Orðsending til félagsmanna

Norðurljósaferðir og forgangur til vinnu

skrifað 25. ágú 2018

Í kjarasamningi Leiðsagnar við SAF segir í grein 10.1:

"Ferðaskrifstofur sem aðilar eru að þessum samningi gera kröfu um að leiðsögumenn hafi lokið leiðsögumannaprófi á Íslandi. Ferðaskrifstofur leitast við að ráða einungis menntaða leiðsögumenn til starfa. Ferðaskrifstofum er heimilt að ráða annað fólk til starfa ef fáanlegir leiðsögumenn uppfylla ekki skilyrði sem krafist er (t.d um tungumálakunnáttu eða nauðsynlega sérþekkingu). Félagar í Félagi leiðsögumanna hafa forgang til vinnu við leiðsögn hjá ferðaskrifstofum sem eru aðilar að samningi þessum og ferðaskrifstofur innan SA og SAF hafa forgang til vinnu félagsmanna innan Félags leiðsögumanna."

Mikil brögð eru á að þetta ákvæði kjarasamningsins sé ekki virt og að ráðið séu til leiðsagnar fólk sem ekki hefur þær forsendur til starfans sem að framan greinir þó svo að ekki séu til staðar þær forsendur til frávika sem tilgreindar eru þ.e. skortur á sérþekkingu eða að félagar í Leiðsögn séu ekki fáanlegir til starfa. Nú fer í hönd tími “norðurljósaferða” og vitað er að í slíkar ferðir er oftlega ráðið til leiðsagnar fólk sem ekki hefur menntun og reynslu til þess starfs og ekki er í Leiðsögn. Slíkt fer í bága við framangreind samningsákvæði en viðbáran er oft sú að ekki hafi aðrir fundist til starfsins.

Leiðsögn vill af þessu tilefni benda félagsmönnum sínum, sem áhuga hafa á þessum ferðum, að hafa samband við þau fyrirtæki sem fyrir ferðunum standa og tilkynna þeim, með tilvísun til þessa samningsákvæðis, um ósk sína til starfa og tilgreina nánar hvenær, t.d. hvaða daga, þeir séu tilbúnir til að taka að sér verkefni.

Leiðsögn væntir þess að með þessu muni viðkomandi fyrirtæki byggja upp hjá sér lista yfir menntaða leiðsögumenn og félaga í Leiðsögn sem þeir geta leitað til.