Innviðirnir ráða ekki við ferðamannafjöldann

skrifað 16. júl 2014
Örvar Már Kristinsson

Í Sviðsljósi hjá Hólmfríði Gísladóttur á Morgunblaðinu voru Örvar Már Kristinsson formaður Félags leiðsögumanna og Grímur Sæmundsen formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Innviðir ferðaþjónustunnar ráða ekki við þann fjölda ferðamanna sem hingað mun koma á næstu árum. Þetta segir Örvar Már Kristinsson, formaður Félags leiðsögumanna, en hann segir að þrátt fyrir að menn hafi rokið upp til handa og fóta og byggt hótel og opnað veitingastaði, þá hafi ekki verið passað nægilega vel upp á þær náttúruperlur sem ferðamennirnir koma til Íslands til að skoða.
„Við erum að biðraðavæða landið,“ segir Örvar. „Það er mitt mat að við séum að setja alltof marga á Gullna hringinn á vissum dögum á meðan svæði eins og Reykjanes, Borgarfjörður og Snæfellsnes geta alveg tekið á móti miklu fleira fólki, bara svo ég taki einhver dæmi út frá Reykjavík. Sama verður maður var við á Mývatni; þegar það eru kannski eitt til tvö skip á Akureyri, þá er svo mikið af fólki að maður er bara að labba þétt upp við næsta hóp. Þannig að upplifun túristanna er ekki sú sem ég, persónulega, vildi veita mínu ferðafólki,“ segir hann.
„Það er spurning hvort það þurfi hreint og beint að fara að taka upp kvóta. Hvað mega fara margar rútur inn á svæði á borð við þjóðgarð? Hvað þolir þjóðgarður? Það er spurning hvort það sé samtal sem þurfi að eiga sér stað, eða hvort við eigum bara að bíða þar til bólan springur,“ segir Örvar. Hann segir að vinna þurfi að uppbyggingu með það í huga að stígandin í ferðaþjónustunni vari ekki að eilífu en viðbúið sé að Ísland hætti á einhverjum tímapunkti að vera hipp og kúl í augum umheimsins.
"Mín skoðun er sú að Ísland ráði vel við þennan ferðamannafjölda, ef við erum bara skipulögð í okkar vinnu að taka á móti ferðamönnum,“ segir Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, spurður að því hversu mörgum ferðamönnum Ísland geti tekið við á ársgrundvelli.
„Ferðaþjónustan er orðin stærsta gjaldeyrisskapandi grein þjóðarinnar og hefur alla burði til að vera það um ókomna framtíð. En vissulega er það alveg rétt að þessi vöxtur undanfarin ár hefur bara orðið og í sjálfu sér komið öllum á óvart,“ segir Grímur. Hann segir að þar af leiðandi hafi stjórnvöld og aðilar innan ferðaþjónustunnar átt fullt í fangi með að halda í við þróunina en það liggi fyrir að teknar verði stefnumótandi ákvarðanir um framtíðina.
Vanþekkingin er vandamál segir Örvar og afar mikilvægt að leiðsögumenn hljóti löggildingu, bæði vegna öryggis ferðamanna og viðkvæmrar náttúrunnar. Hann segir að Félag leiðsögumanna hafi átt í viðræðum við stjórnvöld og Samtök ferðaþjónustunnar um málið. „Ég held að það sé kominn miklu meiri skilningur innan ferðaþjónustunnar á því að það þarf að fara að gera eitthvað í þessu,“ segir hann. Örvar segir mörg dæmi þess að vandamál hafi skapast vegna vanþekkingar erlendra leiðsögumanna á staðháttum. „Við erum að tala um leiðsögumenn sem koma bara með rútu og eru farnir eftir sumarið. Þetta geta verið fínir leiðsögumenn en þá vantar grunnþekkingu um landið,“ segir hann.
Lesið greinina í heild sinni í Morgunblaðinu 15.júlí 2014.