Jólasýning Árbæjarsafns

skrifað 05. des 2014
Íslenskir jólasveinar

7., 14., og 21. desember 13-17.

Dagskrá næstu þrjá sunnudaga: Guðsþjónusta kl. 14 Jólasveinar á vappi á milli 14 og 16 Dansað í kringum jólatréð á torginu kl. 15 (English below) Jólasýning Árbæjarsafns hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár og hlotið fastan sess í menningarlífi höfuðborgarinnar á aðventunni. Ungir sem aldnir geta rölt milli húsanna og fylgst með undirbúningi jólanna eins og hann var í gamla daga. Hrekkjóttir jólasveinar gægjast á glugga og kíkja í potta, börn og fullorðnir föndra og syngja jólalög. Það er eitthvað um að vera í flestum húsum Árbæjarsafns sem bera öll upprunaleg nöfn. Í Árbænum sitja fullorðnir og börn með vasahnífa og skera út laufabrauð en uppi á baðstofulofti verður spunnið og prjónað. Þar verður jólatré einnig vafið lyngi. Börn og fullorðnir geta föndrað, búið til músastiga, jólapoka og sitthvað fleira. Í Hábæ verður hangikjöt í potti og gestum boðið að bragða á nýsoðnu keti en í stofunni er sýndur útskurður. Í Efstabæ er jólaundirbúningurinn kominn á fullt skrið og skatan komin í pottinn. Í hesthúsinu frá Garðastræti er sýnt hvernig fólk bjó til tólgarkerti og kóngakerti í gamla daga. Jólahald heldra fólks við upphaf 20. aldar er sýnt í Suðurgötu 7 og í krambúðinni verður til sölu ýmis jólavarningur, kramarhús og konfekt. Dillonshús býður upp á ljúffengar veitingar, heitt súkkulaði og jólalegt meðlæti.

Daglegar leiðsagnir á Árbæjarsafni kl. 13.00 – 14.00 Gengið er um safnið með leiðsögumanni. Í desember verður leiðsögnin með skemmtilegu jólaívafi þar sem fólk fær að kynnast gömlum jólasiðum og smakka laufabrauð og jólaöl. Hægt er að panta leiðsögn um safnsvæðið utan þessa tíma, í síma 411 6304 eða á netfanginu borgarsogusafn@reykjavik.is