Metnaðarleysi ferðamálayfirvalda

skrifað 19. júl 2017
indridi_h_thorlaksson_hofundur

Birtum hér grein eftir Indriða H. Þorláksson um viðhorf stjórnvalda til leiðsagnar ferðamanna á Íslandi.

Efna­hags- og fram­fara­stofn­unin (OECD) birti nýverið skýrslu um Ísland sem að hluta til var helguð ferða­málum vegna áhrifa þeirra á end­ur­reisn lands­ins eftir hrun­ið. Í skýrsl­unni eru mis­góðar ábend­ingar um áherslur á þessum vett­vangi. Sumar eru gaml­ar, heima­bak­aðar lummur svo sem um hand­stýr­ingu ferða­manna en aðrar veiga­meiri og frum­legri! eins og þörf­ina á þver-ráðu­neyta­legri stefnu­mörkun þrátt fyrir til­vist Stjórn­stöðvar ferða­mála og ábend­ing um þörf á sam­ræmi í skipu­lagi sam­göngu­mála og stefnu í ferða­málum sem vænt­an­lega vísar fyrst og fremst til skorts á inn­an­lands­flugi frá Kefla­vík.

Skýrslan er áfell­is­dómur yfir stefnu- og aðgerða­leysi stjórn­valda í mál­efnum ferða­þjón­ust­unn­ar. Sú nið­ur­staða er ekki óvænt en það sem vekur athygli er að einu við­brögð ferða­mála­ráð­herra eru þau að ráð­legt sé að setja á stofn eins konar „mini” Hafró til þess að segja stjórn­völdum hvað gera þurfi. Ráð­herr­anum virð­ist ekki kunn­ugt um Rann­sókn­ar­mið­stöð ferða­mála við HA né um hátimbraða Stjórn­stöð ferða­mála sem átti að iðka rann­sóknir og afla áreið­an­legra gagna um ferða­þjón­ust­una. Svona við­brögð eru vottur um stefnu­leysi og ráð­leysi og var mælir­inn þó ekki fylltur í þeim efnum eins og rakið verður hér á eft­ir.

Fram kom á Alþingi skömmu fyrir þing­lok fyr­ir­spurn til ráð­herra ferða­mála um við­horf hans til lög­vernd­unar á starfs­heiti leið­sögu­manna. Í fyr­ir­spurn­inni kemur fram að um sé að ræða starfs­heiti leið­sögu­manna með starfs­und­ir­bún­ing sem upp­fyllir staðlinn IST EN 15565:2008, sem gilt hefur hér á landi síðan á árinu 2008. Var ekki ein­göngu átt við þá sem aflað hafa sér form­legrar mennt­unar í leið­sögu­skóla sem starfa í sam­ræmi við þann staðal heldur einnig þá sem aflað hafa sér þekk­ingar á því sviði með öðrum hætti í öðrum skólum eða sýnt fram reynslu og hæfni í raun­færni­mati. Við­fangs­efni lög­vernd­unar starfs­heit­is­ins, sem t.d. gæti verið fag­lærður leið­sögu­maður væri m.a. að skil­greina þá mennt­un, þær gæða­kröfur og/eða þá reynslu sem til þyrfti til að nota það og gætu verið mis­mun­andi eftir hinum ýmsu sviðum leið­sagn­ar.

Svar ráð­herra er rýrt og rök­stuðn­ingur hans óljós. Vísað er til Veg­vísis í ferða­þjón­ustu og stofn­unar Hæfn­iset­urs ferða­þjón­ust­unnar sem ku vinna að upp­bygg­ingu þrepa­skipts náms þótt athugun á verk­efnum þess­ara aðila leiði fátt í ljós sem snertir leið­sögn ferða­manna. Þá er í svar­inu bent á að í end­ur­skoðun á lögum um skipan ferða­mála gef­ist færi á að fara yfir mál­efni leið­sögu­manna sér­stak­lega. Í drögum að frum­varpi um breyt­ingar á lög­unum sem kynnt hefur verið á heima­síðu ráðu­neyt­is­ins er ekk­ert um leið­sögu­menn annað en það að félagi þeirra er ætlað að til­nefna full­trúa í Ferða­mála­ráð sem er hið besta mál en hefur ekk­ert með lög­verndun starfs­heit­is­ins að gera. Þessar til­vís­anir í svar­inu eru til þess eins fallnar að drepa umræð­unni á dreif og gefa í skyn að eitt­hvað sé um að vera sem aug­ljós­lega er þó ekki.

Til þess að und­ir­byggja afstöðu sína gefur ráð­herr­ann í skyn að verndun starf­heitis leið­sögu­manna feli í sér að leyfi yfir­valda þurfi til að sinna leið­sögn, sem er rangt, og hleypur síðan í smiðju Við­skipta­ráðs sem segir að lög­verndun starfs­heita sé af hinu vonda. Í sam­ræmi við þann boð­skap klikkir hann út með því að segja það mat sitt „að almennt séð eigi lög­verndun starfs­heita við í greinum þar sem hún skilar sann­ar­lega ávinn­ing­i." Ekki kemur fram hvernig þessi ávinn­ingur skuli met­inn eða hvers hann sé: Fyr­ir­tækj­anna sem selja þjón­ust­una, leið­sögu­mann­anna sem inna hana af hendi, ferða­mann­anna sem kaupa hana eða orð­spors ferða­þjón­ustu í land­inu.

Í fram­haldi af þessu kemur síðan önnur til­raun til að afvega­leiða umræð­una þegar sagt er: „Hafa ber í huga að lög­verndun starfs­heitis leið­sögu­manna mundi leiða til þess að ófag­lærðir ein­stak­ling­ar, sumir með ára­tuga­langa reynslu í leið­sögn, þyrftu leyfi frá stjórn­völdum til að geta titlað sig leið­sögu­menn og álita­efni hvort slíkur ávinn­ingur lög­vernd­unar á starfs­heiti leið­sögu­manna vegi upp þann sam­fé­lags­lega kostnað sem af slíkri lög­gjöf mundi hljót­ast.” Hið rétta er að lög­vernd­un­in, sem fyr­ir­spurnin snýst um, nær með sama hætti til allra þeirra sem aflað hafa sér þeirrar mennt­un­ar, hæfni og reynslu sem skil­greind yrði í lög­un­um. Gildir þá einu hvort það hafi að öllu leyti verið gert með sér­stöku leið­sögu­námi, námi í öðrum skólum og háskólum hér­lendis eða erlendis eða hafi verið áunnið með hæfni í starfi sem stað­fest hafi verið með raun­færni­mati. Kemur þetta reyndar glöggt fram í fyr­ir­spurn­inni þannig að það jaðrar við útúr­snún­ing að tala um þetta sem „sam­fé­lags­legan kostnað sem af slíkri lög­gjöf mundi hljótast”. Lög­verndun starfs­heitis fag­lærðra leið­sögu­mann er í þágu allra þeirra sem með námi eða starfi hafa áunnið sér þá þekk­ingu og færni sem þarf til að til að sinna leið­sögn ferða­manna með sóma­sam­legum hætti og hún er þágu þeirra fyr­ir­tækja sem hafa metnað til að selja fag­lega þjón­ustu á þessu sviði með gagn­sæjum hætti.

Sú full­yrð­ing að lög­verndun starfs­heit­is­ins feli í sér skerð­ingu á atvinnu­frelsi sem kemur fram í orð­un­um: „Þannig ætti lög­gjöf um lög­verndun starfs­heita að mið­ast við að skerða ekki atvinnu­frelsi nema sýnt hafi verið fram á ávinn­ing þeirrar lög­vernd­un­ar” er ein­fald­lega röng. Lög­verndun starfs­heitis fag­lærðra leið­sögu­manna skerðir ekki atvinnu­frelsi eins eða neins. Eftir sem áður væri hverjum sem er heim­ilt að starfa við leið­sögn ferða­manna og þeim sem selja leið­sögu­þjón­ustu væri eftir sem áður heim­ilt að ráða hvern sem þeir óska eftir til slíks starfs. Það sem breytt­ist með lög­gild­ingu starfs­heit­is­ins er að ekki væri lengur unnt að selja þessa þjón­ustu undir fölsku flaggi. Fram kæmi hvort þeir sem leið­sögn­ina inna af hendi hafa þann starfs­und­ir­bún­ing, menntun og reynslu sem talin er nauð­syn­leg fyrir starfið sam­kvæmt alþjóð­lega við­ur­kenndum staðli eða ekki. Lög­vernd­unin yrði þannig til að auka gagn­sæi á þessum mark­aði og gera kaup­endum auð­veld­ara að vita að hverju þeir ganga á sama hátt og hún myndi tor­velda þeim fyrir sem selja vilja þjón­ustu sem ekki stenst mál.

Eftir að til­gangi lög­vernd­unar á starfs­heit­inu hefur verið fundið flest til for­áttu í svari ráð­herra koma í lokin eins og skratt­inn úr sauð­ar­leggnum heldur rugl­ings­legar bolla­legg­ingar um „að skoða leiðir til að ná mark­miðum lög­gild­ingar með öðrum leið­u­m.” Eru þá nefnd til leiks ýmis þau atriði sem reyna myndi á við hina for­dæmdu lög­gild­ingu en eru nú orðin sak­leys­is­leg og lík­lega þjóð­hags­lega hag­kvæm.

Á grund­velli þess sem að framan greinir er það nið­ur­staða ráð­herra ferða­mála að „á þessu stigi” sé ekki rétt að lög­vernda starf leið­sögu­manna. Það eru kannske ítrekuð pennaglöp fremur en mis­skiln­ingur að rugla öðru sinni saman lög­verndun starfs og lög­verndun starfs­heit­is, sem er tvennt ólíkt, og verður ekki dvalið við þau. Hitt vekur spurn­ingar hvað átt er við með orð­unum „á þessu stigi”. Þeir sem til þekkja vita að í mik­illi þenslu á þessum mark­aði er margur pottur brot­inn. Ferða­þjón­ustu­fyr­ir­tækin hafa ráðið marga leið­sögu­menn til starfa, sem ekki hafa neinn und­ir­bún­ing til slíkra starfa og valda starf­inu mis­vel. Stundum hefur þetta verið gert af illri nauð­syn vegna þess að ekki hefur verið kostur á fag­lærðum leið­sögu­mönnum en í öðrum til­vikum virð­ist þetta gert til að draga úr kostn­aði og greiða ekki laun sam­kvæmt gild­andi kjara­samn­ingum leið­sögu­manna, sem eru þó ekki ýkja há, auk þess sem að ekki er farið að lögum og samn­ingum um greiðslu félags­gjalda. Þessir aðilar eru í sam­keppni við fyr­ir­tæki sem leggja metnað sinn í að tefla ein­göngu fram mennt­uðum og/eða reyndum leið­sögu­mönn­um. Þá er einnig alkunna að erlend fyr­ir­tæki selja ferðir hér með leið­sögn sem nægir ekki einu sinni til að rata sæmi­lega um þjóð­vegi lands­ins.

Það er von­andi að orðin „á þessu stigi” hafi bara verið gam­all hand­hægur orða­leppur sem ráð­herra hefur gripið til í vand­ræðum en sé ekki vís­bend­ing um að hann telji þetta ástand í lagi eða að æski­legt sé að bíða með aðgerðir eftir því að ástandið versni enn og fag­leg leið­sögn ferða­manna á Íslandi heyri sög­unni til.

Höf­undur er leið­sögu­mað­ur
Greinina má einnig nálgast inná www.indridih.com