Nú er lag fyrir leiðsögumenn

skrifað 10. mar 2014
Hraunkarlinn í Hallmundarhrauni Kári

Það eru býsna fróðlegar tölur sem koma fram í þjóðhagsreikningum í nýjustu Hagtíðindum frá 7.3. Þar kemur fram að útflutningur vöru og þjónustu sem hlutfall af landsframleiðslu var 57,5% á síðsta ári og hefur ekki verið hærra síðan 1945 !!!!. Fjölgun ferðamanna, góð aflabrögð og hagstætta verð sjávarafurða eiga sinn þátt i þessu. Afgangurinn af þjónustujöfnuði, en til hans heyra m.a. samgöngur og ferðamennska, er meira en 62 millljarðar króna. Þetta er mesti afgangur frá upphafi. "Þessa jákvæðu þróun á þjónustujöfnuði má að langstærstu hluta rekja til ferðaþjónustu" segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Þessar tölur segja hinsvegar ekkert um afkomu fyrirtækja í viðkomandi grein, en eigum við ekki að gera ráð fyrir að hagur strympu hafi eitthvað batnað, og fyrirtæki í ferðaþjónustu séu orðin betur aflögufær um að greiða leiðsögumönnum, bílstjórum og öðrum starfsmönnum fyrirtækjanna mannsæmandi laun. Dagvinnukaup leiðsögumanna er nú tæplega 1600 krónur á tímann!! Framundan eru kjarasamningar leiðsögumanna. Það á eftir ganga frá svokölluðum "sólstöðusamningum" áður en vinna hefst við langtímasamning.Samningarnir voru sem kunnugt er felldir í allsherjaratkvæðagreiðslu og fyrst þarf að sjálfsögðu að ná lendingu í þeim, þannig að þeir skili leiðsögumönnum einhverju fram á við. Hinsvegar eru langtímasamningar. Gylfi Arnbjörnsson forseti ASI gefur upp boltann varðandi atvinnugreinasamninga í Mogganum og segir þar m.a. horft til ferðaþjónustunnar. Þorsteinn Víglundsson segir að annars vegar verði að greina þær atvinnugreinar sem talar séu heppilegar fyrir slíka samninga og hinsvegar að gera einn eða tvo slíka samninga. Ekki verður annað séð, með hliðsjón af miklum afgangi af þjónustujöfnuði og orðum forystumanna ASI og SA, en að nú sem aldrei sé tækifæri til að bæta laun leiðsögumanna og bílstjóra svo um munar á komandi árum. -/kj