Heimsóknarboð á Tales from Iceland

skrifað 10. okt 2017
tales from Iceland

Miðvikudaginn 18. okt klukkan 17:30 stendur leiðsögumönnum til boða að koma og skoða sýninguna Tales from Iceland sem nýlega var sett upp í gamla Austurbæ.

Við hvetjum sem flesta til þess að slást í hópinn en til þess að tryggja að allt fari fram samkvæmt áætlun er nauðsynlegt að skrá þátttöku.
Því biðjum við áhugasama vinsamlegast um að skrá sig í gegnum netfangið
info@touristguide.is fyrir kl 12, þriðjudaginn 17. október.

Athugið : Gert er ráð fyrir að fólk komi sér á staðinn á eigin vegum, eins og best hentar hverjum og einum.

Um sýninguna

Sýningin byggir á fjölmörgum 3-4 mínútna kvikmyndum sem hver segir sína sögu af landi og þjóð. Myndirnar eru sýndar á 14 risaskjám sem komið hefur verið fyrir á tveimur hæðum. Í fyrstu verður sýningin með ensku tali og texta en unnið er að því að bjóða hana á feiri tungumálum.

Á neðri hæð er landslagssýningin „Nature explored by visitors“. Allar myndirnar eru unnar úr raunverulegum upptökum ferðamanna, sem hafa gefið leyfi fyrir notkuninni. Þær bregða ljósi á hvernig landið og eyjarskeggjar koma þeim fyrir sjónir, hvernig þeir upplifðu náttúruna og fólkið sem hér býr. Á efri hæð er fréttasýningin „Breaking news from the past“. Þær myndir eru unnar úr fréttamyndum, að mestu leyti frá RÚV, og sýna valda atburði úr nútímasögu landsins. Fjallað er um listir, íþróttir, utanríkismál, veðurfar, hafið, tónlist og ýmislegt fleira sem ferðalöngum þykir athyglisvert.