Raunfærnimat að verða að raunveruleika

skrifað 18. okt 2018

Unnið er að því að opna fyrir þann möguleika að reyndir einstaklingar, sem hafa stundað leiðsögn án þess að hafa lokið viðurkenndu námi í faginu, geti gengist undir raunfærnimat og fengið í kjölfarið inngöngu í fagdeild Leiðsagnar, félags leiðsögumanna.

Stjórn fagdeildar Leiðsagnar var falið að vinna að undirbúningi raunfærnimats fyrir fólk í leiðsögn. Iðan fræðslusetur og skólastjóri leiðsöguskólans við Menntaskólann í Kópavogi hafa samþykkt að hefja nauðsynlegan undirbúning fyrir matið. Samkvæmt áætlun er gert ráð fyrir að þessi möguleiki opnist haustið 2019. Iða fræðslusetur mun í framtíðinni halda utan um framkvæmdina.

Gert er ráð fyrir að þeir einstaklingar sem hafa starfað samtals í 3 ár sem leiðsögumenn og hafa náð ákveðnum aldri eigi kost á að nýta sér þessa leið gegn ákveðnu gjaldi.

„ Það er lengi búið að tala um nauðsyn þess að opna dyr fyrir reynt fólk í leiðsögn að félaginu. Á undanförnum mánuðum hefur nýskipuð stjórn fagdeildar unnið að undirbúningi þessa. Við áttum afar jákvæðan fund með talsmönnum Iðunnar og leiðsöguskólans í Kópavogi. Á fundinum var farið yfir öll atriði varðandi undirbúning þessa og við í stjórninni fögnum því að þetta ferli skuli vera hafið“ segir Sigrún Stefánsdóttir, formaður stjórnar fagdeildarinnar.