Kominn tími til að breyta-framtíðarsýn FL

skrifað 08. mar 2017
Tourist Guide merki

Á félagsfundi 16. febrúar s.l. var kynnt vinna og tillögur starfshóps, sem stjórn félagsins skipaði til að fara yfir starfsemi og lög Félags leiðsögumanna. Félagsmenn eru hvattir til að kynna sér það sem hópurinn lagði fram en skjölin frá fundinum fylgja hér með.

Forystu fyrir starfshópnum hefur Indriði H. Þorláksson en aðrir leiðsögumenn í hópnum eru þau Vilborg Anna Björnsdóttir, formaður FL, Hlíf Ingibergsdóttir, Steinunn Harðardóttir, Eiríkur Einarsson og af hálfu stjórnar sátu flesta fundina þau Örvar Már Kristinsson, fv. formaður félagsins, Kári Jónasson, Snorri Ingason auk Vilborgar Önnu.

Félag leiðsögumanna var stofnað árið 1972 og fagnar því 45 ára afmæli í ár. Félagið var stofnað til að vinna að réttindamálum þeirra sem voru að starfa við leiðsögn en fram að þeim tíma var ekkert slíkt félag til. Ekki þarf að fjölyrða um allar þær breytingar sem orðið hafa á þessum starfsvettvangi síðan – ekki síst á undanförnum árum. Í áranna rás hefur verið bætt við lög félagsins eftir aðstæðum, lagagreinum breytt og aðrar teknar út. Þetta vita allir sem hafa verið virkir í að mæta á aðalfundi félagsins. Það má að mörgu leyti líkja lögunum við gamla, stagbætta flík. Löngu var því tímabætt að taka lögin til gagngerrar endurskoðunar og um leið starfsemi Félags leiðsögumanna í takt við starfsumhverfið nú á dögum.

Breyting á nafni félagsins
Ein af tillögunum sem kom fram hjá starfshópnum er breyting á nafni félagsins. Starfshópurinn tók saman greinargerð um tillögur sínar, tilgang þeirra og markmið má lesa í skjalinu "FL breytingar" er finna má hér neðst í fréttinni.

Indriði fór svo nánar yfir rök starfshópsins fyrir tillögum sínum, eins og lesa má í skjalinu með kynningu hans hér neðar.

Hvað er stéttarfélag? Magnús H. Norðdahl, lögfræðingur ASÍ, er hópnum til halds og trausts við skoðun á núverandi lögum FL. Þess má geta að ASÍ þarf að samþykkja allar breytingar sem gerðar eru á lögum aðildarfélaga ASÍ áður en þau taka gildi og á það við um breytingar á lögum FL sem gerðar hafa verið á aðalfundum félagsins á liðnum árum. Magnús kom á félagsfundinn og fór yfir hlutverk stéttarfélaga almennt sem og ýmislegt sem þyrfti að laga í lögum FL, enda væru þau bæði barn síns tíma og bætur eða breytingar við þau í áranna rás ekki alltaf verið að virka eins og skyldi.
Hér má lesa kynningu Magnúsar frá því á félagsfundinum.