Málþing um menntun og starfsréttindi leiðsögumanna

skrifað 06. sep 2018

Leiðsögn - Stéttarfélag leiðsögumanna mun í næsta mánuði gangast fyrir málþingi um menntun leiðsögumanna, starfsréttindi þeirra og ýmis mál sem þeim tengjast. Tilefni fundarins er skýrsla sem um þetta efni sem starfshópur sem Leiðsögn skipaði á síðasta ári hefur unnið og skilað af sér fyrir skemmstu. Auk Leiðsagnar átti Ferðamálastofa og Samtök ferðaþjónustunnar aðild að hópnum. Í skýrslunni er stöðu menntunar leiðsögumanna hér á landi gerð glögg skil með hliðsjón af staðli um menntun leiðsögumanna sem í gildi hefur verið í Evrópu síðan 2008. Í skýrslunni er einnig að finna tillögur hópsins um tilhögun á námi og starfsundirbúningi leiðsögumanna.

Á málþinginu verður skýrslu starfshópsins kynnt og efni hennar rætt með tilliti til aðstæðna hér á landi og frá ýmsum sjónarhornum leiðsagnar og ferðaþjónustu. Meðal annars verði komið inn á eftirfarandi:

1. Skýrslan, meginefni hennar og aðalatriði, Evrópustaðal um menntun leiðsögumanna, núverandi framboð á námi í leiðsögn og tillögur um það svo og nauðsynlegan sveigjanleiki við mat á öðru námi og reynslu.
2. Menntun leiðsögumanna og gæði sem hluti af gæðakröfum ferðaþjónustu, öryggismál ferðaþjónustu og starfsundirbúningur leiðsögumanna, fararstjóra og hópstjóra, umhverfismál, verndun náttúru- og menningarminja, þjóðgarða, friðlanda og náttúruvætta.
3. Erlend ferðaþjónusta og samkeppnisstaða innlendra ferðaþjónustu.
4. Stofnanir sem veita leiðsögunám.
5. Menntun leiðsögumanna, löggilding starfs, lögverndun starfsheitis og aðrar leiðir til viðurkenning á starfsheiti og kjarasamningar.

Gert er ráð fyrir að formaður starfshópsins og aðrir meðlimir hans geri grein fyrir efni skýrslunnar og komi eftir atvikum inn á önnur þau atriði sem nefnd eru hér að framan og viðhorf þeirra aðila sem tilnefndu þá til starfsins. Auk þess verði valdir nokkrir aðilar til að fjalla í stuttum erindum um skýrsluna frá þeim sjónarhornum sem að framan greinir. Að lokum verði almennar umræður og eftir atvikum lagðar fram ályktanir og þær afgreiddar.