Hlutfall ferðaþjónustu eykst stöðugt

skrifað 20. ágú 2015
Rvk

Beint hlutfall ferðaþjónustu í vergri landsframleiðslu (VLF) hefur aukist úr 3,6% árið 2009 í 4,6% árið 2013. Hlutur ferðaþjónustu í VLF fór úr 56,3 milljörðum króna árið 2009 í 87,3 milljarða króna árið 2013, eða sem nemur 55% aukningu á nafnvirði.
Ein af lykilbreytum í útreikningum á hlut ferðaþjónustunnar í þjóðhagsstærðum er hlutfall neyslu ferðamanna af framleiðsluvirði. Sex prósent framleiðsluvirðis komu til vegna ferðaþjónustu árið 2013, borið saman við 4,6% árið 2009. Þetta er yfir 3,9% meðaltali Evrópusambandsins, samkvæmt nýjustu niðurstöðum ferðaþjónustureikninga Evrópsku hagstofunnar (Eurostat) sem birtar voru 2013. Þetta kemur fram í ferðaþjónustureikningum. Þeir eru á vef Hagstofunnar.