Hættulegt framferði ferðafólks

skrifað 27. feb 2015
Gullfoss  Helgi Guðmundsson

Helgi Guðmundsson leiðsögumaður vill vekja athygli á hættulegu framferði ferðafólks. Hann tók þessa mynd og nokkrar aðrar í gær við Gullfoss. Á þessari mynd sést hvar ferðamenn fara fram á gljúfurbarminn við fossinn - þrátt fyrir augljósan háska sem af gæti hlotist og að því er virðist án þess að skeyta minnstu vitund um viðvörunarskilti eða keðju sem strengd er fyrir göngustíg sem öllum má ljóst vera að er lokaður vegna slysahættu. Á myndinni má allvel greina hvernig göngustígurinn er afmarkaður með snúru sem menn hafa reyndar lítið fyrir að klofa yfir sé ásetningur þeirra að komast að árgljúfrinu. Þar sem fólkið á myndinni stendur næst gljúfrinu berst stöðugt úði frá fossinum og myndast við það íshella sem hallar niður að árgljúfrinu. Þarna getur m.ö.o. reynst afar erfitt að fóta sig - að ekki sé minnst á snjóhengjur undir fótum manna sem kynnu að springa fram þegar minnst varir, að ógleymdum snörpum vindhviðum þegar vindstrengi leggur eftir gljúfrinu. Ef eitthvað fer úrskeiðis má segja að einber guðs mildi skeri úr um líf eða dauða og ekkert nema gæfan nær að skilja ferðalanginn frá árgljúfrinu. Vonandi kallar þetta á einhver viðbrögð.