Kjaraviðræður

skrifað 13. apr 2015
vinnufundur a

Kjaranefnd Félags leiðsögumanna hefur fram til þessa verið á þremur fundum með viðsemjendum félagsins þar sem fulltrúar flestra stærstu fyrirtækjanna sem hafa leiðsögumenn í þjónustu sinni hafa verið ásamt fulltrúa SAF, og Samtaka atvinnulífsins sem leiðir samninganefnd fyrirtækjanna. Á fyrsta fundinum kynntu fulltrúar Félags leiðsögumanna kröfur félagsins sem byggðar eru á því starfi sem unnið hefur verið innan félagsins á undanförnum mánuðum, þar sem fjöldi félagsmanna lét í ljósi skoðanir sínar varðandi áhersluatriði í væntanlegum samningum. Á öðrum samningafundinum viðruðu fulltrúar fyrirtækjanna skoðanir sínar á kröfum félagsins, en á þeim þriðja sem haldinn var þriðjudaginn 7. apríl komust samninganefndirnar að samkomulagi um að skipa fámennar undirnefndir frá hvorum aðila til að fara yfir gildandi kjarasamning í heild og hefst sú vinna þriðjudaginn 14.apríl. Gert er ráð fyrir að vinna stíft í þessu í nokkra daga með hléum á milli svo hægt verði að bera árangur þessarar endurskoðunar undir bakland beggja samningsaðila, eftir því sem starfinu miðar.
Í kjaranefnd Félags leiðsögumanna eru Snorri Ingason , formaður, Bergur Álfþórsson og Elísabet Brand. Varamenn eru Jens Ruminy og Sigríður Guðmundsdóttir. Örvar Már Kristinsson formaður FL og Vilborg Anna Björnsdóttir varaformaður félagsins hafa auk þess setið fundi kjaranefndar og verið á fundunum með Samtökum atvinnulífsins , SAF og fulltrúum fyrirtækjanna i ferðaþjónustu.
-kj