Vel heppnuð IGC ráðstefna og ársfundur á Selfossi

skrifað 09. maí 2014
IGC 2014 a

Um síðustu helgi – 2.- 4. maí – var haldin á Hótel Selfoss ráðstefna og ársfundur IGC – INTERNORDIC GUIDE CLUB eða Samtaka norrænna leiðsögumanna. Upphaflega átti að halda ársfundinn hér á landi í maí 2010, en vegna eldgossins i Eyjafjallajökli varð að hætta við það. Í tilefni af því var ákveðið að umræðuefnið á ráðstefnunni nú yrði afleiðingar eldgosa á ferðalög í heiminum.
Hinir erlendu þátttakendur komu hingað til lands síðdegis fimmtudaginn 1. maí og byrjaði formaður samtakanna Borgþór S. Kjærnested á að fara með hópinn, um 30 manns, í Bláa lónið, þar sem þau fengu upplýsingar um tilurð og rekstur lónsins. Að kvöldverði loknum var síðan ekið að Selfossi.
Föstudagurinn 2.maí var ráðstefnudagurinn þar sem fjallað var um afleiðingar eldgosa á ferðaþjónustuna, og var sjónum einkum beint að gosinu í Eyjafjallajökli vorið 2010 og afleiðingum þess. Eftir að Borgþór hafði sett ráðstefnuna tóku fyrstar til máls jarðfræðingarnir Rikke Pedersen og Guðrún Larsen og fluttu mál sitt með aðstoð kyrrmynda. Þá skýrði Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi Icelandair frá því hvernig félagi brást við vegna eldgossins.
Að hádegisverði loknum talaði Víðir Reynisson yfirmaður Almannavarna um þátt þeirra og annarra sem komu að hjálparstörfum vegna gossins í Eyjafjallajökli og sýndi viðstöddum fróðlegar myndir frá gosunum tveimur og hjálparstörfum. Síðan tók Inga Hlín Pálsdóttir verkefnisstjóri hjá Íslandsstofu við og skýrði frá viðbrögðum stjórnvalda og átakinu Inspired by Iceland. Fulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar- SAF var Gunnar Valur Sveinsson sem talaði um leiðsögumenn og ferðafólk. Hann skýrði m.a. frá könnun sem samtökin gerðu meðal nokkurra félaga sinna varðandi hlutverk leiðsögumanna. Síðust á dagskránni var svo danski leiðsögumaðurinn Kirsten Wedgwood, sem talaði um stöðu leiðsögumanna innan landa Evrópusambandsins. Þar kom m.a. fram að í aðildarsamningum 14 af löndunum innan ESB eru sérstök ákvæði um leiðsögumenn.
Ráðstefnudeginum lauk svo með hátíðarkvöldverði, en áður hafði Árborg boðið upp á fordrykk. Undir borðum kom svo Karlakór Selfoss og flutti nokkur hressileg karlakórslög, og síðan sagði Kjartan Björnsson hárskeri og bæjarstjórnarmaður frá Selfossi.
Ársfundur IGC var svo haldinn laugardaginn 3. maí og hófst með setningu og skýrslu fráfarandi formanns Borgþórs S. Kjærnested. Eftir árskýrslu og umræður um reikninga fóru fram kosningar í trúnaðarstöður samtakanna. Borgþór lét af formennsku og í hans stað var kjörinn finnska konan Eija Sinikka Juho. Fulltrúi íslenskra leiðsögumanna í stjórninni er Ingibjörg Jósefsdóttir leiðsögumnaður og varamaður er Skúli Möller. Í fundarlok urðu svo almennar umræður um framtíð samtakanna. Félagsaðild leiðsögumanna og menntun þeirra er mjög mismunandi á Norðurlöndum.
Fundargestir fóru síðan í stutta ferð til Þingvalla og kvöldverður var í Efstadal í Laugardal, þar sem fylgjast má með kúnum í fjósinu á bænum úr veitingasalnum. Á sunnudeginum fóru flestir hinna erlendu gesta í fylgd með íslenskum starfsbræðrum sínum í ferð um Suðurland.
Undirbúningur að ráðstefnunni og ársfundinum hefur staðið frá því í haust og fékkst styrkur frá opinberum aðilum og ferðaþjónustufyrirtækjum til að standa straum af kostnaði við ráðstefnuna og ferðir.
Auk Borgþórs Kjærnested fráfarandi formanns IGC – Samtaka norrænna leiðsögumanna – tóku leiðsögumennirnir Ragnheiður Björnsdóttir, Ingibjörg Jósefsdóttir, Andrés Svanbjörnsson og Kári Jónasson ásamt formanni Félags leiðsögumanna Örvari Má Kristinssyni þátt í að undirbúa ráðstefnuna og ársfundinn. Hinir erlendu þátttakendur luku miklu lofsorði á undirbúninginn, viðurgjörning allan og skipulag í lokin.
Næsti ársfundur verður haldinn í Svíþjóð og árið 2016 í Noregi. -/kj