Menntun starfsfólks er mikilvæg fyrir gæði greinarinnar

skrifað 23. apr 2014
Snæfellsjökull Rvk Kári

KPMG kynnti skýrslu um arðsemi hótelgeirans á Íslandi í dag. Framboð hótelherbergja hefur aukist umtalsvert á síðustu 5 árum en þó ekki í takt við vöxt í fjölda ferðamanna. Hlutfallsleg framboðsaukning hótelherbergja var mismunandi eftir landshlutum en á Vestfjörðum var mesta aukningin. Þrátt fyrir mikla framboðsaukningu hefur nýtingarhlutfall hækkað í öllum landshlutum. Hægt er að merkja að það hefur dregið úr árstíðarsveiflum þar sem hlutfallsleg aukning í komum erlendra ferðamanna er mest utan háannar ferðaþjónustunnar. Gistinóttum utan háannar fjölgaði um 64% en hlutfallslega jókst gisting utan háannar mest á Austurlandi og Vestfjörðum. Traustari innviðir gera ferðaheildsölum betur kleift að senda ferðahópa út á landsbyggðina. Miðað við þau verkefni sem vitað er af má gera ráð fyrir töluverðri framboðsaukningu á komandi árum. Ákveðin hættumerki leynast í þessari aukningu þar sem tölfræði um menntun starfsfólks í námi sem nýtist í hótelstarfsemi gefa til kynna að lítil fjölgun virðist hafa átt sér stað. Sú þróun getur komið til með að bitna á þjónustu hótela og ánægju þeirra gesta sem sækja Ísland heim. Meðalafkoma hótela hefur batnað á milli áranna 2009 og 2012, þá sérstaklega höfuðborgarinnar samanborið við landsbyggðina. Sjá nánar hér.