Lögverndun starfsheitis Leiðsögumanna ferðamanna

skrifað 30. apr 2015
1Kjaramál

Öryggismál - náttúruvernd - gæðamál - neytendavernd - starfsöryggi

Þann 24. mars s.l. lögðu Ásmundur Friðriksson, Haraldur Benediktsson, Vilhjálmur Bjarnason, Unnur Brá Konráðsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Haraldur Einarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Þórunn Egilsdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Kristján L. Möller, Ingibjörg Óðinsdóttir. fram frumvarp til laga um lögverndun starfsheitis leiðsögumanna ferðamanna. Frumvarpið var unnið að frumkvæði Ásmundar Friðrikssonar í samvinnu við Félag leiðsögumanna. Frumvarpið er komið á skrá en ekki eru taldar líkur á því að það verði lagt fram á þessu þingi eins og staðan er. Frummælendur eru þó bjartsýnir á að málið komist fljótlega á dagskrá í haust.
Um árabil hefur Félag leiðsögumanna unnið að því að fá löggildingu eða lögverndun á starf eða starfsheiti sitt. Hafa sérstakar löggildinganefndir ásamt stjórn félagsins á hverjum tíma unnið þrotlaust að þessu málefni en mætt litlum skilningi annara hagsmunaaðila. Með vaxandi straumi ferðamanna sem hefur farið langt fram úr bjartsýnustu spám hafa ýmsir orðið til þess að vekja máls á nauðsyn þess að herða allt regluverk í kringum ferðaþjónustu svo koma megi skikk á hin ýmsu mál sem hafa verið í ólestri. Má þar helst nefna náttúruvernd, gæðamál og neytendamál. Undir náttúruvernd falla svo auðvitað hverskyns umgengnis og aðstöðumál vegna umferðar og nýtingar á stöðum sem eðli síns vegna eru áhugaverðir en á sama tíma oft
viðkvæmir. Verði frumvarpið að lögum - sem allt útlit er fyrir vegna breiðrar samstöðu um það - verður hægt að treysta því að einungis vel staðkunnugir leiði hópa ferðamanna um viðkvæma náttúru landsins. Þá tryggir lögverndun starfsheitis að ófaglærðir, ókunnugir erlendir farastjórar titli sig ekki sem leiðsögumenn og fari um landið án nægilegrar þekkingar á jarðfræði, menningu og sögu lands og þjóðar. Er óhætt að segja að frumvarpið sé stórt framfaraskref fyrir
ferðaþjónustuna í heild, ferðamenn og leiðsögumenn. Með gildistöku laganna verður til sá rammi sem hefur sárlaga vantað til að starf leiðsögumanna geti talist alvöru starfsgrein en ekki lengur íhlaupavinna annara stétta, eftirlaunafólks og erlendra starfsmanna sem oft hafa litla eða enga þekkingu á landinu og koma hingað sem leiðsögumenn en eru í raun oft ferðamenn á sérstökum afsláttarkjörum. Með gildistöku laganna færumst við nær öðrum Evrópuríkjum sem fyrir löngu hafa sett hömlur á hverjir geti kallað sig leiðsögumenn og farið óhindrað um einstaka staði, borgir og víðerni með hópa ferðamanna. Hægt er að skoða frumvarpið með því að smella hér.

ÞSM/þsm