Kjarasamningar framundan

skrifað 07. nóv 2013
stjórn 13 á ferðamálaþingi

   Allt frá því í vor hefur kjaranefnd Félags leiðsögumanna unnið að undirbúningi kjarasamninga sem nú eru að komast á fullt skrið. Nefndin sneri sér snemma í vor til ASÍ varðandi kröfugerð félagsins og ýmislegt tengt kjarasamningunum framundan. Bæði hagfræðingar og lögfræðingar samtakanna komu að þeim ráðleggingum sem félagið fékk þá áður en hinn mikli sumarannatími leiðsögumanna rann upp.

   Í september var svo þráðurinn tekinn upp að nýju en þá gerðist það að Halldór S. Magnússon, formaður kjaranefndar FL, sagði af sér störfum af persónulegum ástæðum. Hann tók það sérstaklega fram  þegar hann tilkynnti um afsögn sína að hún væri ekki á neinn hátt tengd óánægju eða ósætti við félagið, heldur aðeins persónulegs eðlis.

   Kjaranefndin er nú fullskipuð á ný og hefur Berglind Steinsdóttir tekið við formennsku í nefndinni. Auk hennar eru í henni, aðalmenn og varamenn: Bergur Álfþórsson, Pétur Jónsson, Jens Ruminy, Guðmundur Örn Ragnarsson og Elísabet Brand.

    Félagið efndi sem kunnugt er til eins konar „þjóðfundar“ í október þar sem um 50 félagsmenn létu í ljós skoðun sína á kjaramálum, löggildingarmálum og öðrum málum félagsins. Niðurstaða þessa fundar er gott veganesti fyrir kjaranefndina og hefur hún unnið að því að fara yfir niðurstöður fundarins með hliðsjón af kjarasamningunum framundan.

   Búast má við því að nefndin leggi fljótlega fram kröfur Félags leiðsögumanna í yfirstandandi kjarasamningum og verða þær byggðar á niðurstöðum fundarins þar sem öllum var gefinn kostur á að leggja fram tillögur og hugmyndir um væntanlega samninga.