Öryggismál og forvarnir í ferðaþjónustu

skrifað 22. sep 2014
Landsbjörg

Þann 16. Október næstkomandi fer fram ráðstefnan Öryggismál og forvarnir í ferðaþjónustu. Slysavarnafélagið Landsbjörg, Ferðamálastofa, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar standa fyrir ráðstefnu um öryggismál og forvarnir í ferðaþjónustu.

Ráðstefnan fer fram í Kaldalóni í Hörpu fimmtudaginn 16. október 2014 frá 10:00 til 17:00

Á henni mun fjöldi erlendra og innlendra fyrirlesara flytja stutt, hnitmiðuð og lærdómsrík erindi. Með auknum fjölda ferðamanna er enn mikilvægara að þessum málaflokki sé sinnt vel. Það sýna aðstæður hér á landi afar vel eins og dæmin sanna.

Ráðstefnugjald er aðeins kr. 6.900 og innifalið í því auk fyrirlestra er hádegisverður, kaffi og meðlæti. Skráning fer fram hér.
Dagskrá:

09:30 Afhending ráðstefnugagna, kaffi, salurinn opnar

10:00 Setning Ólöf Ýr Atladóttir, ferðamálastjóri

10:15 Slys gera boð á undan sér Með góðum undirbúningi og forvörnum er hægt að koma í veg fyrir mikinn meirihluta óvæntra atvika og ef eitthvað skyldi fara úrskeiðis þá skiptir miklu máli að aðilar séu með viðbragðsáætlanir sem hægt er að grípa til og vinna fumlaust eftir, því slys og óvænt atvik gera að öllu jöfnu boð á undan sér. Elías B. Gíslason, forstöðumaður hjá Ferðamálastofu

10:45 Hvernig er námi háttað hér á landi er varðar öryggismál María mun ræða fræðslumál í ferðaþjónustu með sérstakri áherslu á öryggismál og sýna kortlagningu á framboði til náms er varðar öryggi ferðamanna en sú kortlagning er hluti af verkefni sem SAF hefur unnið að. María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri Samtaka ferðaþjónustunnar

11:15 Eru óhöpp stórt vandamál í ferðaþjónustu og hvernig getum við brugðist við? Oft á tíðum er umræða um óhöpp eða slys tengt ferðaþjónustu í neikvæðum æsifregnastíl og því getur verið erfitt að átta sig á stöðunni. En hversu algeng eru óhöpp hjá ferðamönnum og ferðaþjónustuaðilum og af hvaða toga eru þau ? Hvernig stöndum við okkur í forvörnum? Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri slysavarna ferðamanna, Slysavarnafélagið Landsbjörg

12:00 Hádegisverður í Hörpu

12:45 Samstarf lögreglu og ferðaþjónustu Sveinn starfar á einu stærsta ferðamannasvæði landsins, Suðurlandi. Hann fer í gegnum samstarf ferðaþjónustu og löggæslu síðustu árin og fjallar um hvernig má bæta það. Sveinn Kr. Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli

13:30 Safety & Prevention in Tourism in New Zealand Ross mun í fyrirlestri sínum varpa ljósi á hvernig staðan í þessum málaflokki er í Nýja-Sjálandi en aðstæður þar eru á margan hátt líkar þeim sem eru hérlendis. Hann mun sérstaklega koma inn á hlutverk ferðaþjónustaðila og hvernig björgunaraðilar og þeir geta aukið samstarf sitt. Ross hefur starfað sem björgunarsveitarmaður í áratugi og unnið með ferðaþjónustuaðilum í öryggismálum. Ross Gordon frá Nýja-Sjálandi

14:15 Ferðaþjónusta og náttúruhamfarir Mikið hefur mætt á viðbragðsaðilum landsins síðustu misseri tengt náttúruhamförum og þá sérstaklega Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Eitt af því sem sérstaklega hefur þurft að horfa til eru áhrif á ferðaþjónustu í landinu svo ekki verði frekara tjón. Víðir mun ræða hvernig samstarf hagsmunaðila hefur verið og hvað má bæta. Víðir Reynisson, deildarstjóri Almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra

14:45 Mountain/higland Prevention Work in Sweden and Cooperation with Tourism Industry Lýsing væntanleg Per Olov Wikberg, Swedish Enviromental Protection Agency

15:30 Kaffi og meðlæti

16:00 Við lærðum af reynslunni Fyrir nokkrum árum týndust tveir farþegar á einum vélsleða í ferð út frá skálanum Skálpa við Langjökul. Eftir leit fundust báðir farþegarnir heilir á húfi. Þrátt fyrir að öryggismál hafi verið í góðum farvegi hjá fyrirtækinu ákváðu stjórnendur að gera enn betur. Í fyrirlestrinum er farið yfir atvikið og hvaða lærdómur var dreginn. Gylfi Sævarsson frá Snowmobile.is

16:30 Við settum öryggismálin í forgang Amazing Tours er frekar ungt ferðaþjónustufyrirtæki sem býður margskonar ferðir í sínu vöruúrvali. Strax frá stofnun ákváðu eigendur að leggja mikla áherslu á öryggismálin og stunda báðir sem dæmi nám í ævintýraleiðsögn við Keili. Jón Kristinn Jónsson frá Amazing Tours

17:00 Ráðstefnuslit