Nýr kjarasamningur kynntur

skrifað 13. jan 2014
þjóðfundur l

Félagsfundur FL var haldinn á Restaurant Reykjavík 9. janúar þar sem á dagskrá var kynning á nýgerðum kjarasamningi. Félag leiðsögumanna er eitt af 51 aðildarfélagi ASÍ og er þar með beina aðild. Þann 21. desember s.l. var nýr kjarasamningur undirritaður fyrir stéttarfélög á almennum vinnumarkaði sem gildir frá 1. janúar til 31. desember 2014. Félagsmenn aðildarfélaganna þurfa að greiða atkvæði um samninginn, samþykkja hann eða hafna, og þurfa niðurstöður atkvæðagreiðslunnar að vera ljósar 22. janúar. Félagsmönnum FL mun því berast atkvæðaseðill á næstunni og rafræn atkvæðagreiðsla mun fara fram um samninginn, sem lýkur 20. janúar.

Engar kröfur FL teknar fyrir núna Kjaranefnd FL hefur verið að störfum fyrir hönd félagsins og vann m.a. kröfugerð fyrir félagsmenn, sem byggði á niðurstöðum vinnufundarins í haust sem Capacent stýrði, þar sem fram koma helstu áherslumál félagsins. Á þeim eina fundi sem kjaranefndin fékk með viðsemjendum voru kröfurnar lagðar fram en engin umræða fór fram um þær, því ákveðið hafði verið að engar sérkröfur yrðu teknar fyrir í þessum nýja samningi. Segja má að sá stutti samningur sé e.k. vopnahlé á meðan verið sé að vinna að kjarasþar sem sérkröfur verða skoðaðar og um þær samið. Samkvæmt nýja samningnum á slík vinna að hefjast strax, þ.e. stéttarfélögin eiga að fara að vinna að því að ákveða hvaða kröfur þau vilja leggja fram – en FL er eina félagið sem lokið hefur þeirri vinnu – og fyrir árslok 2014 á að liggja fyrir nýr samningur þar sem tekið hefur verið tillit til sérkrafna aðildarfélaganna.

Frá félagsfundinum Eins og félagsmenn FL hafa án efa heyrt í fréttum þá hefur samningurinn það að markmiði að auka kaupmátt, hækka lægstu laun umfram önnur laun, tryggja lága verðbólgu og undirbyggja stöðugleika. Kjarasamningurinn á að vera mikilvægt skref í þessa átt. Þessa dagana eru aðildarfélög ASÍ að kynna samninginn fyrir félagsmönnum sínum, eins og gert var á félagsfundi FL. Formaður, Örvar Már Kristinsson, fór nokkrum orðum um aðdragandann, Berglind Steinsdóttir, formaður kjaranefndar sagði frá vinnu nefndarinnar og aðkomu að samningsgerðinni, sem var nánast engin. Fundarstjóri, Tryggvi Jakobsson, opnaði síðan fyrir umræður og tóku mjög margir til máls. Flestir voru stórhneykslaðir á samningnum og hversu litlu hann skilaði félagsmönnum; fannst í raun litlu sem engu máli skipta hvort félagsmenn fái greitt samkvæmt nýja samningnum eða þeim gamla, svo óveruleg sé hækkunin. Aðrir voru á því að þarna væri verið að reyna nýjar leiðir í samningagerð, sem væri gott, og að við yrðum að vona að þarna yrði um bætur að ræða. Úr sal var þegar í stað bent á hækkanir, bæði opinberra- og einkaaðila, sem væru strax farnar að grafa undan markmiðum samningsins. Trúverðugleiki þessarar nýju leiðar væri því ekki mikill. Spurt var hvað myndi gerast ef félagsmenn felldu samninginn. Einfaldasta svarið er að þá fá þeir ekki greidd laun samkvæmt nýja samningnum. Félagsmenn voru á því að samkvæmt reynslunni væri erfitt að koma á samstöðu á meðal félagsmanna um hvernig tekið væri á málum eða farið í aðgerðir. Aðrir nefndu að óþarfi væri að hengja sig í fortíðina; nú væru allt aðrir tímar og ferðaþjónustan blómstrar – það ætti stéttin að geta gert líka. Kallað var eftir ,,línu” frá formanni, stjórn og kjaranefnd en formaður svaraði að hann treysti hverjum og einum félagsmanni til að ákveða fyrir sig hvernig hann greiddi atkvæði.

Atkvæðagreiðslan Félagið er eitt af þessum 51 félagi ASÍ sem mun nú greiða atkvæði um samninginn. Samkvæmt reglum eru þeir kosningabærir sem greiddu/greitt var fyrir fjórfalt lágmarks félagsgjald á frá október 2012 og til desember 2013 . Þegar niðurstaða atkvæðagreiðslunnar liggur fyrir kemur í ljós hver staðan á vinnumarkaðnum verður – og þar á meðal hjá félagsmönnum FL. Rafræn atkvæðagreiðsla er mun ódýrari en sú hefðbundna að senda út atkvæðaseðla og nokkur umslög sem setja á þá í. Að auki má búast við meiri þátttöku þegar hún fer fram á svo einfaldan máta. Atkvæðaseðillinn mun berast í tölvupósti ásamt greinargóðum skýringum um atkvæðagreiðsluna. Örfáir eru ekki með netföng og þeir munu fá bréfpóst. Að lokum eru allir félagsmenn hvattir til að kynna sér saminginn vel; hann er aðgengilegur á vefsíðu félagsins og einnig með skýringum á vefsíðu ASÍ: http://www.asi.is/desktopdefault.aspx/tabid-2/19_read-3986

Félagið lét reikna út hvernig launatafla félagsmanna muni líta út verði kjarasamningurinn samþykktur og birtist hún hér að neðan. (Ath. þetta er óformlega launatafla eingöngu ætluð til að sýna hvernig hún gæti litið út við samþykkt kjarasamningsins). -BK