkar Ferðamál á Íslandi, sem út kom á síðasta ári. Við viljum bregðast við rangfærslum og skýra okkar mál.

Fyrst er af því að taka þar sem dylgjað er um réttindaleysi Edwards sem leiðsögumanns. Edward útskrifaðist 1998 frá MK, skóla Birnu Bjarnleifs og starfaði til 2007 við góðan orðstír sem leiðsögumaður hjá Terra Nova og IT með hollensku og ensku sem aðalmál og gerir raunar enn í ferðum með skemmtiferðaskipum frá Akureyri.

Næst er að nefna umfjöllun um ris og fall áfangastaða. Kári vill meina að ekki fái það nægt rými. Þess ber að geta að bæði er sérstakur kassi um það mál með vísan til Butler og Christaller, sem ótvírætt hafa leitt þá umræðu innan ferðamálafræða. Að auki má benda á að bókin öll snýr að álitamálum um hvernig meta skal þróun áfangastaða og hvað gæti talist til vísbendinga um neikvæða og jákvæða þróun þeirra. Landfræðingurinn Stephen Page fær mikið rými í bókinni þar sem fjallað er um samspil samgangna og ferðaþjónustu. Þar er nær aðeins byggt á honum þegar málin eru skýrð og sannarlega má segja að hann fái mikið rými þar sem ein lykilskilaboð bókarinnar er mikilvægi skilnings á samspili ferðaþjónustu og samgangna.

Að lokum er það helsta umkvörtunarefni Kára sem snýr að því að ekki hafi verið fjallað sérstaklega um leiðsögumenn. Þá er því til að svara að engar fagstéttir ferðaþjónustu fengu sérstaka umfjöllun í þessari bók. Bílstjórar hópferðabíla, flugmenn, kokkar, þjónar, flugfreyjur svo einhverjar aðrar fagstéttir ferðaþjónustu séu nefndar, fengu enga sérstaka umfjöllun en allt er þetta lykilfólk í ferðaþjónustu líkt og leiðsögumenn. Vissulega má deila um þessa ákvörðun en uppbygging bókar er skýrð í inngangi og þar má vera ljóst að útgangspunktur er ekki útfrá starfi fagstétta. Það má alltaf deila um hvað væru réttmæt efnistök, sérstaklega þegar eins metnaðarfullur undirtitill er á bókinni og raun ber vitni. Aldrei verður hægt að taka allt fyrir í svona bók og í þetta sinn var umfjöllun um fagstéttir sleppt og mjög lítið fjallað um menntunarmál í ferðaþjónustu.

Ábending um að vísa hefði mátt til 40 ára afmælisrits félags leiðsögumanna er að okkar mati helsta réttmæta gagnrýni í umfjöllun Kára. Það rit er veglegt og félaginu til sóma og hefði sannarlega mátt vísa til í bók okkar og hörmum þau mistök að hafa ekki gert svo. Um leið og við þökkum Kára fyrir ómakið að stinga niður penna um bókina óskum við eftir því að fjallað sé um verk okkar af yfirvegun og fagmennsku og að þau fái að njóta sannmælis.

Edward og Gunnar