Kjaranefnd leggur fram kröfur

skrifað 21. nóv 2013
kjaranefnd 2013

Kjaranefnd Félags leiðsögumanna hefur haldið marga fundi undanfarið  og leitað ráða varðandi kröfugerðina hjá  ASÍ. Miðvikudaginn 20. nóvember  átti nefndin ásamt formanni félagsins svo sinn fyrsta fund með  samninganefnd Samtaka atvinnulífsins í húsakynnum þeirra við Borgartún. Þar fór Berglind Steinsdóttir, formaður kjaranefndar, yfir helstu kröfur félagsins í yfirstandandi samningum og lagði m.a. áherslu á sérstöðu leiðsögumanna varðandi ráðningarform. Sem kunnugt er er mikill meirihluti leiðsögumanna lausráðinn og margir starfa hjá nokkrum fyrirtækjum yfir árið. Lögð var áhersla á að laun leiðsögumanna verði færð til jafns við ýmsar aðrar stéttir sem tilgreindar eru í kröfugerðinni, en hins vegar ekki talað um beina prósentuhækkun.

  Áhersla er lögð á að greitt verði fyrir fleiri klukkkustundir í hótel- og tjaldferðum, krafa er um lágmarksvinnutíma, að gjald í sjúkrasjóð hækki, svo og símakostnaður. Samtarfsnefnd verði komið á milli FL og SA, rætt um ökuleiðsögumenn, jöklaleiðsögumenn og búnaðarkostnað, svo stiklað sé á stóru í kröfugerðinni.

  Í kjaranefnd FL eru: Berglind Steinsdóttir formaður, Bergur Álfþórsson, Pétur Jónsson, Elísabet Brand, Guðmundur Örn Ragnarsson og Jens Ruminy.

  Samninganefnd  SA er fjölmen og í henni eru: Kristín Þóra Harðardóttir, lögfræðingur SA, ábyrgðarmaður, Erna Hauksdóttir SAF, Helga Árnadóttir SAF, Gunnar Rafn Birgisson Atlantik, Þráinn Vigfússon Íslandsferðum, Kristján Daníelsson Kynnisferðum, Rúnar Garðarsson Allrahanda, Jón Björgvinsson GJ Travel, og Elín Sigurðardóttir Íslenskum fjallaleiðsögumönnum.

Myndin af kjaranefndinni var tekin á veitingastað í Borgartúni áður en hún fór til fundar við fulltrúa SA. Frá vinstri: Jens Ruminy, Berglind Steinsdóttir, Bergur Álfþórsson, Guðmundur Örn Ragnarsson, Pétur Jónsson og Örvar Már Kristinsson, formaður FL. (Ljósm.: Kári.)