MINNISBLAÐ um flutning til og frá vinnustað / brottfararstað

skrifað 27. okt 2018

Fyrir skömmu var nokkrum leiðsögumönnum sent bréf, þar sem tilkynnt var að ferðaþjónustufyrirtæki myndu ekki lengur sjá þeim fyrir flutningi til og frá vinnu þegar um lengri ferðir væri að ræða. Er leiðsögumönnum nú gert að mæta annað hvort á það hótel þar sem gestirnir gista eða skrifstofu viðkomandi rútufyrirtækis, en síðan verði leiðsögumönnum greitt 2,5 startgjald leigubíla við upphaf og lok ferða við næstu útborgun. Ástæðan fyrir þessu breytta fyrirkomulagi er að því er sagt er vegna breyttra viðhorfa til rútuaksturs inn í íbúðahverfum, en hið nýja skipulag er rökstutt með tilvísun í kjarasamning Leiðsagnar, 4. kafla, gr. 2, en þar segir:

1. Sé leiðsögumaður kvaddur til vinnu með minna en einnar klst. fyrirvara skal vinnuveitandi sjá honum fyrir flutningi á vinnustað og frá vinnustað í lok vinnu ef almenningssamgöngur eru ekki fyrir hendi.
2. Sé um að ræða ferðir þar sem leiðsögumaður þarf að gista fjarri heimili sínu skal vinnuveitandi annað hvort sjá leiðsögumanni fyrir flutningi að og frá brottfararstað, eða greiða leiðsögumanni sannanlegan kostnað við flutning, þó að hámarki 2 ½ startgjald leigubifreiða.
3. Vinnuveitandi sér leiðsögumanni fyrir flutningi að og frá brottfarar- og komustað utan strætisvagnatíma.

Af þessu tilefni tekur Leiðsögn eftirfarandi fram:

Töluliður 2 á eingöngu við á þeim tíma sólarhrings sem almenningssamgöngur eru til staðar og það er því einungis á þeim tíma sem vinnuveitendur geta boðið leiðsögumanni upp á að greiða 2 ½ startgjald leigubifreiða.

Þegar almenningssamgöngur eru ekki til staðar gildir sú regla, sem greint er frá í tölulið 3, sem er meginregla á íslenskum vinnumarkaði, að utan strætisvagnatíma sjái vinnuveitandi starfsmanni fyrir flutningi til og frá vinnu honum að kostnaðarlausu. Á það einnig við um leiðsögumenn, sbr. tölulið 2, sem gista þurfa fjarri heimili sínu, hefjist ferð þeirra eða ljúki utan strætisvagnatíma.