Kjarasamningar, staða og framvinda

skrifað 04. feb 2019

Undirbúningur að nýjum kjarasamningi Leiðsagnar hófust snemma á síðasta ári. Trúnaðarráð félagsins fer með samningagerðina í samræmi við lög félagsins og kjaranefnd sem kosin er af trúnaðarráði hafði annast undirbúning viðræðna með því að fara yfir öll ákvæði gildandi samnings og leggja fram tillögur og hugmyndir um breytingar. Leitaði kjaranefnd m.a. til skrifstofu félagsins og fagdeildar almennrar leiðsagnar o.fl. um atriði í samningum sem taka þyrfti á. Trúnaðarráðið kaus í september sl. nefnd til að sjá um viðræður við samninganefnd SAF/SA. Hófust þær með gerð viðræðuáætlunar. Í samræmi við hana var fundað um ýmis atriði í nóvember og desember en gert er ráð fyrir að um launaliði verði fjallað þegar annar hvor aðila leggur fram kröfur um hann. Hefur það ekki gerst enn.

Í fyrstu umræðum um sérmál lagði Leiðsögn fram tillögur um breytingar á ákvæðum um ráðningarform, veikindarétt og orlof auk þess sem að tekið yrði upp nýtt starfsaldursmat. Í þessum efnum var við það miðað að réttindi leiðsögumanna færðust í það horf sem almennt er í þessum efnum en staða félaga í Leiðsögn er nú nokkuð frábrugðin því. Var tillögum Leiðsagnar ekki illa tekið og hefur vinnuhópur aðila fjallað frekar um þær ásamt hugmyndum SAE/SA um breytingar á ákvæðum um vinnutíma o.fl. er áfram unnið að þeim. Voru þær m.a. til umfjöllunar á tveimur fundum trúnaðarráðs í janúar þar sem einnig voru rædd næstu skref sem eru tillögur um uppbyggingu launaflokka með hliðsjón af breyttum ákvæðum um starfsaldur og er gert ráð fyrir að kynna þær tillögur á næsta fundi með SAF/SA.

Auk samtalsins við SAF/SA fylgist viðræðunefndin með framvindu í samningum annarra stéttarfélaga, sérstaklega um þau atriði sem þýðingu kunna að hafa fyrir félagið. Ekki er gert ráð fyrir að móta og leggja fram kröfur um launaliði fyrr en línur skýrast í þeim efnum hjá stóru félögunum.