Rútuferðir milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar næsta vor

skrifað 17. sep 2015
Keflavíkurflugvöllur

Ferðaþjónustufyrirtækið Gray Line hefur ákveðið að hefja beinar áætlunarferðir milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar næsta vor. Í apríl og maí verður ekið þrisvar í viku en daglega yfir sumarið fram í miðjan september.

Áætlun Gray Line Airport Express verður með þeim hætti að brottför verður frá Keflavík kl. 17:00, komið til Akureyrar um kl. 23:00. Þaðan verður haldið kl. 23:15 og komið til Keflavíkur kl. 05:15. Flugfarþegar sem koma til landsins síðdegis komast þannig norður fyrir miðnætti og farþegar að norðan komast beint í morgunflug.

Á leiðinni verður stoppað fyrir farþega í Borgarnesi, Staðarskála, Blönduósi og Varmahlíð. Fargjald aðra leið verður 11.000 milli Akureyrar og Keflavíkur, Varmahlíð 10.000 kr., Blönduós 9.000 kr., Staðarskáli 7.000 kr. og Borgarnes 4.500 kr.