Segja eftirlitið máttlítið

SAF í RÚV

skrifað 05. mar 2019

Samtök ferðaþjónustunnar kynntu í dag tillögur um aðgerðir til að takmarka erlenda og ólöglega starfsemi í ferðaþjónustu á Íslandi. Samtökin segja of máttlítið og óskilvirkt eftirlit hafa í för með sér óáreitta brotastarfsemi erlendra fyrirtækja sem fari ekki eftir íslenskum lögum og kjarasamningum og stundi í krafti þess stórfelld undirboð. Þetta valdi því að samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja versni mikið, atvinnuöryggi launþega minnki og samfélagið verði af miklum tekjum.

Tillögurnar miða að því að taka á skattsvikum, eftirliti með rekstrarleyfum í farþega- og vöruflutningum, ólaunaðri sjálfboðaliðastarfsemi, eftirliti með erlendum ökutækjum, samvinnu eftirlitsaðila, heimagistingu, fjármagni og mannaflaþörf, afleiðingum brota og fælingarmætti, ábendingum og viðbrögðum. Samtök ferðaþjónustunnar taka fram að þau amist ekki við eðlilegri samkeppni sem fram fer samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. „Vandamálið er að fjöldi fyrirtækja nýtir sér það frelsi sem felst í viðskiptum yfir landamæri og of máttlítið og óskilvirkt eftirlit á íslenskum ferðaþjónustu- og vinnumarkaði til að stunda óáreitta brotastarfsemi sem skekkir samkeppnisgrundvöllinn.“ Til að árangur náist þurfi eftirlit opinberra stofnana, lögreglu og annarra að vera skilvirkt, samstillt og nægilega vel fjármagnað. Aðbúnaður oft skelfilegur Í skýrslu samtakanna eru nefnd nokkur dæmi úr íslenskri ferðaþjónustu um brotastarfsemi. Þar segir meðal annars að erlendt fólk aki um landið sem bílstjórar og leiðsögumenn, án leyfa eða skráningar, á verri kjörum en íslenskir kjarasamningar segi til um. Aðbúnaður bílstjóranna hjá þessum fyrirtækjum sé á köflum skelfilegur og þeir jafnvel látnir búa í bílunum sjálfum. Þá sé mikið um að öryggisatriðum sé ábótavant hjá erlendum hópferðafyrirtækjum, ekki sé farið eftir reglum um öryggisbelti, bílar séu ekki nægilega vel búnir til aksturs hér á landi, ekki nægilega tryggðir og bílstjórar hafi ekki nauðsynlega þjálfun í akstri við íslenskar aðstæður eða þjálfun í skyndihjálp. Dæmi séu um að ríkisborgarar frá löndum utan EES komi til Íslands á ferðamannaáritun en vinni svo óskráðir, án atvinnuleyfis og á launum undir kjarasamningum, auk þess sem ábendingar hafi komið fram um að sumar hestaleigur stundi félagsleg undirboð með sjálfboðaliðastarfsemi þannig að erlendir einstaklingar vinni fulla vinnu hjá fyrirtækinu án þess að fá greitt annað en fæði og húsnæði. Umfangsmikil ólögleg starfsemi „Grunur leikur á umfangsmikilli ólöglegri starfsemi sem tengist erlendum aðilum í ferðaþjónustu hér á landi, m.a. með félagslegum undirboðum, sjálfboðaliðastarfsemi og skattaundanskotum,“ segir í skýrslu samtakanna. Fyrirtæki sem stundi brotastarfsemi eigi auðveldara með að leika lausum hala ef eftirlit sé óskilvirkt, illa fjármagnað eða glími við hindranir.