Safnasafnið alþýðulist Íslands

skrifað 06. jún 2014
Safnasafnið

Laugardaginn 17. maí kl. 14.00 voru opnaðar 12 nýjar sýningar í Safnasafninu í Eyjafirði, og var opnunin sem fyrr í tengslum við Alþjóðlega safnadaginn 18. maí.
Á neðri hæð eru 38 dýrmæt grafíkverk eftir Pieter Holstein í Amsterdam sem hann gaf safninu 2012 og 2014; smáskúlptúrar um bankahrunið eftir Yngva Örn Guðmundsson í Hafnarfirði; ný nálgun á lífi og liststarfi Leós Antons Árnasonar á Selfossi, sem kallaði sig Ljón norðursins; persónuleg tjáning í tré eftir börnin Leikskólanum Álfaborg og Valsárskóla á Svalbarðseyri, og kynning á gömlum brúðuhúsum sem gefin voru af Unu Margréti Jónsdóttur í Reykjavík og fjölskyldunni á Einhóli, Svalbarðsströnd.
Á efri hæð er sýning á mannamyndum eftir Guðmund Sveinbjörn Másson á Seltjarnarnesi sem gaf safninu 140 pappírsmyndir eftir sig árið 2012; útsaumuð og hekluð verk eftir Arndísi Kristínu Sigurbjörnsdóttur í Hafnarfirði; flugvélar úr ýmsum efnum eftir höfunda af báðum kynjum, þar á meðal Einar Baldursson á Sólheimum; þar er einnig sýning sem fjallar um konur í ýmsum hlutverkum eftir myndhöggvarana Helga Valdimarsson í Garði, Ragnhildi Stefánsdóttur og Sigrúnu Guðmundsdóttur í Reykjavík; og pappírsverk eftir 6 menn sem vinna verk sín í listasmiðjum á Bjarkarási og Myndlistarskólanum í Reykjavík, þá Ásgeir Ísak Kristjánsson, Inga Hrafn Stefánsson, Ragnar Má Ottósson, Sigurð Reyni Ármannsson, Kolbein Magnússon og Snorra Ásgeirsson.
Stjórn safnsins setur svip sinn á sýningarnar með uppsetningu og þátttöku í nokkrum þeirra; hugmynd þeirra var að leggja áherslu þá bjartsýni og gleði sem ríkir í starfsemi safnsins og beina sjónum manna að margvíslegum hugmyndum, fínlegum útfærslum, björtum litum og léttu yfirbragði, en um leið að vekja athygli á alvarlegri hliðum tilverunnar.
Safnasafnið er opið daglega frá kl. 10.00–17.00 alla daga til 31. ágúst, en tekið á móti hópum í september eftir atvikum. Safnið gefur gestum sínum veitingar, glæsilega sýningarskrá og einstaka upplifun í lifandi skemmtitækjakynningu í anddyri. Upplýsingar eru veittar í síma 4614066 og safngeymsla@simnet.is og facebook.
Það er ókeypis á Safnasafnið fyrir félaga í Félagi leiðsögumanna gegn framvísun skírteinis.