Jón R. Hjálmarsson, nýr heiðursfélagi

skrifað 10. maí 2017
Jón R

Leiðsögn - félag leiðsögumanna hefur gert Jón R. Hjálmarsson að heiðursfélaga sínum.

Jón R. Hjálmarsson var einn af stofnendum Félags leiðsögumanna árið 1972 og hefur alla tíð verið vinsæll og fjölfróður leiðsögumaður, búinn einstökum hæfileikum til að miðla öðrum af ríkulegri þekkingu sinni á sögu, menningu og náttúru landsins.

Auk starfa sem skólastjóri Héraðskólans að Skógum undir Eyjafjöllum og Fræðslustjóri Suðurlands vann Jón alla tíð að verkefnum sem tengjast ferðamennsku. Hann lagði uppbyggingu Byggðasafnsins að Skógum drjúgt lið og stóð að ritun og útgáfu á verkum um sögu og menningu héraðsins.

Ritverk Jóns um sagnfræði og þjóðfræði eru víðkunn og “þjóðvegarbækur” hans eru leiðsögumönnum kærkomin uppspretta fróðleiks og ferðamönnum til ánægju.

Leiðsögn - félagi leiðsögumanna - er heiður að því að hafa Jón R. Hjálmarsson innan sinna vébanda og samþykkti einróma á aðalfundi sínum 10. apríl 2017 að gera hann að heiðursfélaga.