Nær ekkert fjallað um leiðsögumenn

skrifað 22. jan 2014
20140119_213336

Á síðasta ári kom út bókin „Ferðamál á Íslandi - heildstætt grundvallarrit um ferðamál“. Höfundar eru þeir Edward Hákon Huijbens og Gunnar Þór Jóhannesson. Þeir hafa báðir kennt ýmsa áfanga um ferðamál við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Háskólann á Hólum í Hjaltadal og við símenntunarstöðvar víða um land.
Nafn bókarinnar gefur til kynna að þarna sé um að ræða „heildstætt grundvallarrit“ en í inngangi segir: „Útgangspunktur bókarinnar er fræðilegur þar sem leitast er við að draga saman þekkingu á ferðamálum frá hinu alþjóðlega fræðasamfélagi og setja fram á íslensku“ en samt heitir bókin „Ferðamál á Íslandi“ og þar er næstum ekkert fjallað um menntun eða starf leiðsögumanna hér. Er það mjög miður. Höfundarnir hafa ekki einu sinni fyrir því að segja frá skólum þeim sem kenna leiðsögumönnum og hvað þar sé kennt þrátt fyrir að námskráin liggi fyrir á heimasíðu Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Þá hafa þeir heldur ekki fyrir því að segja frá Félagi leiðsögumanna, tilurð þess, sögu og hlutverki, þrátt fyrir að þeim ætti að vera kunnugt um 40 ára afmælisrit félagsins sem gefið var út á afmælisárinu 2012. Þar er annáll leiðsögumanna þessara ára sem speglar vel þróun ferðaþjónustunnar hér á landi á þessu tímabili. Þegar flett er upp á orðinu leiðsögumaður í atriðisorðaskránni er þess getið að það komi fyrir á þremur stöðum í þessari meira en 300 blaðsíðna bók. Og í hvaða sambandi skyldi það vera? Jú, annar höfunda hefur starfað sem leiðsögumaður, en skyldi hann vera menntaður sem slíkur? Þá er þess getið að Stefán Gössling hafi starfað hér á landi sem leiðsögumaður og á þriðja staðnum er sagt: „Sorphirða, salernismál og frárennslismál hafa t.a.m. löngum verið meiriháttar mál á mörgum ferðamannastöðum og viðvarandi umkvörtunarefni leiðsögumanna.“ Nafn Birnu Bjarnleifsdóttur, hins mikla brautryðjanda leiðsögumanna, kemur tvisvar fyrir í bókinni, annars vegar neðanmáls og hins vegar í meginmáli, en á hvorugum staðnum er þess getið að hún sé leiðsögumaður.
Bókin er rétt uppbyggð sem fræðirit hvað varðar ýmsar alþjóðlegar kenningar um ferðaþjónustu og ferðamál og greinilegar heimildatilvísarnir eru neðanmáls auk mjög ítarlegrar heimildaskrár í lok bókarinnar. Hvað varðar fræðimennskuna saknar maður kannski að kenninga og lögmála um ris og fall áfangastaða sé gert hátt undir höfði í ljósi hinnar miklu aukningar ferðamanna hingað til lands á síðustu árum og þess hve miklu meiri vöxturinn hefur verið hér en víðast annars staðar. Fræðimenn eins og Stephen J. Page hafa töluvert fjallað um þetta í bókum sínum auk annarra viðurkenndra fræðimanna á vettvangi ferðamála. Það hefði verið lágmark að segja stuttlega frá upphafi og núverandi stöðu mála varðandi nám leiðsögumanna. Þeir eru jú ein fárra stétta hér á landi sem er sérstaklega menntuð til starfa í ferðaþjónustu. Þá hefði einnig mátt eyða fleiri orðum í nám í ferðamálafræðum við HÍ og Hólaskóla. Um námið í þeim síðarnefnda er sagt að þar sé lögð áhersla á ferðaþjónustu í dreifðum byggðum, hvaðan svo sem sú skilgreining er komin. -/kj