Samráðshópur um öryggi ferðamanna

skrifað 22. jan 2016
logo

Að störfum er stýrihópur á vegum innanríkisráðuneytisins um öryggi ferðamanna og hefur hópurinn skilað verkefnisáætlun, eða fyrstu tillögum um úrbætur. Félag leiðsögumanna á engan fulltrúa í þessum hópi og gerði athugasemdir við það. Í verkefnisáætluninni er upp talið afar margt sem betur má fara en ljóst er að ekki er hægt að ráðast í allt sem þar er nefnt, auk þess sem fjármagn vantar. En hvað er nauðsynlegast og hvar á að byrja? Kallaður var saman stór hópur fólks sem tengist ferðaþónustunni og öryggismálum á einn veg eða annan til að koma með sína sýn á málið og óskað var eftir tilnefningu frá Félagi leiðsögumanna í þennan samráðshóp um öryggi ferðamanna. Stjórn félagsins ákvað að tilnefna Bryndísi Kristjánsdóttur leiðsögumann, ekki síst vegna þess að hún átti sæti í nefnd á vegum Ferðamálastofu sem falið var að vinna að reglugerð um öryggismál vegna breytinga á lögum um skipan ferðamála. Af breytingum á lögunum varð ekki en ákveðið var að henda ekki allri reglugerðarvinnu nefndarinnar og hún því birt sem leiðbeinandi reglur um öryggismál fyrir ferðaþjónustuaðila á vefsíðu Ferðmálastofu.

Á hverju er nauðsynlegt að byrja?
Fundur var haldinn með samráðshópnum 14. janúar og var afar vel mætt, svo ljóst er að málið er litið alvarlegum augum. Þátttakendur voru beðnir um að koma með sjónarmið sín um öryggi ferðamanna, byggð á reynslu og gögnum þeirra aðila sem þeir væru fulltrúar fyrir. Stóra hópnum var svo skipt upp í vinnuhópa þar sem hver hópur nefndi aðgerðir sem honum sýndist brýnt að ráðast í og raðaði í forgangsröð. Hóparnir kynntu niðurstöður sínar og fóru umræður fram um þær. Að því loknu tók Stjórnstöð ferðamála við vinnu hópanna til frekari úrvinnslu. Kalla á stóra hópinn saman að því loknu, og jafnvel fleiri hagsmunaaðila, og kynna aðgerðaráætlunina um það sem gera þarf til að tryggja betur öryggi ferðamanna á Íslandi. Sagt verður frá því sem þar kemur fram hér á síðunni og vonandi verður svo tekið mark á innsýn allra þessara aðila á nauðsyn aðgerða til að tryggja betur öryggi ferðamanna og fjármunir lagðir til svo ráðast megi í brýnustu aðgerðirnar.

Bryndís Kristjánsdóttir